Dagur íslenskrar náttúru 2023

Vetur konungur knýr á dyr

Nú síðsumars tekur lífríki Íslands nokkrum breytingum. Farfuglar eru farnir að hugsa sér til hreyfings. Helsinginn sem Náttúrustofan hefur fylgst með í sumar undirbýr flug sitt til Bretlandseyja og skúmurinn heldur á haf út þar sem hann dvelur á veturnar. Í dag er dagur íslenskrar náttúru. Hann er haldinn ár hvert þann 16. september til heiðurs Ómari Ragnarssyni, afmælisbarni. Dagurinn er tileinkaður Ómari fyrir framlag hans til náttúruverndar og fræðslu um náttúru Íslands. Dagur íslenskrar náttúru fellur því alltaf síðsumars þegar vetrarundirbúningur er hafinn í náttúru Íslands. Það er því ekki úr vegi að nýta tækifærið og velta aðeins fyrir sér hvernig lífverur bregðast við breyttu tíðarfari.

Bláberjalyng sýnir fallega haustliti áður en það fellir laufið

Gróðurríkið getur ekki flúið til heitu landanna

Eins og áður sagði bregða margar fuglategundir á það ráð að yfirgefa varplöndin og leita á hlýrri mið. Þetta er ekki í boði fyrir gróðurinn sem situr rótfastur. Hann verður að grípa til annarra ráðstafana. Margar plöntur fella laufið, til dæmis bláberjalyng. Þær byrja þá oft á því að draga eins mikla næringu úr grænu laufinu og þær geta en skilja litrík niðurbrotsefni eftir sem valda haustlitum.

Aðrar plöntur, svo sem krækilyng, einir, holtasóley og klettafrú, fella ekki laufin yfir veturinn en beita öðrum aðferðum við að vernda þessi mjúku líffæri og þreyja þorrann. Allar eiga þessar plöntur sameiginlegt að þeirra helsta áskorun er frostþensla vatns. Til að lágmarka mögulegan skaða eru mjúkir vefir plöntunnar fylltir af eins konar frostlegi. Vatnssameindir eru bundnar í flókin efnasambönd þannig að þær geta ekki runnið saman í ískristalla og önnur efni sem verka eins og frostlögur eru framleidd í miklu magni.

Þar að auki eru krækilyng og einir eru með löng nálarlaga lauf sem lágmarka kalt yfirborðið en það er ekki mögulegt fyrir klettafrú. Laufblöð klettafrúr eru hennar stærstu líffæri og þar geymir hún vetrarforðann. Það er því óhjákvæmilegt að hafa laufin stór og breið en hún verður að treysta enn frekar á efnafræðilegar varnir, svo sem frostlöginn sem var nefndur hér að ofan.

Klettafrú er með stór, breið sígræn blöð full af frostvarnarefnum

Veturinn er áskorun fyrir allar lífverur

Það er ótrúlegt að velta fyrir sér hvað lífverur, jafnvel mjög einfaldar á að líta, hafa þurft að aðlagast harðneskjulegum aðstæðum í íslenskri náttúru. Hvort sem um er að ræða fugla, spendýr, plöntur eða pöddur, þá er veturinn alltaf áskorun. Dagur íslenskrar náttúru er fullkominn til að fræðast um þessar áskoranir.

Hver er þín uppáhalds sígræna plöntutegund?