Bændur græða landið sumarið 2023
Eins og fyrri ár sinnti Náttúrustofa Suðausturlands nú í sumar úttektum á uppgræðslum í verkefninu Bændur græða landið fyrir Landgræðsluna. Markmið verkefnisins, sem hófst árið 1990, er að styrkja landeigendur til landgræðslu á heimalöndum sínum. Þannig eru þau sem best þekkja til og mestan hag hafa hvött til að stöðva rof, þekja landið gróðri og gera það nýtingarhæft til landbúnaðar að nýju. Náttúrustofan gerir úttektir í Skaftárhreppi og í Sveitarfélaginu Hornafirði. Þátttakendur í ár voru 20 talsins og náðu aðgerðir þeirra til rúmlega 200 hektara.
Þátttakendur voru nokkuð færri í ár en undanfarin ár þar sem þurrkar settu nokkurt strik í reikninginn. Til að ná bestum árangri með áburðargjöf er æskilegt að dreifa áburði stuttu fyrir rigningu. Þar sem síðasta almennilega úrkoman í Skaftárhreppi fyrir sumarið var í maí reyndist það erfitt. Sumir Bændur ákváðu því að taka sér hlé í ár og geyma áburðinn til næsta árs. Þurrkarnir voru þó ekki einungis til trafala því sums staðar urðu áður ófær deiglendi þurr og vélfær. Nýttu þá sumir tækifærið og óku þangað rúllum til uppgræðslu.
Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu vel uppgræðslur bænda eru að taka við sér og við hlökkum til að vinna þetta verkefni áfram.
Frekari upplýsingar um verkefnið Bændur græða landið er að finna hér og eru áhugasamir landeigendur hvattir til að skrá sig til þátttöku.