Landbreytingar á Breiðamerkursandi
Þann 3. júlí 1935 tók Helgi Arason (frá Fagurhólsmýri) mynd framan við Breiðamerkurjökul, með sjónarhorn á Breiðamerkurfjall. Á þeim tíma var fjallið enn umlukið af Breiðamerkurjökli og Fjallsjökli. Nýverið leitaði Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands uppi hvar myndin var tekin og tók aðra frá sama stað. Þá voru næstum full 80 ár liðin frá því að Helgi tók myndina. Ótrúlegar landbreytingar endurspeglast í þeim. Árið 1935 hafði jökullinn hörfað 680 m á þennan stað frá því að hann var í hámarkstærð ~1880-1890. Frá 1935 hefur jökullinn hopað 3400 m og því samtals rúma 4 km þarna. Myndirnar sýna ekki aðeins jökulrýrnunina, landið framan við hefur líka breyst. Frostupplyfting hefur lyft grettistökum svo sum eru meira áberandi og ís þiðnað úr aurnum.