Örlög tveggja jökla, Hofsjökuls eystri og Okjökuls

Í fréttapistlum hefur Náttúrustofa Suðausturlands fyrr vakið athygli á að Sameinuðu þjóðirnar tileinkuðu árið 2025 sem alþjóðaár jökla á hverfanda hveli. Var það notað til að vekja athygli á vatnsfræðilegum, veðurfarslegum áhrifum jökla ásamt samfélagslegri og efnahagslegri þýðingu. Náttúrustofan tók þátt í verkefninu með greinaskrifum og nýverið birtist greinin „The fate of two Icelandic glaciers in a warming climate: Hofsjökull eystri and Okjökull [Örlög tveggja jökla, Hofsjökuls eystri og Okjökuls, í hlýnandi loftslagi]“ í hefti Annals of Glaciology. Tímaritið birtir frumsamdar ritrýndar vísindagreinar og bréf um valda þætti jöklafræði og gefur út áherslutengt efni sem varðar jökla og loftslag.

Greinin er rituð af Snævari Guðmundssyni (Náttúrustofu Suðausturlands), Eyjólfi Magnússyni (Jarðvísindastofnun Háskólans),  Joaquín M.C. Belart (Náttúrufræðistofnun), Hrafnhildi Hannesdóttur (Veðurstofu Íslands) og  Guðfinna Aðalgeirsdóttur (Jarðvísindastofnun Háskólans). Í henni er rakin þróun og örlög tveggja íslenskra jökla, Hofsjökuls eystri á Suðausturlandi og Okjökuls á Vesturlandi og þróun þeirra frá hámarkstærð á litlu ísöld (~1890) til dagsins í dag, ásamt spá um framtíð Hofsjökuls eystri.

Hámarksútbreiðsla jöklanna tveggja var endurgerð með því að nota söguleg kort, skriflegar lýsingar, jarðfræðileg gögn ásamt loft- og gervitunglamyndir. Tímaraðir af stafrænum hæðarlíkönum og íssjármælingar frá 2025 á Hofsjökli eystri veita frekari innsýn í breytingar á yfirborðsflatarmáli, rúmmáli og landslagi undir jöklinum. Þrátt fyrir að jöklarnir tveir séu á svipaðri breiddargráðu (~64,4°N) og hæðarbili (~900–1150 m y.s.) eru þeir í mismunandi loftslagi. Báðir jöklarnir þöktu ~7 km² á fimmta áratug síðustu aldar. Síðan þá hefur Okjökull verið afskráður sem jökull og Hofsjökull eystri hefur misst um 70% af flatarmáli sínu og um 90% af rúmmáli. Mesta þykkt hans árið 2024 var á 55 m. Ef Hofsjökull eystri þynnist með sama hraða á næstu áratugum og síðustu tvo, mun hann hverfa alveg á næstu 30–45 árum.

Niðurstöður greinarinnar verða m.a. kynntar á Haustráðstefnu Jarðfræðifélag Íslands og Jöklarannsóknafélag Íslands, þann 21. nóvember 2025.