Starfsfólk Náttúrustofu Suðausturlands lét sig ekki vanta á líffræðiráðstefnu Líffræðifélags Íslands 2025 fór fram 9.–11. október í Reykjavík. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og þar koma saman flestallir vísindamenn á þessu sviði og koma saman fulltrúar nær allra stofnana og fyrirtækja sem tengjast lífvísindaheiminum á Íslandi. Ráðstefnan er einnig opin öllu áhugafólki um líffræði.
Ráðstefnan var vel lukkuð og mátti hlýða á fjölda áhugaverðra erinda og skoða veggspjöld um fjölbreyttar rannsóknir sem fram fara á íslenskra náttúru víðsvegar um landið. Í ár var framlag Náttúrustofunnar tvö veggspjöld; annars vegar um tröllasmiðinn okkar og hins vegar um áhrif vega á kolefnislosun. Hér að neðan má lesa ágrip og skoða veggspjöldin.
Þekkir þú tröllasmiðinn?
Tröllasmiður (Carabus problematicus) er eitt stærsta skordýr Íslands og finnst aðeins í Sveitarfélaginu Hornafirði. Útbreiðsla hans var könnuð á fjórða áratug síðustu aldar og fannst hann þá á um 21 km löngu svæði frá Hoffelli að Almannaskarði. Á tíunda áratugnum fannst hann úti á Horni, um 27 km frá vestasta fundarstað tegundarinnar í Hoffelli. Frá árinu 2022 hefur Náttúrustofa Suðausturlands aflað gögnum um útbreiðslu tröllasmiðs, notast hefur verið við upplýsingar um hvar almenningur hefur séð tröllasmið og viðvera hans staðfest með notkun fullgildra. Við þessar athuganir bárust stofunni ábendingar um tröllasmið í Lóni en tegundin hefur ekki fundist svo austar lega áður. Frá árinu 2022 hefur stofan handsamað 21 tröllasmið, þar af 4 í Lóni allt austur að Gjádal. Íslenski tröllasmiðurinn telst til sér undirtegundar (C.p. islandicus) og er hana því hvergi að finna annars staðar en á þessu litla afmarkaða svæði í Sveitarfélaginu Hornafirði. Talið er að tröllasmiðurinn hafi borist til landsins fyrir landnám, jafnvel fyrir lok síðasta jökulskeiðs, vekur því takmörkuð útbreiðsla hans athygli. Þrátt fyrir að eiga sér langa sögu á landinu er vöntun á grunnupplýsingum um tegundina og bera þeim fáu heimildum sem til eru um lífsferil og búsvæðaval illa saman. Með rannsóknum sínum hefur Náttúrustofan bætt þekkingu okkar á þessari merkilegu tegund, enn er þó langt í land og afla þarf frekari upplýsinga um tegundina.
Áhrif vegagerðar á kolefnisbúskap mýrlendis
Mýrlendi eru stærstu kolefnisgeymar á landi og varðveita um þriðjung af öllu kolefni sem finnst í jarðvegi á heimsvísu. Virkni mýrlendis sem kolefnisgeymir byggist á súrefnissnauðum aðstæðum í jarðvegi sem hægir á niðurbroti plöntuleifa. Rask á vatnsbúskapi mýrlenda getur aukið aðgengi súrefnis og komið af stað hraðara niðurbroti á plöntuleifum. Í Sveitarfélaginu Hornafirði, við Hornafjarðarfljót, var nýlega lagður vegur í gegnum mýrlendi. Þessi rannsókn skoðar afleiðingar vegagerðar á jarðveginn í umhverfi framkvæmdarinnar. Það var gert með því að kanna hvort að aukning hafi orðið á losun koltvísýrings úr jarðvegi, hvort að breyting hafi orðið á vatnshæð í jarðvegi og hvort að aukning hafi orðið á hlutfalli steinefna í jarðvegi. Til þess að svara því voru lögð út 4 snið beggja megin við veginn og þessir eiginleikar mældir í 0, 2, 5, 10, 30 og 60 metra fjarlægð. Niðurstöður gefa til kynna aukna losun koltvísýrings (CO₂) sé að finna neðan við veginn út frá flæði vatns og að röskun sé á vatnshæð í nágrenni vegsins.



