Grein um Breiðamerkursand og hop Breiðamerkurjökuls á 20. öld í Geografiska Annaler.
Breiðamerkursandur og hop Breiðamerkurjökuls eru höfuðviðfangsefnið í ritrýndri grein sem birtist í alþjóðlega vísindaritinu Geografiska Annaler: Series A, Physical Geography, í lok júní 2019. Í greininni „Testing lichenometric techniques in the production of a new growth-rate (curve) for the Breiðamerkurjökull foreland, Iceland, and the analysis of potential climatic drivers of glacier recession“ er m.a. gerður samanburður á þrem aðferðum í fléttumælingum (lichenometry) til þess að kanna trúverðugleika þeirra. Fléttumælingar hafa verið notaðar til þess að aldursgreina misgamla jökulgarða og þ.a.l. meta hophraða jökla, sérstaklega á norðlægum breiddarbaugum og fjalllendi. Niðurstöður úr slíkum mælingum hér á landi hafa ekki sannfært jarðfræðinga um hvort treysta megi þessum aðferðum, vegna ósamsvörunar í vaxtarhraða á milli svæða. Í þessari grein eru niðurstöður stærðarmælinga á fléttunni Rhizocarbon geographicum borin við þekkta stöðu jökuljaðarsins á 20. öld, til þess að ákvarða vaxtarferil (growth curve) hennar á vestanverðum Breiðamerkursandi. Engin skýr tengsl við veðurfarssveifluna, sem nefnd er Norður-Atlantshafssveiflan (North Atlantic Oscillation = NOA), komu fram en samanburður loftslagssveiflna á 20. öld og rýrnun Breiðamerkurjökuls benda til þess að lofthiti, þá sérstaklega á sumrin, sé helsti hvatinn í hve hratt hann hefur hopað.
Höfundar greinarinnar eru David J. A. Evans, prófessor við Durham háskóla á Englandi, Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands og Jonathan L. Vautrey, KateFernyough & W. Gerard Southworth, sem voru nemendur D. Evans þegar þetta verkefni var unnið.
Greinina í heild sinni má finna hér.