Skúmey í Jökulsárlóni 

Mynd: Fjöldi helsingja í Skúmey í Jökulsárlóni, Öræfajökull í bakgrunni. Mynd tekin af Lilju Jóhannesdóttur.

 

Skúmey er lítil eyja eða hólmi staðsett í Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi. Snævarr Guðmundsson á heiðurinn á nafngift eyjunnar. Kom hann fyrst út í eyjuna árið 2012 og þótti þá viðeigandi að kenna hana við skúma sem voru þar áberandi. Nafngiftin var borin undir þá Helga Björnsson (1925—2015) og Hálfdán Björnsson (1927—2017), frá Kvískerjum, sem voru þá einir eftirlifandi hinna landskunnu systkina. Eyjan birtist undan jaðri Breiðamerkurjökuls á áttunda áratug 20. aldar og um áramótin 2000 var eyjan orðin að fullu jökulvana. Er hún því kjörinn staður til þess að fylgjast með landnámi plantna og dýralífs (Snævarr Guðmundsson o.fl. 2018). 

Mynd: Staðsetning Skúmeyar er a) á Íslandi, b) á Breiðamerkursandi og c) í Jökulsárlóni (Snævarr Guðmundsson o.fl. 2018). 

 

Sumarið 2017 réðst Náttúrustofa Suðausturlands í að kortleggja og kanna þessa afviknu eyju. Verkefnið var unnið í samstarfi við Náttúrustofu Austurlands, Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og Vatnajökulsþjóðgarði. Stjórnendur verkefnisins sóttu einnig um friðun á eyjunni í vísindaskyni til stjórnar þjóðgarðs þar sem sama ár féll Breiðamerkursandur inn í Vatnajökulsþjóðgarð. Á fundi í desember 2017 samþykkti stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs tímabundna lokun á Skúmey að undantöldum ferðum í vísindatilgangi (Snævarr Guðmundsson o.fl. 2018). 

Landmótun 

Skúmey er fyrst sýnd á kort Evans og Twigg (2000) sem byggir á loftmyndum frá 1998. Hún er stærst þeirra skerja sem eru í Jökulsárlóni. Í Skúmey finnast margskonar bergtegundir en eyjan er frábrugðin öðrum skerjum í Jökulsárlóni, sem eru mynduð úr djúpbergi. Þetta stafar af því að Skúmey er jökulurð sem líklegast hefur komið þakin úr urðarrananum Esjufjallarönd. Esjufjallarönd á upptök sín í Esjufjöllum og lá yfir eyjunni þegar hún var hulin jökli (Snævarr Guðmundsson o.fl., 2018). 

Mynd: Efri myndin sýnir Skúmey með 1 m hæðarlínubili. Jökulurð er merkt með rauðlitum flákum en jökulárset með ljósum. Rauðastrikið frá A til B markar hvar þversnið er tekið af eyjunni, þetta þversnið má sjá á neðri myndinni (Snævarr Guðmundsson o.fl. 2018). 

Fjaran á sunnan- og vestanverðri eyjunni nær lengra inn í land (~25 m) en fjaran á austan og norðan verði eyjunni, auk þess er setið á suður- og vestur bökkunum fínna. Fjaran á austan- og norðanverðri eyunni er mest ~5-10 m breið. Hún er stórgrýtt og er að finna 3-4 m háan rofbakka, þetta bendir til þess að meira rof eigi sér stað á norðanverðri eyjunni (Snævarr Guðmundsson o.fl., 2018).  

Bakkinn á norðanverðri eyjunni var skoðaður og tekið í honum jarðvegssnið. Þar fundust fimm lög; jökulurð, botnurð, árset og flóðsetsmylsna, jökulárset og hnullungamöl sem líklega myndar grunn eyjarinnar. Í bakkanum fannst einnig gróðurleif. Aldursgreining á gróðurleifinni leiddi í ljós að sýnið væri 3620 (±30) ára gamalt. Þetta bendir til þess að grunnur eyjarinnar hafi verið hluti fastalandsins, svo hafi jökulinn gengið fram og hopað og skilið eftir sig jökulurðina sem þekur tvo þriðju eyjunnar. Síðasti þriðjungur eyjunnar er þakin jökulárseti (Snævarr Guðmundsson o.fl., 2018).

Landbrú gæti myndast yfir í Skúmey á næstu áratugum og tengt þannig eyjuna við fastalandið. Suðvestan við Skúmey, milli eyju og lands, eru grynningar og sandeyri. Þessar grynningar gætu grynnkað enn frekar þar sem Nýgræðukvísl rennur í jökulsárarlón á þessu svæði og ber með sér set. Enn fremur eykur landris á Breiðamerkursandi undir líkurnar á því að landbrú myndist. Þegar jökulinn hopar er fargi létt af landinu og landið lyftist, á Breiðamerkursandi er landlyftingin ~25mm á ári (Snævarr Guðmundsson o.fl., 2018) 

Gróðurfar 

Gróður er enn að nema land í Skúmey. Gróðurþekja og tegundasamsetning er afar mismunandi á eyjunni þrátt fyrir að hún sé smá. Þessi mismunur skýrist sennilega af því að svæðin komu undan jökli á mismunandi tímum. Auk þess hafa landfræðilegir þættir svo sem jökulruðningar og lega eyjarinnar, ríkjandi vindátt og misþétt helsingjavarp einnig áhrif á gróðurinn. Gróður þekja í Skúmey er rýr, eða u.þ.b. 20% að meðaltali, gróðurþekjan er þó þéttari á suðvestur hluta eyjunnar, eða u.þ.b. 50%. Þetta stafar af því að suðvestur hluti eyjunnar kom fyrstur undan jökli og hefur því gróður haft lengri tíma til að nema þar land og vaxa (mynd xx) (Snævarr Guðmundsson o.fl., 2018). 

  

Mynd: Hér má sjá hve msjöfn gróðurþekjan er í Skúmey. A) sýnir svæði sem kom undan jöli um 1998 og er að mestu leiti ógróið. B) sýnir svæði sem kom fyrr undan jökli, um 1980, og er það að meðaltali 50% gróðurþekja.

 

Jarðvegsmyndun í Skúmey er lítil og getur því framboð næringarefna t.d. niturs og kolefnis verið takmarkandi þáttur fyrir landnám og vöxt gróðurs. Helsingjavarp getur því haft mikil áhrif á gróðurfar eyjunnar, bæði jákvæð og neikvæð. Meðan helsinginn er í eyjunni bítur hann gróðurinn og sækir sérstaklega í grös og ákveðnar blómplöntur, t.d. hundasúrur. Þessar plöntur geta því átt erfitt uppdráttar meðan helsinginn dvelur í eyjunni. Þegar helsinginn fer úr eyjunni að loknu klaki mánaðarmótin maí-júní fær gróðurinn frí frá beitinni og skíturinn sem helsinginn skilur eftir virkar sem áburður fyrir plönturnar, þá getur gróðurinn tekið við sér. Í Skúmey má sjá þétta gróðurþekju í kringum sum helsingjahreiður, þetta er gott dæmi um að helsingjaskítur sé góður áburður fyrir gróðurinn (mynd xx) (Snævarr Guðmundsson o.fl., 2018). 

Skúmey er friðuð fyrir umgangi manna, utan vísindaferða. Fuglar, skordýr og spendýr (t.d. minkur) komast hinsvegar óhindrað í eyjuna og geta borið með sér fræ frá meginlandinu. Skúmey veitir því einstakt tækifæri til rannsóknar á náttúrulegri gróðurframvindu (Snævarr Guðmundsson o.fl., 2018) 

Dýralíf 

Í Skúmey er aðallega að finna fugla og pöddur. Það hafa þó fundist ummerki um mink í eyjunni. Í maí árið 2017 höfðu nokkur hreiður verið rænd af mink og í lok júní sama ár fannst minkahræ í eyjunni. Í Skúmey hafa fundist 5 fuglategundir í varpi en segja mætti að fuglalífið einkennist mest af helsingjavarpinu þar. Skúmey er stærsti einstaki varpstaður helsingja á Íslandi og er varpið í eyjunni óvenju þétt miðað við aðra varpstaði tegundarinnar. Í leiðangri sem farið var í árið 2017 til að rannsaka eyjuna, þ.m.t. dýralíf, voru talin 968 helsingjahreiður, sem var 168% aukning frá árinu 2014 þegar talin voru 361 helsingjahreiður. Til samanburðar fundust aðeins 11 hreiður annara fuglategunda árið 2017, 6 æðakolluhreiður, 3 skúmshreiður og 2 sendlingahreiður. Einnig fannst eitt svartbaksegg í helsingjahreiðri (Snævarr Guðmundsson o.fl., 2018).  

Lesa má meira um helsingja hér.

 

Pöddulíf Skúmeyjar var tekið út árið 2017 og fundust þá 54 tegundir skordýra, margfætla og áttfætla. Auk þess fannst ein tegund liðorms. Skúmey er stutt frá meginlandinu auk þess sem fuglar geta borið með sér smádýr, þetta gerir landnám tiltölulega auðvelt. Flestar þeirra tegunda sem fundust eru tegundir sem búast mátti við en nokkrar tegundir komu rannsóknarmönnum á óvart. Það er þá helst að nefna tvær flugna tegundir (tvívængjur) sem finnast helst í blómlendi annarsvegar og skóglendi hinsvegar. Gróður í Skúmey er mjög rýr sem og á Breiðamerkursandi sem umlykur Jökulsárlón og því tiltölulega langt í næstu blómlendi og skóglendi (Snævarr Guðmundsson o.fl., 2018). 

 

Heimildir 

Snævarr Guðmundsson, Kristín Hermannsdóttir, Guðrún Óskarsdóttir, Skarphéðinn G. Þórisson, Hrafnhildur Ævarsdóttir, David Evans, Brynjúlfur Brynjólfsson og Björn Gísli Arnarson. (2018). Skúmey í Jökulsárlóni. Náttúrustofa Suðausturlands, Höfn í Hornafirði. 62 bls.