Helsingi (Branta leucopsis)

Mynd: Helsingi á hreiðri í Skúmei, mynd tekin af Skarðhéðni G. Þórissyni (Snævarr Guðmundsson o.fl. 2018). 

 

Helsingi (Branta leucopsis) er hánorræn gæsategund. Hann er af ættkvísl svartgæsa og er þar í hópi fimm annarra gæsategunda sem allar halda sig á norðurslóðum. Helsingi er smávaxinn eins og aðrar gæsir í þessari ættkvísl. Hann er svartur á hálsi og brjósti en hvítur á kvið, vængir og bakhluti er grár. Á enni, kinnum og kverk er helsinginn hvítur eða rjómagulur. Enginn litamunur er á kynjunum og helst hamurinn eins allan ársins hring (Ævar Petersen, 1998; Þórdís Vilhelmína Bragadóttir & Arnþór Garðarsson, 2008). Ungir helsingjar eru brúnni á baki en fullorðnir og með dökka bletti á hvíta svæði höfuðsins. 

Stofnar helsingja eru þrír og vel aðskildir. Einn stofninn er á Vigach-eyju og Novaya Zemlya í Rússlandi, annar á Svalbarða og sá þriðji á Norðaustur-Grænlandi. Helsingjarnir sem finnast hér eru taldir til Grænlandsstofnsins (Madsen, Cracknell & Fox, 1999). Grænlenski varpstofninn hefur vetrarstöðvar á Bretlandseyjum og Ísland er mikilvægur viðkomustaður fuglanna á leið sinni til og frá Bretlandseyjum. Á Íslandi er helsingi fyrst og fremst fargestur þar sem hann dvelur í 4-6 vikur að vori og hausti til hvíldar (Halldór Walter Stefánsson, 2016). Helsingi hefur þó á undanförnum áratugum farið að verpa í auknum mæli hérlendis. Fyrst urðu Íslendingar varir um helsingjavarp í Breiðafirði árið 1964, þá urpu helsingjar í eyjum í um 20 ára tímabil. Árið 1988 tóku helsingjar svo að verpa í hólmum á jökullóni á Breiðamerkursandi og hefur varp þar vaxið til muna og breiðst út á Suðausturlandi. Í dag er eyjan Skúmey, staðsett í vestanverðu Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi stærsta varplendi helsingja á Íslandi (Snævarr Guðmundsson o.fl. 2018). 

Náttúrustofa Suðausturlands hefur frá árinu 2014 fylgst með stofnstærð og varpútbreiðslu helsingja í Skúmey auk annarra staða í Sveitarfélaginu Hornafirði. Lögð hefur verið áhersla á Skúmey þar sem um er að ræða nýtt landsvæði með mikilli aukningu af varppörum. Skúmey er staðsett í vestanverðu Jökulsárlóni og birtist undan jaðri Breiðamerkurjökuls á áttunda áratug 20. aldar. Um áramótin 2000 var eyjan orðin að fullu jökulvana (Snævarr Guðmundsson o.fl. 2018). Meira má lesa um Skúmey hér.

Varppör Helsingja í Skúmey árin 2014 – 2020

Fjöldi helsingja varppara í Skúmey hefur aukist allverulega á árunum 2014 til 2020. Náttúrustofa Suðausturlands hóf talningar í Skúmey árið 2014 og töldust þá 361 varppar. Árið 2017 voru pörin orðin 968, 1180 pör töldust árið 2018, 1330 árið 2019 og 1495 árið 2020 (Lilja Jóhannesdóttir o.fl., 2021). 

Mynd: Varppör helginja í Skúmey frá 2014 til 2020.

 

 

Mynd: Til vinstri má sjá staðsetningar helsingjahreiðra sem talin voru 2014, voru hreiðrin þá 361 talsins. Til hægri má sjá staðsetningar helsingjagreiða sem talin voru í maí 2017. Höfðu hreiðrum fjölgað mikið frá síðustu talningu of voru orðin 968 (Snævarr Guðmundsson o.fl. 2018).

 

Fjöldi eggja í hreiðri

Mikill breytileiki er í fjölda eggja í hverju hreiðri hjá helsingjum í Skúmey. Algengast er að 4 egg séu í hreiðri en þó hafa fundist hreiður með allt að 12 eggjum. Á myndinni hér að neðan má sjá  dreifingu eggja í hreiður við athugun árið 2017. Áhugavert er að taka eftir að helsingjar hafa gjarnan stein meðal eggjanna í hreiðri sínu, af hverju er þó ekki vitað en líklegt er að steinninn haldi hita lengur á eggjunum og veiti stuðning (Snævarr Guðmundsson o.fl. 2018). 

Mynd: Fjöldi eggja í hreiðri árið 2017. Mest innihélt eitt hreiður tólf egg, flest freiður innihéldu fjögur (Snævarr Guðmundsson o.fl. 2018). 

 

Mynd: Helsingjahreiður í skúmey árið 2017. Mynd tekin af Brynjúlfi Brynjólfsyni (Snævarr Guðmundsson o.fl. 2018). 

 

Heimildir 

Halldór Walter Stefánsson. (2016). Íslenski grágæsastofninn 2012: fjöldi og dreifing á láglendi að vorlagi. Náttúrustofa Austurlands, NA-160156. Neskaupsstaður: Náttúrustofa Austurlands. 

Lilja Jóhannesdóttir, Kristín Hermannsdóttir og Svenja N.V. Auhage. (2021). Helsingjavarp í Skaftafelssýslum 2020. Náttúrustofa Suðausturlands, Höfn í hornafirði. Minnisblað, 9 bls. 

Madsen, J., CracknellG. og Fox, A.D (ritstj.). (1999). Goose Populations of the Western Palearctic: a review of status and distribution. Wetlands International Publivations no. 48. National Environment Research Institute. 

Snævarr Guðmundsson, Kristín Hermannsdóttir, Guðrún Óskarsdóttir, Skarphéðinn G. Þórisson, Hrafnhildur Ævarsdóttir, David Evans, Brynjúlfur Brynjólfsson og Björn Gísli Arnarson. (2018). Skúmey í Jökulsárlóni. Náttúrustofa Suðausturlands, Höfn í Hornafirði. 62 bls. 

Þórdís Vilhelmína Bragadóttir og Arnþór Garðarsson. (2008). Helsingjar í innanverðum Skagafirði: Hvar halda þeir til? Í Þorsteinn Sæmundsson, Armelle Decaulne og Helgi Páll Jónsson, ritstj. Skagfirsk náttúra 2008: málþing um náttúru Skagafjarðar (bls. 58-62). Náttúrustofa Norðurlands vestra.  Sauðárkrókur. 

Ævar Petersen. (1998). Íslenskir Fuglar. Vaka-Helgafell.