Skúmur (Stercorarius skua)

Mynd: Skúmur á Breiðamerkursandi. Mynd tekin af Lilju Jóhannesdóttur 2022.

 

Skúmur er farfugl af kjóaætt (Stercorariidae) sem verpir á Íslandi á sumrin sem og á öðrum svæðum við norðaustur Atlantshaf (Furness 1987). Á veturnar heldur hann suður á bóginn og eyðir vetrinum úti á sjó austan Norður-Ameríku, norðvestan Afríku og sunnan- og vestan Evrópu (Magnusdottir o.fl., 2012). Skúmar eru langlífir og varð elsti skúmur sem vitað er um 38 ára (Robinson o.fl., 2018). Fullorðnir skúmar hafa háar lífslíkur, þar sem 90% fullorðinna einstaklinga lifir milli ára (Furness, 1987; Ratcliffe o.fl., 2002). Skúmar verða kynþroska um 4-9 ára og verpa 1-2 eggum í einu. Þeir sýna bæði maka- og átthagatryggð, þ.e. að þeir koma aftur á uppeldistöðvar sínar til að verpa (Furness, 1987; Klomp og Furness 1992). Skúmar eru ofarlega í fæðukeðjunni og eru tækisfærissinnar, þeir afla sér fjölbreyttar fæðu á margskonar máta. Þeir veiða fiska, fugla og í sumum tilfellum spendýr. Einnig eru þeir hræætur sem og þeir stela mat af öðrum fuglategundum (e. kleptoparasitism) (Furness 1987). Það hve skúmur er tækifærissinnaður hefur reynst honum vel og hefur gert honum að nokkru leiti kleift að aðlagast betur breyttum fæðuaðstæðum heldur en mörgum öðrum sjófuglum sem margir hafa átt á brattan að sækja undanfarið (Church, 2019).  

 

Mynd: Skúmsungi á Breiðamerkursandi. Mynd tekin af Lilju Jóhannesdóttur 2022.

 

Skúmur er friðaður skv. lögum frá 1994. Stór hluti (u.þ.b. 75%) Íslenska skúmastofnsins verpir á Breiðamerkursandi og Öræfum. Á níunda áratug síðustu aldar var áætlað að 2820 pör urpu á Breiðamerkursandi (Lund-Hansesn og Lange 1991). Sumarið 2018 var varp kortlagt á Breiðamerkursandi og fundust þá aðeins 175 hreiður (Lilja Jóhannesdóttir og Kristín Hermannsdóttir, 2019) sem bendir til mikillar fækkunar skúms á Breiðamerkursandi. Í kjölfar þess var tegundin færð á válista Náttúrufræðistofnunnar Íslands haustið 2018 (Lilja Jóhannesdóttir, 2021) og er nú skilgreindur sem í bráðri hættu (CR) (Náttúrufræðistofnun Íslands, 2018). Í framhaldinu var varp skoðað á nálægum svæðum svo sem Skeiðarársandi og Ingólfshöfða. Sú úttekt leiddi í ljós að töluverð fækkun hafði orðið á Skeiðarársandi þar sem aðeins 5 hreiður fundust sumarið 2019 (Lilja Jóhannesdóttir o.fl., 2021), en í landúttektinni sem gerð var 1984-1985 voru 1275-1418 varppör metin vera á svæðinu (Lund-Hansen og Lange, 1991). Mismunandi aðferðum var beitt en það skýrir ekki þá miklu fækkun sem orðið hefur á Skeiðarársandi. Ein hugsanleg útskýring er hve breytilegur Skeiðarársandur er og hve miklar breytingar verða af völdum jökuláa á svæðinu. Einnig er mögulegt að jökulhlaupið í kjölfar Gjálpargossins árið 1996 hafi skemmt einhver búsvæði skúmsins (Lilja Jóhannesdóttir o.fl., 2021). Í Ingólfshöfða hefur skúm fjölgað. Árið 2019 voru fundust 147 hreiður (Lilja Jóhannesdóttir o.fl., 2021) en árin 1984-1985 var metið að væru 4-6 varppör í Ingólfshöfða (Lund-Hansesn og Lange 1991). Erfitt er að segja hvað skýrir þennan mun en það sem gerir Ingólfshöfða frábrugðin Breiðamerkursandi og Skeiðarársandi er að Ingólfshöfði er friðland. Þangað eru fuglaskoðunarferðir og er hugsanlegt að mannaferðinar sem þeim fylgja hafi fælingarmátt gegn afræningjum auk þess sem afræningjum, svo sem mink og tófu, er haldið í skefjum í friðlandinu.   

Ástæður þessar gríðarlegu fækkunar í skúmastofninum á söndum Suðausturlands er óljós. Ein kenning er að það hefi gerst í kjölfar hruns í sandsílastofninum við Íslandsstrendur (Lilja Jóhannesdóttir o.fl., 2021) sem átti sér stað eftir síðustu aldamót (Valur Bogason o.fl., 2016). En sandsíli eru hentug fæða fyrir skúmsunga þar sem þau eru próteinrík og auðmeltanleg. Auk þess eru sandsíli mikilvæg fæða fyrir skúmsunga á öðrum svæðum svo sem á Skotlandi (Hamer o.fl, 1991). Strangari reglur um brottkast gætu líka skírt fækkunina í skúmastofninum. Áður fyrr var algengt að innmat og meðafla var hent frá borði á miðunum. Þetta hefur breyst verulega þar sem bátar þurfa nú að koma með meðafla til löndunnar. Auk þess er aðsókn minni en áður á fiskimið út af Breiðamekrusandi þar sem humarveiðar hafa mingað verulega (Lilja Jóhannesdóttir og Kristín Hermannsdóttir, 2019). Einnig er líklegt að lélegur varpárangur orsaki hnignunina í skúmastofninum. Mat sem lagt var á varpárangur skúms á Breiðamerkursandi og Öræfum sumarið 2019 sýndi að varparangur þar er fremur slakur miðað við tölur frá Noregi. Hinsvegar getur varpárangur sveiflast milli ára auk þess sem sjófuglar geta sleppt úr árum í varpi séu aðstæður óheppilegar. Þar af leiðandi þarf að afla betri þekkingar um varpárangur til lengri tíma til að draga ályktanir um það hvort slakur varpárangur sé orsök hnignunar íslenska skúmastofnsins (Lilja Jóhannesdóttir, 2021). 

 

Heimildir 

Church, G.E., Furness, R.W., Tyler, G., Gilbert, L., Votier, S.C. (2019). Change in the North Sea ecosystem from the 1970s to the 2010s: great skua diets reflect changing forage fish, seabirds and fisheries. ICES Journal of Marine Science, 76 (4), 925-937. https://doi.org/10.1093/icesjms/fsy165 

Furness, R.W. (1987). The Skuas. T & A D Poyser, London. 

Klomp, N. I., & Furness, R. W. (1992). The dispersal and philopatry of great skuas from foula, Shetland. Ringing & Migration, 13(2), 73–82. doi:10.1080/03078698.1992.9674022  

Lilja Jóhannesdóttir. (2021). Varpárangur skúms á Breiðamerkursandi og í Öræfum 2019. Náttúrustofa Suðausturlands, Höfn í Hornafirði, maí 2021. 10 bls. 

Lilja Jóhannesdóttir, Brynjúlfur Brynjólfsson og Björn Gísli Arnarson. (2021). Varpútbreiðsla skúms í Inólfshöfða, Salthöfða og á Skeiðarársandi 2019. Náttúrustofa Suðausturlands, Höfn í Hornafirði, maí 2021. 8 bls. 

Lilja Jóhannesdóttir og Kristín Hermannsdóttir. (2019). Kortlagning skúmshreiðra á Breiðamerkursandi 2018. Náttúrustofa Suðausturlands, Höfn í Hornafirði, mars 2019. 14 bls. 

Magnusdottir, E., Leat, E.H.K., Bourgeon, S., Strøm, H., Petersen, A., Phillips, R.A., Hanssen, S.A., Bustnes, J.O., Hersteinsson, P., Furness, R.W.. (2012). Wintering areas of Great Skuas Stercorarius skua breeding in Scotland, Iceland and Norway. Bird Study, 59(1), 1-9. 

Náttúrufræðistofnun Íslands. (2018). Válisti fugla. Sótt 30.6.2022 af https://www.ni.is/midlun/utgafa/valistar/fuglar/valisti-fugla 

Ratcliffe, N., Catry, P., Hamer, K.C., Klomp, N.I., Furness, R.W.,. (2002). The effect of age and year on the survival of breeding adult Great Skuas Catharacta skua in Shetland. Ibis 144, 384-392. https://doi.org/10.1046/j.1474-919X.2002.00066.x 

Robinson, R.A., Leech, D.I., Clark, J.A. (2018). The Online Demography Report: Bird ringing and nest recording in Britain & Ireland in 2017, BTO, Thetford (http://www.bto.org/ringingreport, created on 7-September-2018).