Hornafjarðarjöklar
Fláajökull, mynd tekin með flygildi.
Skálafellsjökull, Heinabergsjökull, Fláajökull og Hoffellsjökull eru stærstu skriðjöklarnir á Mýrum og í Hornafirði. Þeir eiga allir upptök sín í Breiðubungu í Vatnajökli (Helgi Björnsson, 2009). Undir lok litlu ísaldar náðu þessir jöklar hámarksstærð. Á þeim tíma lágu Skálafellsjökull og Heinabergsjökull saman fyrir framan Hafrafell, og sporður Fláajökuls hvíldi í um 900 m frá þeim síðarnefnda (Hannesdóttir o.fl, 2014). Þegar skriðjöklarnir úr Breiðubungu voru í hámarksstöðu stífluðu þeir hliðardali og gil, og þar safnaðist fyrir vatn. Þegar vatnþrýstingur í þessum jaðarlónum varð hærri en jökullinn gat haldið braust vatnið undir jökulinn og flæddi niður á láglendið í jökulhlaupum (Helgi Björnsson, 2009). Hlaup af þessu tagi höfðu umtalsverð áhrif á ræktarlönd á Mýrum á 19. öld og fyrri hluta þeirrar tuttugustu, og þar af leiðandi afkomu íbúa á þessu svæði.
Líkt og aðrir skriðjöklar Vatnajökuls hafa þessir skriðjöklar hopað ört (Hannesdóttir o.fl, 2014; Snævarr Guðmundsson og Helgi Björnsson, 2017). Sporðar þeirra hafa hörfað, þynnst og tungurnar brotnað upp, sérstaklega á Heinabergsjökli og Hoffellsjökli. Miklar breytingar áttu sér stað árið 2015 við eystri jaðar Hoffellsjökuls í kjölfar mikillar úrkomutíðar og á jaðarvötnunum Gjávatni og Múlavatni. Eftir úrkomutíð hljóp Gjávatn og rauf nýjan farveg undir jökulinn, með þeim afleiðingum að vatnið hefur ekki myndast aftur (Snævarr Guðmundsson o.fl., 2015; Snævarr Guðmundsson og Helgi Björnsson, 2019).
Myndirnar tvær eru af Heinabergsjökli á Mýrum. Á efri myndinni er jökullinn í júlí árið 2018 og til samanburðar er mynd frá ágúst 2020. Rýrnun jökulsins er augljós, jafnvel þó að fremsta tungan lítið hafa hopað.
Heimildir
Hannesdóttir, H., Björnsson, H., Pálsson, F., Aðalgeirsdóttir, G. and Guðmundsson, S. (2014). Variations of southeast Vatnajökull ice cap (Iceland) 1650–1900 and reconstruction of the glacier surface geometry at the Little Ice Age maximum. Geografiska Annaler: Series A, Physical Geography, 97(2), 237-264. https://doi.org/10.1111/geoa.12064
Helgi Björnsson. (2009). Jöklar á Íslandi (bls. 228-). Opna. Reykjavík.
Snævarr Guðmundsson, Helgi Björnsson & Anna Lilja Ragnarsdóttir. (2015). Land- og jökulbreytingar við Hoffellsjökul. Jökull 65, 97-102.
Snævarr Guðmundsson og Helgi Björnsson. (2017). Jöklabreytingar skoðaðar með gömlum ljósmyndum. Jökull 67, 51-65.
Snævarr Guðmundsson og Helgi Björnsson. (2019). Breytingar við Breiðamerkurjökul og Hoffellsjökul 2010-2019. Jökull 69, 137-144.