Stjörnumælingar 2016 til 2017
Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands, sem greinir frá ljósmælingum á völdum myrkvatvístirnum og fjarreikistjörnum, sem flestar voru gerðar frá Hornafirði árin 2016 til 2017. Myrkvatvístirni eru tvær [sól]stjörnur bundnar sameiginlegri þungamiðju. Frá jörðu séð aðgreinast þær ekki í sjónaukum og sést aðeins „stök” stjarna. Breytingar á birtustyrk leiða hins vegar í ljós raunverulegt eðli þeirra. Fjarreikistjörnur tilheyra fjarlægum sólkerfum. Þegar reikistjarna [þver]gengur fyrir móðurstjörnu sína hefur það áhrif á birtustyrkinn. Hægt er að nema breytinguna með nákvæmum ljósmælingum. Í skýrslunni er sagt frá hverju viðfangsefni sérstaklega. Að frátöldum athugunum 2016—2017 er tveim eldri viðfangsefnum skotið inn.
Skýrslan er önnur í röðinni yfir stjörnuathuganir sem gefin er út af Náttúrustofu Suðausturlands. Niðurstöður hafa verið sendar í alþjóðlegt gagnasafn þar sem þær, ásamt fjölda sambærilegra mæligagna frá stjörnuáhugamönnum, eru aðgengilegar stjarnvísindasamfélaginu. Hægt er að nálgast skýrsluna hér eða sækja hana og annað efni tengt stjarnmælingum inni á útgefið efni hjá Náttúrustofu Suðausturlands.