Öræfajökull
Öræfajökull, séður frá Breiðamerkursandi.
Öræfajökull er virk eldkeila sem gengur suður úr Vatnajökli. Efsti hluti hennar er ísfyllt askja sem er ~14 km2 að flatarmáli. Botn öskjunnar liggur í ~1300 metra hæð yfir sjávarmáli (Magnússon o.fl. 2012). Á öskjurimanum rísa tindar og hnjúkar upp úr jöklinum, Hvannadalshnjúkur, Rótarfjallshnjúkur, Sveinstindur, Sveinsgnípa, Austari- og Vestari Hnappur. Hvannadalshnjúkur er hæstur þeirra og ásamt því hæsti tindur Íslands (Helgi Björnsson, 2010). Hæðarmunur berggrunnsins undir Öræfajökli nær frá ~200 metrum undir sjávarmáli og upp í ~2100 m hæð yfir sjó, eða um 2300 m. Botn t.d. Svínafellsjökuls og Fallsjökuls ná niður fyrir sjávarmál. Eftir því sem jökulinn hopar munu sporðlón þessara skriðjökla stækka. Það er talið að ef skriðjöklar Öræfajökuls bráðna muni stærsta stöðuvatnið myndast í bæli Skaftafellsjökuls (11 km2 og 0,8 km3) en dýpsta stöðuvatnið í bæli Svínafellsjökuls (Magnússon o.fl. 2012).
Skriðjöklar vestan Öræfajökuls eru viðkvæmari fyrir loftlagsbreytingum heldur en skriðjöklarnir austan hans. Ræðst það af hæð safnsvæða sem er nokkur hundruð metrum lægri en skriðjöklum sem koma úr öskju Öræfajökuls. Jafnvægislína segir til um mörk safnsvæðis og leysingasvæðis á jökli. Ofan hennar safnast meiri snjór til að vetrum en nær að bráðna að sumri. Neðan hennar leysir hins vegar vetrarsnjó og hjarn. Þegar loftslag hlýnar hækka þessi mörk. Við það stækka leysingasvæðin á kostnað safnsvæða, meira tapast en tínist til. Það er áætlað að ef jafnvægislínan færist upp fyrir 1300 m yfir sjávarmál þá myndi Morsárjökull líklegast hverfa að fullu og Skaftafellsjökull verða að litlum jökli í fjallstoppum norðan Öræfajökuls (Magnússon o.fl., 2012).
Náttúrustofa Suðausturlands hefur annast jökulsporðamælingar síðan árið 2013. Skriðjöklar Öræfajökuls sem eru mældir eru Kvíarjökull, Hrútárjökull og Fjallsjökull. Auk þess er Breiðamerkurjökull mældur á hverju ári, beggja vegna Jökulsárlóns. Þessar mælingar gefa meðal annars góðar upplýsingar um loftlagsbreytingar og hnattræna hlýnun.
Heimildir
Helgi Björnsson 2009. Jöklar á Íslandi. Opna. Reykjavík.
Magnússon, R., Pálson, F., Björnsson, H. og Guðmundsson S. 2012. Removing the ice cap of Öræfajökull central volcano, SE-Iceland: Mapping and interpretation of bedrock topography, ice volumes, subglacial troughs and implications for hazards assessments. Jökull 64, 131-150.