Hressir krakkar í tunglskoðun hjá Náttúrustofu Suðausturlands

Að morgni 31. janúar fengum við hressa krakka úr sjötta bekk grunnskóla Hornafjarðar í heimsókn. Tilefnið var samstaða tunglsins með reikistjörnunum Venus og Júpíter. Í ljósaskiptunum þann morguninn voru þessir hnettir reyndar afar lágt á lofti og sáust því í mikilli tíbrá. Þó mátti greina stóra gíga í yfirborði tunglsins. Aðstæður voru þó allt annað en heppilegar fyrir þessa iðkun því napur vindur og talsvert frost bitu frá sér. Því varð heimsóknin fremur stutt. En svona er þetta stundum og aðstæður ráða því hvað má gera. Krakkarnir létu þetta lítið á sig fá og allir kíktu á tunglið með stjörnusjónauka Náttúrustofu Suðausturlands áður en haldið var í skólann til venjubundnari kennslu.