Fortíðarsamtal fyrir framtíðina
Á dögunum birtum við fjögur viðtöl á YouTube rás stofunnar sem Snævarr Guðmundsson og Kristín Hermannsdóttir tóku við eldri konur úr Skaftafellssýslum á árunum 2020 og 2021.
Rætt var við:
- Elínborgu Pálsdóttur, fædd á Böðvarshólum í Vesturhópi 3. september 1923, en flutti síðar á Höfn. Viðtalið er tekið 3. september 2021
- Höllu Bjarnadóttur, fædd á Holtum á Mýrum 24. febrúar 1930 en flutti síðar á Höfn. Viðtalið er tekið 21. september 2021
- Ingibjörgu Zophoníasdóttur, fædd á Hóli í Svarfaðardal 22. ágúst 1923, en flutti síðar að Hala. Viðtalið er tekið 24. ágúst 2021
- Laufeyju Lárusdóttur, fædd á Svínafelli í Öræfum 14. ágúst 1927, en bjó síðar í Skaftafelli. Viðtalið er tekið 30. júní 2020
Viðtölunum er ætlað að varðveita sögu þeirra og upplifun af umhverfisbreytingum, breyttum atvinnuháttum og tíðaranda. Á ævi sinni urðu þessar konur vitni af miklum breytingum á samfélagi, náttúru og tækni en saga kvenna hefur oft á tíðum ekki fengið eins mikla athygli og frásagnir karla.
Verkefnið fortíðarsamtal fyrir framtíðina er samstarfsverkefni milli Náttúrustofu Suðausturlands og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og var styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Viðtölin voru fyrst aðgengileg almenning á 20 ára afmælishátíð Nýheima sem haldin var í lok ágúst 2022 en nú hefur aðgengi að þeim verið aukið með birtingu á YouTube og vonum við að þið njótið vel. Allar konurnar gáfu leyfi sitt fyrir birtingu viðtalsins og má nálgast hvert og eitt viðtal með að smella á nafn viðkomandi konu hér að ofan. Rannveig Rögn Leifsdóttir vann viðtölin.