Breiðamerkurjökull

Breiðamerkurjökull þar sem hann kelfir í Jökulsárlón.

 

Breiðamerkurjökull er fjórði stærsti skriðjökull frá Vatnajökli (Guðmundsson, Björnsson og Pálsson, 2017). Breiðamerkurjökull hopar einna hraðast af skriðjöklum Íslands, m.a. vegna þess að það brotnar (kelfir) stöðugt af honum í Jökulsárlón (Helgi Björnsson, 2010). Kelfingin veldur því að aukinn hluti Breiðamerkurjökuls hnígur og leitar í áttina að Jökulsárlóni. Þetta sést vel á því að urðarraninn Esjufjallarönd, sem á upptök sín í Esjufjöllum, hefur sveigst til austurs og fellur nú í Jökulsárlón (Guðmundsson og Björnsson, 2016). Árið 2016 fór að sjást í nýtt jökulsker í Breiðamerkurjökli, vegna þess hve ört jökulinn rýrnar og yfirborð hans lækkar koma sífellt fleiri jökulsker í ljós (Guðmundsson, Björnsson og Pálsson, 2017). Einnig hafa sker í Jökulsárlóni komið í ljós eftir því sem jökulinn hopar. Þessi sker eru öll í NNV átt frá Skúmey. En ólíkt Skúmey, sem þakin er jökulurð, eru þessi sker gróðursnauð og mynduð úr djúpbergi. Stærsta skerið sem komið hefur undan jöklinum er 0,5 ha af stærð en þau minni eru um 0,01 ha (Snævarr Guðmundsson, 2018). 

Jökulsárlón við Breiðamerkurjökul er stærsta sporðlón á Íslandi. Það er jafnframt eina jökullónið þar sem gætir sjávarfalla. Lónið byrjaði að myndast á þriðja áratugnum við hop Breiðamerkurjökuls. Lónið hefur stækkað ört, sérstaklega á síðustu áratugum. Stækkun lónsins var mikil á tímabilinu 1990-2018, en þá meira en tvöfaldaðist stærð lónsins , m.a. vegna þess að Stemmulón rann saman við það. Árið 2017 var Jökulsárlón orðið 8 km langt og hafði mælst 260-300 m djúpt. Var það þar með orðið dýpsta stöðuvatn landsins (Guðmundsson o.fl., 2019). 

 

Heimildir

Guðmundsson, S. & Björnsson, H. 2016. Changes in the flow pattern of Breiðamerkurjökull reflected by bending og Esjufjallarönd medial moraine. Jökull 66, 95-100. 

Guðmundsson, S., Björnsson, H., & Pálsson, F. 2017. Changes of Breiðamerkurjökull glacier, SE-Iceland, from its late nineteenth century maximum to the present. Geografiska Annaler: Series A, Physical Geography, 99(4), 338–352. doi:10.1080/04353676.2017.1355216 

Guðmundsson, S.,  Björnsson, H., Pálsson, F., Magnússon, E., Sæmundsson, Þ., og Jóhannesson, T. 2019. Terminus lakes on the south side of Vatnajökull ice cap, SE-Iceland. Jökull 69, 1-34. https://doi.org/10.33799/jokull2019.69.001 

Helgi Björnsson. (2009). Jöklar á Íslandi. Opna. Reykjavík.

Snævarr Guðmundsson 2018. Sker í Jökulsárlóni. Jökull 68, 100-102.