Skúmur hrellir helsingja í Skúmey vorið 2020

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands 2021

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands fyrir árið 2021 er komin á netið.  Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Ársfundur stofunnar var haldinn 24. mars og var honum streymt á fésbók stofunnar. Fyrir þá sem vilja skoða fundinn má sjá hann hér – en sjálfur fundurinn byrjar þegar 10 mínútur eru liðnar af streyminu.

 

Nýr forstöðumaður Náttúrustofu Suðausturlands

Stjórn Náttúrustofu Suðausturlands hefur ráðið Lilju Jóhannesdóttur í starf forstöðumanns Náttúrustofu Suðausturlands frá og með 1. apríl n.k. Lilja er með doktorspróf í líffræði frá Háskóla Íslands og með M.Sc. og B.Sc. gráðu í náttúru- og umhverfisfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún hefur starfað hjá stofunni s.l. 4 ár, en var áður hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi. Störf hennar hjá Náttúrustofu Suðausturlands hafa mestmegnis tengst vistfræði- og fuglarannsóknum en hún hefur einnig komið að öðrum fjölbreyttum störfum og lagt metnað sinn í að kynna rannsóknir og viðfangsefni stofunnar á opinberum vettvangi. Lilja þekkir vel til starfsemi Náttúrustofunnar og hefur víðtæka reynslu af náttúrufræðirannsóknum og styrkumsóknum. Framtíðarsýn Lilju rímar vel við þá framtíðarsýn sem stjórn hefur varðandi rekstur Náttúrustofunnar og treystir stjórn henni fyrir því að leiða þá vinnu.

Opnun jöklavefsjár

Náttúrustofan tók þátt í að útbúa nýja og glæsilega jöklavefsjá en sunnudaginn 20. mars verður hún kynnt í stjörnuveri Perlunnar í Reykjavík og hvetjum við áhugasama að kíkja við. Helgi Björnsson og Oddur Sigurðsson jöklafræðingar munu opna vefsjána en auk þeirra munu sérfræðingar Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskólans og Landsvirkjunar fjalla um jöklamælingar, sýna ljósmyndir af jöklum og fara yfir virkni vefsjárinnar og gögn sem hún sýnir. Að kynningum loknum mun Hilmar Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands bjóða gestum á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands, og sérsýningu um sögu Jöklarannsóknafélagsins.
Jöklavefsjáin er samstarfsverkefni Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskólans, Jöklarannsóknafélags Íslands, Landsvirkjunar, Landmælinga Íslands og Náttúrustofu Suðausturlands.
Kastljós fjallaði um jöklavefsjánna í þætti sínum þann 24. mars og má sjá það hér.

Fiðrildavöktun 2021 á Suðausturlandi

Náttúrustofan rekur fjórar fiðrildagildur í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Fuglaathugunarstöð Suðausturlands. Gildurnar eru á Mýrum í Álftaveri, í Mörtungu á Síðu og tvær í Einarslundi við Hornafjörð. Þær eru settar upp um miðjan apríl og teknar niður í byrjun nóvember ár hvert en tæmdar vikulega. Í gildrurnar við Einarslund komu þetta árið 2.447 fiðrildi og 475 vorflugur í aðra gildruna og 2.945 fiðrildi og 881 vorflugur í hina. Það er töluverð aukning frá fyrr ári og hefur heildarfjöldi veiddra fiðrilda í Einarslundi aldrei verið hærri. Heildarfjöldi fiðrildategunda var 29 og heildarfjöldi vorflugutegunda var 9. Þar var barrvefari (Zeiraphera griseana) algengasta fiðrildategundin og sitrubytta (Limnephilus sparsus) algengasta vorflugan. Í Mörtungu veiddust í heildina 2.231 fiðrildi og 198 vorflugur. Gífurleg fækkun var á heildarfjölda fiðrilda frá árinu á undan (13.544) en tölur þessa árs eru í ágætum takti við fyrri mælingar. Heildarfjöldi fiðrildategunda í Mörtungu var 30 og heildarfjöldi vorflugu tegunda var 8. Þar var jarðygla algengasta fiðrildategundin en sitrubytta algengasta vorflugan líkt og í Einarslundi. Rekstur fiðrildagildrunnar á Mýrum gekk  brösuglega síðastliðið ár vegna rafmagns- og ljósaperu vandamála.

Náttúrustofa Suðausturlands hefur undanfarin ár rekið og safnað gögnum úr fiðrildagildrum á starfssvæðinu. Fyrsta gildran var sett upp við Einarslund í Hornafirði árið 2014. Frá árinu 2015 hafa gildrurnar verið fjórar, staðsettar á Mýrum í Álftaveri, í Mörtungu á Síðu og tvær í Einarslundi við Hornafjörð. Gildrunum er komið fyrir um miðjan apríl og vitjaðar vikulega þar til í byrjun nóvember er þær eru teknar niður. Nú er greiningum lokið á afla síðasta árs (2021). Helstu niðurstöður ársins má sjá hér að neðan en nánari upplýsingar um verkefnið, tegundalista og fleira má sjá á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. https://www.ni.is/greinar/voktun-fidrilda

Einarslundur

Við Einarslund má sjá töluverða aukningu á heildafjölda veiddra fiðrilda í báðum gildrum og hefur sá fjöldi aldrei verið meiri síðan mælingar hófust (mynd 1). Árið 2021 veiddust í gildrurnar 2.447 (gildra 1) og 2.945 (gildra 2) fiðrildi í heildina og er það aukning um 62,3% og 117,7% frá árinu áður. Tegundafjölbreytileiki hefur einnig aukist frá mælingum síðasta árs en hefur þó áður verið meiri (mynd 2). Í heildina veiddust 29 tegundir í gildru 1 og 35 tegundir í gildru 2. Gildra 2 hefur ætíð verið aflameiri og sýnt meiri tegundafjölbreytileika sem gæti skýrst á mismunandi gróðursamsetningu í nærumhverfi gildranna.

Algengustu tegundirnar í Einarslundi voru barrvefari (Zeiraphera griseana), jarðygla (Diarsia mendica), grasvefari (Eana osseana) og túnfeti (Xanthorhoe decoloraria) í báðum gildrum og stóðu þær undir 74% heildaraflans (mynd 8). Barrvefari, jarðygla og grasvefari eru í mikilli uppsveiflu (mynd 3) auk þess hefur orðið mikil aukning á dumbyglu (Apamea crenata) og stráyglu (Apamea remissa) (mynd 4). Tígulvefari (Epinotia solandriana) hefur verið í hruni síðan hann náði hámarki sínu 2018, þá 29,8% heildarafla (mynd 3). Hrun tígulvefara gæti tengst aukningu barrvefara þar sem tegundirnar tilheyra sömu vist og samkeppni ríkir milli þeirra um fæðu, búsetu og aðra þætti. Ein ný tegund bættist á tegundalista Einarslunds þetta árið, hnappvefari (Lobesia littoralis) (mynd 11).

Heildarfjöldi veiddra vorfluga í Einarslundi hefur aukist frá árinu 2020 og er nú í ágætum takti við mælingar fyrri ára, að frátöldu árinu 2019 þegar heildarfjöldi veiddra vorfluga jókst til muna (mynd 5). Tegundafjölbreytileiki vorfluga í Einarslundi hefur aldrei mælst meiri og komu í heildina 9 tegundir í gildrurnar. Mest veiddist af sitrubyttu (Limnephilus sparsus) og stóð hún undir 77% heildarafla í gildru 1 og 61% heildarafla í gildru 2 (mynd 9). Ein ný tegund bættist þetta árið á tegundalistann, tjarnabytta (Limnephilus picturatus).

Mörtunga

Miklar sveiflur hafa verið á heildafjölda veiddra fiðrilda í fiðrildagildrunni í Mörtungu (mynd 6). Árið 2021 veiddust í heildina 2.231 fiðrildi sem er gífurleg fækkun frá árinu á undan (13.544) en í ágætum takti við fyrri mælingar. Fjöldi veiddra tegunda voru 30 sem er aukning frá árinu áður þegar veiddust 26 tegundir.

Jarðygla var algengasta fiðrildategundin þetta árið með 1.326 einstaklinga veidda eða 59,4% heildarafla (mynd 8). Næst á eftir var grasvefari með 406 einstaklinga veidda. Töluverð aukning hefur orðið á barrvefara og túnfeta. Nýjar tegundir í Mörtungu voru tvær, hnappvefari og birkivefari (Acleris notana).

Heildarfjöldi veiddra vorfluga í Mörtungu jókst og hefur nú aldrei verið meiri (mynd 7). Í heildina veiddust 198 einstaklingar sem er langt yfir meðaltal fyrri ára (106). Tegundafjölbreytileiki jókst frá síðustu mælingu og tegundin tjarnabytta bættist á tegundalistann (mynd 7). Mest veidda tegundin var sitrubytta og stóð hún undir 31% af heildarafla (mynd 9).

Mýrar

Rekstur fiðrildagildrunnar á Mýrum í Álftaveri hefur gengið brösuglega. Gildran var fyrst sett upp árið 2019 og var þetta því þriðja sumarið sem gildran var í gangi. Upp hafa komið rafmagnsvandamál, sprungnar perur, bilaðar leiðslur og eru gögnin því slitrótt og nýtast illa sem vöktunargögn.

Samantekt og úrvinnsla var unnin af Rannveigu Rögn Leifsdóttur.

Mynd 1: Heildarfjöldi fiðrilda í tveimur gildrum við Einarslund árin 2014-2021. Gildra 1 merkt með grænni línu, gildra 2 merkt með blárri línu.

Mynd 2: Tegundafjölbreytileiki veiddra fiðrilda í tvær gildrur við Einarslund árin 2014-2021. Gildra 1 merkt með grænni línu, gildra 2 merkt með blárri línu.

Mynd 3: Stofnsveiflur fjögurra tegunda við Einarslund á árunum 2015-2021.

Mynd 4: Stofnsveiflur dumbyglu og stráyglu í Einarslundi á árunum 2015-2021.

Mynd 5: Heildarfjöldi og tegundafjölbreytileiki vorfluga í tveimur gildrum í Einarslundi árin 2014-2021. Gögn úr gildru 1 merkt með grænu, gögn úr gildru 2 merkt með bláu. Heildarfjöldi vorfluga merkt með óslitinni línu, heildarfjöldi tegunda merkt með punktalínu.

Mynd 6: Heildarfjöldi og heildar tegundafjöldi fiðrilda í Mörtungu árin 2015-2021. Heildarfjöldi fiðrilda merkt með óslitinni línu, heildarfjöldi tegunda merkt með punktalínu.

Mynd 7: Heildarfjöldi og heildar tegundafjöldi vorfluga í Mörtungu árin 2015-2021. Heildarfjöldi vorfluga merkt með óslitinni línu, heildarfjöldi tegunda merkt með punktalínu.

Mynd 8: Tegundasamsetning fiðrilda árið 2021.

Mynd 9: Tegundasamsetning vorfluga árið 2021.

Mynd 10: Kristín Hermannsdóttir og Lilja Jóhannesdóttir tendra aðra gildruna í Einarslundi 16. apríl 2021.

Mynd 11: Hnappvefari (Lobesia littoralis) bættist á tegundalista í Einarslundi þetta árið.

 

Þolmarkarannsókn á Breiðamerkursandi

Náttúrustofa Suðausturlands og Nýheimar Þekkingarsetur vinna nú að rannsókn á þolmörkum við Jökulsárlón og á Breiðamerkursandi. Er þetta samstarfsverkefni unnið fyrir Vatnajökulsþjóðgarð með aðkomu Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, annarra fagstofnana og sérfræðinga Vatnajökulsþjóðgarðs. Verkefnið hófst í ágúst 2021 og hefur verið unnið að gagnaöflum og samráði við sérfræðinga. Áætluð verklok eru lok árs 2022 með skýrsluskrifum og þar verður sett fram aðgerðaráætlun. Verkefnastjóri er Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir.

Markmið verkefnisins er að meta ástand svæðisins og gera áætlun hvernig unnt er að tryggja sjálfbæra þróun þess. Það er gert með því að kanna þolmörk náttúrunnar, ferðamanna og innviða á svæðinu. Er verkefnið liður í Vörðu, sameiginlegu verkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Varða byggir á heildstæðri nálgun í stjórnun áfangastaða og er Breiðamerkursandur einn af fjórum fyrstu áfangastöðunum sem unnið er með í verkefninu. Vörður eru merkisstaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri og/eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir.

Svæðin sem eru einkum til skoðunar eru athafnasvæðin við Fjallsárlón og Jökulsárlón auk svæðanna frá þjóðvegi að jökli austantil á svæðinu (Þröng) og vestantil (Námuvegur/Breiðá) (sjá kort).

Rannsóknarsvæði þolmarkarannsóknar á Breiðamerkursandi. Eru hringir umhverfis þá staði sem flestir gesta heimsækja, vegslóðar sem eru mikið eknir af ferðamönnum eru einnig afmarkaðir. Kort: Snævarr Guðmundsson, 2021.

 

Snýr aðkoma starfsmanna Náttúrustofu Suðausturlands að þessu verkefni einkum að því að útvega gögn um náttúru og lífríki á svæðinu, vinna kort og meta ástand lands, auk þess að taka þátt í að leggja til möguleg viðbrögð við ágangi eða þoli.

Aðferðir sem eru notaðar eru sambærilegar og í öðru verkefni sem náttúrustofan tekur þátt í og kallast vöktun náttúruverndarsvæða og er það unnið í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Í þolmarkarannsókninni taka starfsmenn stofunnar þátt í vinnufundum og reglubundnu samtali við verkefnastjóra og annarra þátttakenda í verkefninu. Á næstu vikum og mánuðum er áhersla á rannsóknir á vettvangi og er gert ráð fyrir að þeirri gagnaöflun ljúki í sumar.

Úr vettvangsferð í september 2021 á Breiðamerkursandi með Vörðu-hópi. Mynd; Kristín Hermannsdóttir.