Varpútbreiðsla skúms í Ingólfshöfða, Salthöfða og á Skeiðarársandi sumarið 2019

Nú er kominn út önnur skýrsla á skömmum tíma um skúm út hjá Náttúrustofunni en þessi skýrsla segir frá varpútbreiðslu skúms í Ingólfshöfða, Salthöfða og á Skeiðarársandi sumarið 2019. Í kjölfar kortlagningar á varpútbreiðslu skúms á Breiðamerkursandi sumarið 2018 sem unnin var við stofuna í samstarfi við Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og sýndi fram á mikla fækkun var ákveðið að skoða önnur skúmsvörp á nálægum svæðum. Kortlagningin sumarið 2019 sýndi fram á að fjöldabreyting á varppörum er breytileg á milli svæða, talsverð fækkun hefur átt sér stað á Skeiðarársandi en hins vegar fjölgun í Ingólfshöfða. Nánari upplýsingar má lesa í skýrslunni hérna.

 

Varpárangur skúms á Breiðamerkursandi og í Öræfum sumarið 2019

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands sem greinir frá mælingum á varpárangri skúms á Breiðamerkursandi og í Öræfum sumarið 2019. Skúmi hefur verið að fækka á Íslandi og taldar líkur á að slæmur varpárangur eigi að hluta til þátt í því. Metinn var varpárangur 30 hreiðra á Breiðamerkursandi og í Öræfum og af þeim hreiðrum klöktust egg úr 24 og ungar lifðu í alla vega 18 daga úr 14 hreiðrum. Þetta gaf að í heild voru 49% líkur á að skúmur næði að klekja eggi og unginn lifði að minnsta kosti í 18 daga. Samanborið við rannsóknir á klakárangri í Noregi og Skotlandi er árangurinn á Breiðamerkursandi og í Öræfum nokkuð verri en þegar lifun unga er borin við tölur frá Noregi eru lífslíkur svipaðar. En í ljósi þess að aðstæður til varps eru breytilegar á milli ára og þekkt sé að sjófuglar geti sleppt úr árum í varpi er nauðsynlegt að fylgjast með varpárangri í fleiri ár til að fá betri upplýsingar. Náttúrustofan hyggur á áframhaldandi athuganir á varpárangri skúms og verður fróðlegt að sjá niðurstöður þeirra vinnu í framtíðinni.

Hér má sjá skýrsluna.

Fyrir áhugasama má benda á eldri skýrslu sem segir frá kortlagningu skúmshreiðra á Breiðamerkursandi 2018.

 

Landsjöklaskrá

Í nýjasta hefti Jökuls (nr 70), ársriti Jöklarannsóknafélags Íslands, er grein eftir Hrafnhildi Hannesdóttur, Odd Sigurðsson, Ragnar H. Þrastarson, Snævarr Guðmundsson, Joaquín M.C. Belart, Finn Pálsson, Eyjólf Magnússon, Skúla Víkingsson og Tómas Jóhannesson þar sem kynnt er skráning íslenskra jökla.  Í skránni eru tekin saman gögn um útbreiðslu jökla frá nokkrum rannsóknahópum og nemendaverkefnum. Þar á meðal eru gögn sem hefur verið aflað á Náttúrustofu Suðausturlands. Gagnasöfn af þessu tagi til þess að stilla af líkön um stærðir jökla og þar af leiðandi loftslagsbreytingar.

Í ágripi segir: Gögnum um útbreiðslu íslenskra jökla hefur verið safnað saman frá nokkrum mismunandi rannsóknarhópum og stofnunum, þau samræmd og yfirfarin og send til alþjóðlegs gagnasafn fyrir slík gögn (GLIMS, sjá nsidc.org/glims). Jöklar á Íslandi náðu ekki hámarksútbreiðslu á sama tíma en flestir þeirra tóku að hörfa frá ystu jökulgörðum um 1890. Heildarflatarmál jökla árið 2019 var um 10.400 km2 og hafa jöklarnir minnkað um meira en 2200 km2 frá lokum 19. aldar, sem samsvarar 18% flatarmálsins um 1890. Jöklarnir hafa tapað um 750 km2 frá aldamótunum 2000. Stærri jöklarnir hafa tapað 10–30% af flatarmáli sínu en miðlungsstóru jöklarnir (> 3–40 km2 árið 2000) hafa tapað allt að 80% flatarmálsins. Á fyrstu tveimur árautugum 21. aldar hafa jöklarnir minnkað um u.þ.b. 40 km2 á ári. Á þessu tímabili hafa margir litlir jöklar horfið með öllu. Gagnasöfn um útbreiðslu jökla eru mikilvæg fyrir rannsóknir á loftslagsbreytingum, til þess að stilla af jöklalíkön, til rannsókna á framhlaupum og á eðli jökla. Þó að framhlap, eldgos undir jökli og jökulhlaup hafi áhrif á stöðu einstakra jökulsporða hafa jöklabreytingar á Íslandi verið fremur samstíga og fylgt að mestu leyti veðurfarsbreytingum frá lokum 19. aldar.

Rör fyrir mælingar

Nýsköpunarverkefni á vegum Náttúrustofu Suðausturlands fékk 8.5 milljóna styrk

Fyrir nokkru úthlutaði Loftslagssjóður styrkjum í verkefni ársins 2021 en hlutverk sjóðsins er að styðja við verkefni sem lúta nýsköpun á sviði loftslagsmála og kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum, en hann heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra.

Nýtt verkefni

Eitt þeirra nýsköpunarverkefna sem fékk styrk var verkefnið „Kolefnisforði og CO2 flæði úr jarðvegi – samstarfsverkefni um vöktun á völdum landgerðum“. Umsækjandi verkefnisins er Náttúrustofa Suðausturlands og meðumsækjandi er Landgræðslan. Aðrir samstarfsaðilar verkefnisins eru: Ólafur S. Andrésson sem hefur undanfarin misseri hannað og þróað smíði á smátæki sem mælir losun CO2 úr jarðvegi, sveitarfélagið Skaftárhreppur, Mor-nefndin -samstarfsnefnd Skaftárhrepps, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og Sveitarfélagið Hornafjörður.

Verkefnastjóri

Verkefnið er unnið til eins árs og verkefnisstjóri er Rannveig Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands, búsett og starfandi í Skaftárhreppi. Markmið verkefnisins er að mæla kolefnisforða á fjórum stöðum, ásamt CO2 flæði úr þurrlendisjarðvegi í Skaftárhreppi og þannig er hægt að áætla heildarlosun eða bindingu úr völdum vistgerðum með nokkuð góðri vissu.

Hugmyndin

Hugmyndin að verkefninu kviknaði eftir að íslensk stjórnvöld gáfu út aðgerðaáætlun sína í loftslagsmálum. Þar eru sett markmið um að minnsta kosti 40% samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, og kolefnishlutleysi árið 2040. Jafnframt er stefnt á gríðarlega aukna bindingu kolefnis vegna landnotkunar eða um +515% aukningu frá 2005 til 2030. Landnotkun (e.Land Use, Land Use Change and Forestry, skammstafað LULUCF) er einn stærsti losunarþáttur gróðurhúsalofttegunda sem standa þarf skil á gagnvart Parísarsamningnum en rekja má um fjórðung allrar losunar á heimsvísu til landnotkunar. Þessi þáttur er jafnvel enn mikilvægari á Íslandi, þar sem um 65% losun gróðurhúsalofttegunda á landsvísu er rakin til landnotkunar og um 86% losunar fyrir Suðurland. Losunarbókhald vegna landnotkunar og skógræktar er skemmra á veg komið en fyrir aðrar uppsprettur eins og til dæmis losun frá jarðefnaeldsneyti og iðnaðarferlum enda er um flókna vistfræðilega ferla að ræða og mikinn breytileika eftir aðstæðum.

Því þarf að gera stórauknar kröfur um mælingar á losun CO2 frá jarðvegi til að hafa árreiðanlegar upplýsingar í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Fjölga þarf mælingum og í fjölbreyttari landgerðum en gert hefur verið hingað til.

Búnaðurinn sem verður notaður

Náttúrustofa Suðausturlands hefur fjárfest í alþjóðlega vottuðum dýrum mælibúnaði frá PP systems sem mælir bæði bindingu og losun CO2 úr jarðvegi. Hefur slíkur búnaður verið prófaður og notaður með góðum árangri hjá Landgræðslunni. Samhliða mælingum á CO2 úr jarðvegi verður notast við nýjan íslenskan tækjabúnað sem hefur verið þróaður með styrk frá Loftslagssjóði á síðasta ári. Íslenski ódýrari búnaðurinn er talinn tilbúinn til almennrar notkunar en hefur ekki verið prófaður við skipulagðar mælingar eða staðlaður með annarskonar mælingum. Hér gefst því kostur á að prófa fýsileika þessa nýja búnaðar og fá samanburð við mælingar gerðar með viðurkenndum búnaði.

Markmið

Markmiðið er að gögn og niðurstöður sem safnast með verkefninu nýtist m.a. sveitarfélaginu Skaftárhreppi til að ná árangri í loftslagsmálum í gegnum skipulagsgerð. Skaftárhreppur er annað landstærsta sveitarfélag landsins og um þessar mundir er verið að vinna í nýju aðalskipulagi sem tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og eru þar aðgerðir í loftslagsmálum sérstaklega dregnar fram. Að draga úr kolefnislosun og auka kolefnisbindingu hjá sveitarfélagi sem byggir að stórum hluta afkomu sína á hefðbundnum landbúnaði er mikil áskorun. Með niðurstöðum sem fást úr verkefninu verða til gögn um kolefnisbúskap landflokka og þannig hægt að kortleggja hvar jarðvegur er að tapa kolefni og hvar það bindst. Með þær niðurstöður er hægt að hefja samræður um hvar best væri að auka útbreiðslu náttúruskóga, endurheimta votlendi, hefja skógrækt, friða fyrir beit o.s.frv. Niðurstöður fyrir hvern undirflokk sem mældur er mun einnig nýtast öðrum sveitarfélögum á landsvísu eða landeigendum með sambærilegar vistgerðir til að meta kolefnisbúskap sinna landgerða og gera áætlanir fyrir breytta landnotkun með það að markmiði að draga úr losun eða auka bindingu.

Ný þekking og bætt loftslagsbókhald

Síðast en ekki síst skapast þekking og störf í heimabyggð og reynsla fæst í samstarfi ólíkra aðila um vöktunarmælingar á kolefnisforða lands og breytingum þar á, sem myndi nýtast til að setja upp og þróa sambærilegt samstarf á landsvísu. Verður verkefnið liður í mikilvægu framlagi til að afla betri þekkingar á losun CO2 frá mismunandi landgerðum á Íslandi sem bætir loftslagsbókhald Íslands.

Allir aðstandendur og starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands eru ánægðir og þakklátir fyrir styrkinn sem fékkst í þetta verkefni.

Rannveig Ólafsdóttir og Kristín Hermannsdóttir

Samstarfsaðilar setja niður mælireiti

Á myndinni eru talið frá vinstri; Elín Erla Káradóttir sumarstarfsmaður hjá Náttúrustofu Suðausturlands, Rannveig Ólafsdóttir Náttúrustofu Suðausturlands, og Jóhann Þórsson frá Landgræðslunni. Verið er að setja niður mælirör í jarðveginn 21. apríl 2021.

Rör fyrir mælingar

Rörin eru sett niður í mismunandi landgerðum í Skaftárhreppi. Þannig er hægt að mæla losun og bindingu á hverjum stað.

Þurrlendi í Landbroti

Frá Landbroti í Skaftárhreppi (Mynd Náttúrustofa Suðausturlands 21. April 2021)

Kvískerjajöklar í Öræfajökli

Í nýjasta hefti Jökuls (nr 70), ársriti Jöklarannsóknafélags Íslands, birtist ritrýnd grein eftir Snævarr Guðmundsson á Náttúrustofu Suðausturlands og Helga Björnsson jöklafræðing á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, um hina lítt þekktu jökultungur ofan við Kvísker í Öræfum. Í greininni eru raktar breytingar frá 18. öld á jökultungunum, sem eru auðkenndir sem Nyrðri- og Syðri Kvískerjajöklar. Flestir stórir jöklar eru taldir hafa verið í hámarksútbreiðslu í lok 19. aldar, eftir kalt tímabil sem nefnt er litla ísöldin. Jöklarnir í austanverðum Öræfajökli höfðu fyrr náð hámarksútbreiðslu og líklegast að Kvískerjajöklar sinni hámarksstærð um eða upp úr miðri 18. öld. Þessi tíðindi benda til að breytingar á jöklum séu margvíslegri en svo að fullyrt skuli að allir jöklar hafi verið í hámarksútbreiðslu á sama tíma, nálægt 1890. Mælingar sem eru kynntar sýna að rýrnun jöklanna hefur verið mjög hröð eftir 1995. Hér er hægt að sjá stuttan útdrátt greinarinnar.