Bændur græða landið sumarið 2020

Verkefninu bændur græða landið sumarið 2020 er lokið á Suðausturlandi, en það er samvinnuverkefni Landgræðslunnar og bænda um uppgræðslu heimalanda. Tilgangur þess er að styrkja bændur til landgræðslu á jörðum sínum, stöðva rof, þekja land gróðri og gera það nothæft á ný til landbúnaðar eða annarra nota. Starfsmaður á vegum Náttúrustofu Suðausturlands, Pálína Pálsdóttir, sem hefur aðsetur á Kirkjubæjarklaustri sá um verkefnið. Starfið fólst í heimsóknum til bænda í sveitarfélögunum Skaftárhreppi og Hornafirði en svæðið nær allt frá Mýrdalssandi og austur í Lón. Alls eru 35 bændur á svæðinu þátttakendur í verkefninu, 29 í Skaftárhreppi og 6 í Hornafirði.

Nánar má lesa sér til um verkefnið á landsvísu á vef Landgræðslunnar:  https://land.is/baendur-graeda-landid/

Hér fyrir neðan má sjá myndir sem teknar á Hólmsáraurum en þar er unnið að uppgræðslu á vegum Landbótasjóðs og verkefnisins “Bændur græða landið”. Myndirnar eru teknar af Garðari Þorfinnssyni héraðsfulltrúa Landgræðslunnar.

Mynd frá uppgræðslusvæði á Hólmsáraurum en þar er unnið að uppgræðslu á vegum Landbótasjóðs og verkefnisins “Bændur græða landið”. Mynd fengin frá Landgræðslunni.
Landgræðslusvæði á Hólmsáraurum í Austur-Skaftafellssýslu. Mynd fengin frá Landgræðslunni.
Hólmsáraurar í Austur-Skaftafellssýslu. Mynd fengin frá Landgræðslunni.

Sky news fjalla um loftslagsbreytingar frá Breiðamerkurjökli

Innslag bresku fréttastofunnar Sky news þann 10. september 2020 fjallaði um loftslagsmál og afleiðingar hnattrænnar hlýnunar. Í brennidepli var bráðnun jökla og var fjallað um hana frá Breiðamerkurjökli. Rætt var við fimm Íslendinga um áhrif bráðnunar jökla, í eftirfarandi röð; Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands, Hauk Inga Einarsson leiðsögumann hjá Glacier Adventures, Andra Gunnarsson hjá Landsvirkjun, Kristján Davíðsson hjá sjávarútvegsfyrirtækinu Brim og Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfisráðherra. Hér má sjá innslagið en það er 7:45 mín langt. Fréttin var látin ganga allan daginn (nálgast má fréttina hér) og um kvöldið var um klukkustundar langur umræðuþáttur um loftslagsbreytingar þar sem fréttin frá Breiðamerkurjökli var inngangskafli. Verður ekki annað sagt en að Ísland og Breiðamerkurjökull hafi fengið gríðargóða kynningu í þetta sinn.

Breiðamerkurjökull, 8. sept. 2020. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.
Fréttaskots aflað á jökli en skammt frá fossar vatn úr ísgöngum. LJósm. SNævarr Guðmundsson, 8. sept 2020.