Síðustu vikur og mánuði hefur Náttúrustofa Suðausturlands, í samráði við Vatnajökulsþjóðgarð, unnið að verkefnum á suðursvæði þjóðgarðsins. Og nýlega var komið að ákveðnum kaflaskilum.
Þriðjudagskvöldið 2. júlí 2019 var haldinn kynningar- og hugarflugsfundur í Mánagarði í Nesjum þar sem að vinna svæðisráðs suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, um framtíð Breiðamerkursands og Jökulsárlóns, var kynnt. Í þessu verkefni hefur stofan unnið að kortum sem sýna núverandi landslag, byggingar og fleira á því svæði sem varð hluti af þjóðgarðinum í júli 2017. Þar fyrir utan hafa starfsmenn stofunnar verið ráðgjafar við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir svæðið, og mun sú vinna halda áfram næstu mánuði.
Kort sem sýnir mörk Vatnajökulsþjóðgarðs á Breiðamerkursandi. Kortagerð: Náttúrustofa Suðausturlands/Snævarr Guðmundsson.
Starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands, Vatnajökulsþjóðgarðs, svæðisráðs suðursvæðsi Vatnajökulsþjóðgarðs og ýmsir aðrir tóku þátt í kynningar og hugarflugsfundi í Mánagarði. Ljósm. Kristín Hermannsdóttir.
https://nattsa.is/wp-content/uploads/2019/07/Breidamerkursandur_NP.jpg930930Kristín Hermannsdóttirhttps://nattsa.is/wp-content/uploads/2013/09/Logo-Nattsa.pngKristín Hermannsdóttir2019-07-08 10:00:032019-07-04 13:50:50Fundur um framtíð Breiðamerkursands
Í dag kl. 14 verður opnuð sýning á vegum Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar í samstarfi við Náttúrustofu Suðausturlands í Nýheimum. Þar má sjá ýmsa furðufiska sem hafa veiðst af hornfiskum skipum og/eða í grennd við Hornafjörð. Hafa þessir fiskar verið varðveittir í safni Menningarmiðstöðvarinnar um langa hríð og er kominn tími til að koma þeim fyrir sjónir almennings. Verður sýningin opin í Gallerý Nýheimum frá 05.07-05.08.2019.
Á opnunardegi verður einnig hægt að sjá og snerta ferska fiska í boði Fiskbúðar Gunnhildar á Höfn. Verður sú sýning utan við Nýheima og eru allir boðnir velkomnir á viðburðinn.
https://nattsa.is/wp-content/uploads/2019/07/2019-07-04-11.48.00.jpg20481536Kristín Hermannsdóttirhttps://nattsa.is/wp-content/uploads/2013/09/Logo-Nattsa.pngKristín Hermannsdóttir2019-07-05 08:00:382019-07-04 14:05:03Furðufiskur í grennd
Miðvikudaginn 3. júlí 2019 heimsótti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra Náttúrustofu Suðausturlands, en stofan starfar samkvæmt rekstrarsamningi milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Skaftárhrepps. Auk þess vinnur hún að samningsbundnum verkefnum á vegum ráðuneytisins og verkefnum sem hljóta styrki úr samkeppnissjóðum. Ánægjulegt var að fá Guðmund Inga ráðherra, Orra Pál Jóhannsson aðstoðarmann hans, Guðríði Þorvarðardóttur og Jón Geir Pétursson samstarfsfólk þeirra úr ráðuneytinu í heimsókn á Höfn. Starfsmenn stofunnar áttu góðan fund með gestunum um málefni og verkefni stofunnar. Margt var rætt á fundinum og meðal annars kom fram mikilvægi þess að hafa fólk með sérþekkingu nærri viðfangsefnum, slíkt er fjárhagslega hagkvæmt og einnig eflir starfsemi fjölbreyttra stofnana innan þekkingarmiðstöðva samfélagið og ýtir undir samstarf milli stofnana.
Að loknum fundi var haldið út á Jökulsárlón þar Vatnajökulsþjóðgarður vígði fræðslustíg sem er afrakstur góðs samstarf fjölda stofnanna og einstaklinga og var styrktur af Vinum Vatnajökuls. Á fræðslustígnum má sjá skilti um náttúru svæðisins. Náttúrustofa Suðausturlands vann efni á fjögur skilti; um loftslagsbreytingar, myndun jökullóna, liti ísjaka og einkennisfugla svæðisins. Við hvetjum alla að staldra við á leið sinni um Suðausturland og skoða fræðslustíginn og umhverfið við Jökulsárlón.
Hluti starfsfólks Náttúrustofu Suðausturlands með umhverfisráðherra við Jökulsárlón. Frá vinstri; Snævarr Guðmundsson, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, Kristín Hermannsdóttir og Lilja Jóhannesdóttir. Ljósm. Kristín Vala Þrastardóttir.
Lilja Jóhannesdóttir við skilti með upplýsingum um einkennisfugla svæðisins, en efni skiltisins var unnið af starfsfólki Náttúrustofu Sauðausturlands. Ljósm. Kristín Hermannsdóttir
Sigurlaug Gissurardóttir ferðaþjónustubóndi og Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur á Náttúrustofu Suðausturlands, sem bæði eru meðlimir í svæðisráði suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, Kristín Vala Þrastardóttir verkefnastjóri Nýheimum þekkingarsetri, Lilja Jóhannesdóttir vistfræðingur á Náttúrustofu Suðausturlands og Sigrún Sigurgeirsdóttir starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs við eitt skiltanna við Jökulsárlón. Ljósm. Kristín Hermannsdóttir.
Breiðamerkursandur og hop Breiðamerkurjökuls eru höfuðviðfangsefnið í ritrýndri grein sem birtist í alþjóðlega vísindaritinu Geografiska Annaler: Series A, Physical Geography, í lok júní 2019. Í greininni „Testing lichenometric techniques in the production of a new growth-rate (curve) for the Breiðamerkurjökull foreland, Iceland, and the analysis of potential climatic drivers of glacier recession“ er m.a. gerður samanburður á þrem aðferðum í fléttumælingum (lichenometry) til þess að kanna trúverðugleika þeirra. Fléttumælingar hafa verið notaðar til þess að aldursgreina misgamla jökulgarða og þ.a.l. meta hophraða jökla, sérstaklega á norðlægum breiddarbaugum og fjalllendi. Niðurstöður úr slíkum mælingum hér á landi hafa ekki sannfært jarðfræðinga um hvort treysta megi þessum aðferðum, vegna ósamsvörunar í vaxtarhraða á milli svæða. Í þessari grein eru niðurstöður stærðarmælinga á fléttunni Rhizocarbon geographicum borin við þekkta stöðu jökuljaðarsins á 20. öld, til þess að ákvarða vaxtarferil (growth curve) hennar á vestanverðum Breiðamerkursandi. Engin skýr tengsl við veðurfarssveifluna, sem nefnd er Norður-Atlantshafssveiflan (North Atlantic Oscillation = NOA), komu fram en samanburður loftslagssveiflna á 20. öld og rýrnun Breiðamerkurjökuls benda til þess að lofthiti, þá sérstaklega á sumrin, sé helsti hvatinn í hve hratt hann hefur hopað.
Höfundar greinarinnar eru David J. A. Evans, prófessor við Durham háskóla á Englandi, Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands og Jonathan L. Vautrey, KateFernyough & W. Gerard Southworth, sem voru nemendur D. Evans þegar þetta verkefni var unnið.
Vestanverður Breiðamerkursandur, með Skúmey í forgrunni, Öræfajökull í baki. Ljósm.: Náttúrustofa Suðausturlands/Snævarr Guðmundsson. Mæling á fléttunni Rhizocarpon geographicum. Ljósm.: Snævarr Guðmundsson, 11.8.2012.
https://nattsa.is/wp-content/uploads/2019/07/Breidamerkurjkl_hop1890-2014_SG.jpg15682048Snævarr Guðmundssonhttps://nattsa.is/wp-content/uploads/2013/09/Logo-Nattsa.pngSnævarr Guðmundsson2019-07-01 12:32:332019-07-01 12:32:36Grein um Breiðamerkursand og hop Breiðamerkurjökuls á 20. öld í Geografiska Annaler.