Helsingi sumarið 2018

Helsingjavarp á Suðausturlandi

Helsingja hefur fjölgað nokkuð hratt hér á suðausturhorninu á síðastliðnum árum eins og grafið hér að neðan sýnir en þar er þróun í fjölda helsingjahreiðra í Skúmey (í Jökulsárlóni) sýnd. Þessa dagana er Náttúrustofa Suðausturlands, ásamt Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og Náttúrufræðistofnun Íslands að kortleggja varpútbreiðslu helsingjans og þiggjum við allar upplýsingar um hvar hann er að verpa. Ef þið vitið um helsingjahreiður vorið 2019, látið okkur endilega vita á fésbókarsíðu okkar, eða með öðrum mögulegum leiðum s.s. símtali eða tölvupósti. Bestu þakkir!

Spói í kjörlendi sínu - ljósmynd: Lilja Jóhannesdóttir

Yfirlitsgrein um mófugla á Íslandi

Á dögunum birtist ritrýnd vísindagrein í alþjóðlega vísindaritinu Wader Study sem dr. Lilja Jóhannesdóttir, starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands, vann ásamt félögum sínum við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi og við háskólana í Austur Anglíu í Bretlandi og í Aveiro í Portúgal. Greinin ber heitið “Icelandic meadow-breeding waders: status, threats and conservation challenges”, sem útleggst nokkurn veginn á íslensku sem svo: Íslenskir mófuglar: staða, ógnir og áskoranir við verndun.

Greinin er yfirlitsgrein um stöðu algengustu vaðfuglategunda sem verpa í úthaga á Íslandi. Farið er yfir stofnstærðir, lýðfræðilega þekkingu (þá litlu sem til er), stöðu verndar og helstu ógnir sem stafa að þessum tegundum. Hér á Íslandi höfum við ofurstóra vaðfuglastofna (samanborið við nágrannalönd okkar sem mörg hafa gengið alltof harkalega á búsvæði þeirra) sem við höfum skuldbundið okkur til að vernda með þáttöku okkar í fjölda alþjóðlega samninga. Mikilvægi Íslands í því samhengi er gríðarmikið, en til dæmis má nefna 34% heimsstofns heiðlóu og 27% spóans verpur hér á landi, og því mikilvægt að við umgöngumst þessar tegundir og búsvæði þeirra af virðingu. Ein helsta ógnin sem þessi fuglar búa við á Íslandi er búsvæðatap og loftslagsbreytingar. Það er því nauðsynlegt að við skipulag framkvæmda sé fylgt eftir ákvæðum alþjóðasamninga, tekið tillit þarfa fugla og að við Íslendingar gerum allt sem í okkar valdi stendur til að sporna við loftslagsbreytingum.

Myndin sýnir upplýsingar um algengustu vaðfuglategundir sem finnast í íslenskum úthaga. Sökum þess hversu hátt hlutfall af heimsstofni verpur hér berum við alþjóðlega ábyrgð á að vernda þessar tegundir.

Hér er hlekkur á greinina: https://www.waderstudygroup.org/article/12186/