Helsingjar og skúmar 2018

Út eru komnar tvær skýrslur á vegum Náttúrustofu Suðausturlands.

Önnur skýrslan heitir „Fuglalíf í Skúmey á Jökulsárlóni á varptíma 2018“. Hún fjallar um talningar á hreiðrum og þá fyrst og fremst helsingjahreiðrum í Skúmey vorið 2018. Er það verkefni samstarfsverkefni Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, Vatnajökulsþjóðgarðs/Suðursvæði og Ferðaþjónustuaðila á Jökulsárlóni.

Skúmey er lítil eyja í Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi. Eyjan kom undan Breiðamerkurjökli við lok 20. aldar og er í dag þéttbýlasti varpstaður helsingja á Íslandi. Helsingjahreiður í Skúmey voru fyrst talin árið 2014 og voru þá 361, árið 2017 voru þau 968 og árið 2018 voru þau 1119.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

Hin skýrslan heitir „Kortlagning skúmshreiðra á Breiðamerkursandi 2018“. Hún fjallar um fjölda verpandi skúma og er það verkefni samstarfsverkefni Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, landeigenda á Kvískerjum og Vatanjökulsþjóðgarðs/Suðursvæðis.

Eitt af höfuðvígum skúms (Stercorarius skua) á Íslandi eru sandarnir við sunnanvert landið og þá helst Breiðamerkursandur. Þegar heildarstofn skúms var metinn um miðjan níunda áratug síðustu aldar var talið að rúmur helmingur para yrpi þar. Á síðustu árum hefur þó orðið vart fækkunar skúms á svæðinu og var því ráðist í að kortleggja hreiður á
Breiðamerkursandi sumarið 2018. Á svæðinu fundust 175 hreiður og því ljóst að mikil fækkun hefur orðið á skúm á síðustu þremur áratugum. Ekki er vitað hvað veldur þessari fækkun en í umræðum er komið inn á mögulegar ástæður þess.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

Fergin (Equisetum fluviatile) í Baulutjörn á Mýrum. Í baksýn er Fláajökull. Ljósm.: Lilja Jóhannesdóttir, 3. júlí 2018.

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands 2018

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands fyrir árið 2018 er komin á netið.  Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Kríuhreiður í túni við Hala 2018. Ljósmynd. Kristín Hermannsdóttir

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands 2019

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands ses. verður haldinn á Hótel Klaustri, Kirkjubæjarklaustri þriðjudaginn 26. mars 2019  kl. 19:30

Á eftir venjubundnum fundarstörfum verða haldin þrjú erindi á vegum Náttúrustofu Suðausturlands.

  • Jökulvötn í Skaftárhreppi: Pálína Pálsdóttir.
  • Myndun jökullóna við sunnanverðan Vatnajökul á 20. öld og breytingar á þeim: Snævarr Guðmundsson.
  • Hin Skaftfellska fuglaparadís : Lilja Jóhannesdóttir.

Kaffi, te og veitingar í hléi.

Allir velkomnir og hvattir til að mæta                                               

Stjórnin