Að morgni 31. janúar fengum við hressa krakka úr sjötta bekk grunnskóla Hornafjarðar í heimsókn. Tilefnið var samstaða tunglsins með reikistjörnunum Venus og Júpíter. Í ljósaskiptunum þann morguninn voru þessir hnettir reyndar afar lágt á lofti og sáust því í mikilli tíbrá. Þó mátti greina stóra gíga í yfirborði tunglsins. Aðstæður voru þó allt annað en heppilegar fyrir þessa iðkun því napur vindur og talsvert frost bitu frá sér. Því varð heimsóknin fremur stutt. En svona er þetta stundum og aðstæður ráða því hvað má gera. Krakkarnir létu þetta lítið á sig fá og allir kíktu á tunglið með stjörnusjónauka Náttúrustofu Suðausturlands áður en haldið var í skólann til venjubundnari kennslu.
Sjöttu bekkingar við sjónauka NattSA.
Samstaða tunglsins með Venus og Júpíter, 31. jan. 2019. Mynd gerð í Stellarium.
https://nattsa.is/wp-content/uploads/2019/01/SG_31-01-2019-2.jpg12751920Snævarr Guðmundssonhttps://nattsa.is/wp-content/uploads/2013/09/Logo-Nattsa.pngSnævarr Guðmundsson2019-01-31 09:39:152019-01-31 09:39:17Hressir krakkar í tunglskoðun hjá Náttúrustofu Suðausturlands
Sumarið 2018 voru þrjár fiðrildagildrur í
gangi á vegum Náttúrustofu Suðausturlands í samstarfi við Náttúrufræðistofnun
Íslands. Tvær gildrur í Einarslundi við Hornafjörð og ein í garðinum við
Mörtungu í Skaftárhreppi. Þann 17. apríl var kveikt á gildrunum og loguðu þær til
12. nóvember, en ljós þeirra dregur til
sín fiðrildi að næturlagi. Fyrstu
fiðrildin veiddust á Höfn um miðjan maí, en flest fiðrildi voru í þeim í lok ágúst.
Umsjón með gildrunum er í höndum Björn Gísla Arnarsonar starfsmanns
Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands og starfsmanna Náttúrustofu Suðausturlands.
Fyrstu fiðrildin í Mörtungu komu í gildruna í byrjun júní en flest fiðrildi
voru í henni um miðjan ágúst. Umsjón með gildrunni er í höndum Rannveigar
Ólafsdóttur fyrrverandi starfsmanns Náttúrustofu Suðausturlands. Erling
Ólafsson skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands hefur umsjón með
greiningu á tegundum ásamt Birni Gísla Arnarsyni.
Sumarið 2018 komu flest fiðrildi í gildrurnar um miðbik og síðari hluta ágúst, en mjög fá veiddust eftir miðjan september (mynd 1).
Mynd 1. Heildarfjöldi fiðrilda í gildrum á Höfn og í Mörtungu eftir vikum sumarið 2018.
Mynd 2 sýnir þær tíu tegundir sem algengastar voru í gildrunum sumarið 2018 og hlutfall þeirra af heildinni á hverjum stað. Alls komu 59 tegundir í gildrurnar og heildarfjöldi í gildrunum yfir sumarið var 5757 fiðrildi, 42% kom í gildru 2 á Höfn, 32% í gildru 1 á Höfn og 24% í Mörtungu. Fjöldi fiðrilda í gildrunum jókst heldur á milli ára á Höfn, en í Mörtungu fækkaði þeim umtalsvert á milli ára. Algengasta tegundin í Mörtungu er grasvefari, en tígulvefari í báðum gildrum á Höfn (myndir 3 og 4). Fjöldi grasvefara og jarðyglu í Mörtungu sker sig úr samanborið við gildrurnar á Höfn.
Mynd 2. Hlutfall algengustu fiðrilda af heildinni úr gildrunum þremur Suðausturlandi sumarið 2018.
Þegar gögnin frá þessum þremur gildrum eru skoðuð má sjá
að í gildru nr. 2 á Höfn, í Einarslundi er meiri fjölbreytni en sú nr. 1. Er það
líklegast vegna mismunandi gróðurs nærri gildrunum. Eins eru talsvert fleiri tegundir
fundust í Mörtungu þetta árið, en árið á undan (30 á móti 23).
Nokkrir flækingar komu í gildrurnar á árinu. Algengasti flækingurinn er kálmölur (mynd 5) sem veiddist í allar gildrur á SA-landi sumarið 2018, 30 stykki í allt. Eins komu 23 netluyglur (mynd 6) í gildrurnar, tíu í gildruna í Mörtungu, en á Höfn komu fimm í aðra gildruna og átta yglur í hina gildruna. Að auki sáust nokkrar gullglyrnur á Suðausturlandi síðla sumar, en enduðu ekki í gildrunum (mynd 7).
Mynd 3. Tígulvefari (Epinotia solandriana) – algengast fiðrildið árið 2018 í Einarslundi. Ljósmynd Björn Gísli Arnarson.Mynd 4. Grasvefari (Eana osseana). Tegund sem var mun algengarari í Mörtungu en á Höfn sumarið 2018. Mynd 5. Kálmölur (Plutella xylostella). Algengasti flækingurinn á Suðausturlandi sumarið 2018, en í allt komu 30 slíkir í allt í gildurnar. Mynd 6. Netluygla (Xestia c-nigrum) – annað algengasta flækingsfiðrildið á Suðausturlandi sumarið 2018. Mynd 7. Gullglyrna (Chrysoperla carnea) líkt og þær sem fundust á Höfn síðla sumars 2018. Mynd 8. Gulygla (Noctua pronuba) við fiðrildagildru í Einarslundi. Mynd Kristín Hermannsdóttir. Mynd 9. Erling Ólafsson og Björn Gísli Arnarson greina og telja fiðrildi úr gildrum á Suðausturlandi. Mynd Kristín Hermannsdóttir.
https://nattsa.is/wp-content/uploads/2016/07/2016-07-06-08.12.42.jpg12292048Kristín Hermannsdóttirhttps://nattsa.is/wp-content/uploads/2013/09/Logo-Nattsa.pngKristín Hermannsdóttir2019-01-08 13:10:242019-01-08 16:15:02Fiðrildavöktun 2018 á Suðausturlandi
Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um uppskerutap vegna ágangs gæsa á valin ræktarlönd á Suðausturlandi vorið 2018. Verkefnið var samstarfsverkefni Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, Búnaðarsambands Austur-Skaftafellssýslu og Landbúnaðarháskóla Íslands.
Skýrslan greinir frá framhaldsverkefni sem unnið var í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslum árið 2018. Borin var saman uppskera af friðuðum grasreitum við reiti sem fuglar komust að. Einnig voru skoðuð tengsl á milli fjölda fugla á ákveðnum túnum og rýrnun uppskeru. Markmiðið var að kanna áhrif gæsabeitar að vori og fram á sumar á grasuppskeru. Var þetta í fimmta sinn sem sambærileg rannsókn var framkvæmd.
Niðurstöður sýna að meðaltali 0,87 tonna mismun af þurrefni á hektara á uppskeru af friðuðum reitum og viðmiðunarreitum. Þurrefnisuppskera var að meðaltali 24% minni þar sem fuglar komust um túnin. Á tilraunatúnunum töpuðust því 3,1 heyrúllur af þurrefnisuppskeru á hektara að meðaltali. Kostnaðarútreikningar sýna að mismunur á uppskeru kostaði að meðaltali 24.647 kr./ha. Einfalt fylgnipróf var framkvæmt til að sjá samhengi milli fjölda fugla og mismunar í uppskeru, en það sýndi enga fylgni. Ekki er hægt að alhæfa að talningatölurnar séu lýsandi fyrir fjölda en líkur eru á að talningatölur sýni lágmarksfjölda fugla á hverjum stað.
Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér
Bitför á grasi á túni við Flatey á Mýrum, 18. júní 2018. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir.
https://nattsa.is/wp-content/uploads/2019/01/2018-06-18-16.35.31-HDR.jpg15362048Kristín Hermannsdóttirhttps://nattsa.is/wp-content/uploads/2013/09/Logo-Nattsa.pngKristín Hermannsdóttir2019-01-04 10:05:092019-01-04 10:05:11Uppskerutap vegna ágangs gæsa á valin ræktarlönd á Suðausturlandi vorið 2018