Skúmey í Jökulsárlóni – landmótun og lífríki

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um Skúmey á Jökulsárlón, landmótun og lífríki. Verkefnið er samstarfsverkefni og unnið á vegum Náttúrustofu Suðausturlands, Náttúrustofu Austurlands, Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands og Vatnajökulsþjóðgarðs.

Eyjan kom í ljós þegar Breiðamerkurjökull hopaði af þessu svæði á árunum 1976—2000.  Vorið og sumarið 2017 voru farnar nokkrar vettvangsferðir í eyjuna til að skoða og kortleggja landmótun, gróðurfar, pöddu- og fuglalíf. Í þessum vettvangsferðum voru skráð 968 helsingjahreiður í eynni. Meðalgróðurþekjan var um 20% og í allt fundust 54 tegundir padda af 27 ættum.

Um mitt ár 2017 varð þetta svæði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Í desember það ár samþykkti stjórn þjóðgarðsins að Skúmey verði lokuð allri umferð nema í vísindalegum tilgangi. Um er að ræða tímabundna lokun þar til ákvæði um svæðið í stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs hafa tekið gildi.

Í skýrslunni má lesa um hvern þátt sem skoðaður var, en einnig hefur verið sett saman stutt kvikmynd um vettvangsferðir og helstu niðurstöður.

Hægt er að sækja skýrsluna hérna.

Stutta kvikmynd má sjá á Youtube. Íslenskt tal og íslenskur texti  og íslenskt tal og enskur texti.

Fjögur egg innan um lyng og víði. Ljósmynd; Brynjúlfur Brynjólfsson, 29. maí 2017.

Fjögur helsingjaegg innan um lyng og víði. Ljósmynd; Brynjúlfur Brynjólfsson, 29. maí 2017.

 

Búr á túni á Steinasandi 16. júní 2017. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir.

Uppskerutap vegna ágangs gæsa í ræktarlönd í Austur-Skaftafellssýslu 2017

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um uppskerutap vegna ágangs gæsa í ræktarlönd 2017. Verkefnið var samstarfsverkefni Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, Búnaðarsambands Austur-Skaftafellssýslu og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Skýrslan greinir frá framhaldsverkefni sem unnið var í Austur-Skaftafellssýslu árið 2017. Borin var saman uppskera af friðuðum grasreitum við reiti sem fuglar komust að. Einnig voru skoðuð tengsl á milli fjölda fugla á ákveðnum túnum og rýrnun uppskeru. Markmiðið var að kanna áhrif gæsabeitar að vori og fram á sumar á grasuppskeru. Var þetta í fjórða sinn sem sambærileg rannsókn var framkvæmd.

Niðurstöður sýna mismun á uppskeru af friðuðum reitum og viðmiðunarreitum, að meðaltali 1066 kg af þurrefni á hektara. Þurrefnisuppskera var að meðaltali 27% minni þar sem fuglarnir komust um túnin. Á tilraunatúnunum töpuðust því 3,8 rúllur af þurrefnisuppskeru á hektara að meðaltali. Með kostnaðarútreikningum má sjá að mismunur í uppskeru kostaði að meðaltali 30.061 kr./ha. Einfalt fylgnipróf var framkvæmt til að sjá samhengi milli fjölda fugla og mismunar í uppskeru, en það sýndi enga fylgni. Ekki er hægt að alhæfa að talningatölurnar séu lýsandi fyrir fjöldann. En töluverðar líkur eru á að talningatölur sýni lágmarksfjölda fugla á hverjum stað.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

Búr á túni við uppskeru 16. júní 2017. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir.