Lurkafundur á Breiðamerkursandi

Breiðamerkurjökull hopar ört og þar sem ísinn leysir burt, birtist nýtt land. Á undanförnum árum hafa fundist gróðurleifar á Breiðamerkursandi þar sem áður lá jökull yfir.

Á þeim er ljóst að gróður óx á svæðinu áður en jöklar gengu fram á litlu-ísöld (12-16. öld).

Sumar þessara gróðurleifa hafa verið aldursgreindar og eru frá mun eldri tíð, frá því fyrir landnám.

Haustið 2017 var grafin út birkilurkur og aldursgreindur en sagt var frá þeim fundi í fjölmiðlum, síðla árs 2017, og vakti töluverða athygli. Aldur hans var 3000 ár.

Þann 20. júní 2018 fóru starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands, auk samstarfsmanna aftur á Breiðamerkursand til þess að grafa út aðra birkilurka sem höfðu fundist í jökulurðinni.

Til þess að komast á áfangastað með verkfæri og tól, til að grafa þá út, var siglt yfir Jökulsárlón.

Ein jökulkvíslin hefur grafið út djúpan farveg og þar fundust lurkar. Nokkra klukkutíma tók að grafa út lurkana. Stærsta sýnið reyndist 1,5 m á lengd.

Sýnin voru pökkuð inn sérstaklega og flutt til frekari rannsókna og forvörslu. Frá niðurstöðum þeirra verður sagt frá síðar.

Hér má sjá stutta mynd um vinnuferðina í júní 2018, bæði á íslensku og ensku.

 

 

Nýir starfsmenn hjá Náttúrustofu Suðausturlands

Þann 1. júní tóku tveir nýjir starfsmenn til starfa hjá Náttúrustofu Suðausturlands.

Lilja Jóhannesdóttir verður með starfsaðstöðu í Nýheimum á Höfn í Hornafirði. Hún er með doktorspróf í vistfræði og starfaði áður hjá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Suðurlandi. Hennar verkefni munu að mestu snúa að verkefnum sem tengjast fuglum og vistfræði. Lilja er alin upp á Nýpugörðum á Mýrum til 12 ára aldurs og má því segja að hún sé komin heim.

Pálína Pálsdóttir verður með starfsaðstöðu í Kirkjubæjarstofu á Kirkjubæjarklaustri. Hún er með B.Sc próf í Búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hennar verkefni mun snúa að gerð hættumats vegna jökulhlaupa á Skaftársvæðinu sem er á ábyrgð Veðurstofu Íslands 2016-2017, en gerður var sérstakur samningur milli Umhverfisráðuneytis og Náttúrustofu Suðausturlands um það verkefni. Einnig vinnur hún að samstarfsverkefni með Landgræðslunni sem kallast „Bændur græða landið“.  Pálína er frá og býr að Mýrum í Álftaveri.

 

Lilja Jóhannesdóttir

Lilja Jóhannesdóttir

Pálína Pálsdóttir