Sýning á Háskólatorgi, í Tröðinni

Sýning á Háskólatorgi á jöklum í vísindum, listum og myndum

Síðastliðinn föstudag var opnuð sýning á Háskólatorgi, í Tröðinni sem nefnist „Jöklar í vísindum, listum og myndum“.  Sýningin mun standa yfir í fjórar vikur, þ.e. til 23. febrúar. Myndirnar á sýningunni eru eftir Snævarr Guðmundsson jöklajarðfræðing hjá Náttúrustofu Suðausturlands og Þorvarð Árnason, umhverfisfræðing og forstöðumann Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði. Sýningin fjallar um íslenska jökla og leggur bæði áherslu á myndræna skráningu á áhrifum hnattrænna loftslagsbreytinga á jökla og fegurð þeirra og tign.

Snævarr Guðmundsson er deildarstjóri hjá Náttúrustofu Suðausturlands með aðsetur á Höfn í Hornafirði. Hann hefur stundað rannsóknir á íslenskum jöklum og hopi þeirra um árabil. Í rannsóknum sínum hefur Snævarr m.a. skoðað möguleika þess að meta hop jökla út frá sögulegum myndheimildum, einkum ljósmyndum og kortum. Hann hefur þegar birt eina grein um slíkar rannsóknir í Jökli. Snævarr hefur um langa hríð lagt stund á ljósmyndun samhliða vísindastörfum og gefið út tvær bækur, Þar sem landið rís hæst – Öræfajökull og Öræfasveit (1999) og Íslenskur stjörnuatlas (2004), auk þess að leggja til ljósmyndir af landslagi, jöklum og stjarnfræðilegum fyrirbærum í bækur eftir aðra höfunda.

Þorvarður Árnason er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði. Hann hefur fengist við ljósmyndun og kvikmyndagerð í um þrjá áratugi samhliða fræðistörfum. Þorvarður hefur skrifað nokkrar fræðigreinar um ljóslistir, m.a. í Tímarit Máls og Menningar. Hann hefur einnig leitast við að þróa sjónrænar rannsóknaraðferðir, einkum fyrir rannsóknir á landslagi og upplifun þess en seinni árum einnig til að afla og miðla heimildum um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á íslenska jökla. Þorvarður hefur haldið fjölda einkasýninga á ljósmyndum sínum og gefið út eina bók, Jökulsárlón – Árið um kring (2010).

Myndirnar á sýningunni voru upphaflega útbúnar vegna ráðstefnunnar „Jöklar í bókmenntum, listum og lífinu“ sem fram fór á Höfn dagana 28.-30. apríl 2017. Ráðstefnan var á vegum Rannsóknasetursins á Hornafirði í samvinnu við Náttúrustofu Suðausturlands og Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Til ráðstefnunnar var boðið rithöfundum og fræðimönnum á sviði bókmennta, myndlistar, heimspeki og jöklafræða, auk þess sem settar voru upp sýningar í Listasafni Svavars Guðnasonar og í Nýheimum.

Dagskrá hennar má finna á vef Rannsóknasetursins. Fyrirlestrarnir voru teknir upp af Ríkisútvarpinu og eru efni þáttaraðar sem finna má á vef RÚV.

Ráðstefnan, þ.m.t. gerð þessara mynda, var styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Vinum Vatnajökuls og rektor Háskóla Íslands.

Stjörnumælingar 2016 til 2017

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands, sem greinir frá ljósmælingum á völdum myrkvatvístirnum og fjarreikistjörnum, sem flestar voru gerðar frá Hornafirði árin 2016 til 2017. Myrkvatvístirni eru tvær [sól]stjörnur bundnar sameiginlegri þungamiðju. Frá jörðu séð aðgreinast þær ekki í sjónaukum og  sést aðeins „stök” stjarna. Breytingar á birtustyrk leiða hins vegar í ljós raunverulegt eðli þeirra. Fjarreikistjörnur tilheyra fjarlægum sólkerfum. Þegar reikistjarna [þver]gengur fyrir móðurstjörnu sína hefur það áhrif á birtustyrkinn. Hægt er að nema breytinguna með nákvæmum ljósmælingum. Í skýrslunni er sagt frá hverju viðfangsefni sérstaklega. Að frátöldum athugunum 2016—2017 er tveim eldri viðfangsefnum skotið inn.

Skýrslan er önnur í röðinni yfir stjörnuathuganir sem gefin er út af Náttúrustofu Suðausturlands. Niðurstöður hafa verið sendar í alþjóðlegt gagnasafn þar sem þær, ásamt fjölda sambærilegra mæligagna frá stjörnuáhugamönnum, eru aðgengilegar stjarnvísindasamfélaginu. Hægt er að nálgast skýrsluna hér eða sækja hana og annað efni tengt stjarnmælingum inni á útgefið efni hjá Náttúrustofu Suðausturlands.

Sjöstirnið í Nautinu. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.