Í Endalausadal í Lóni

Ástandsmat á gróðurlendi í Endalausadal í Lóni

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um ástandsmat á gróðurlendi í Endalausadal í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu árið 2015. Samstarfsaðilar voru Landgræðsla Ríkisins, landeigendur í Endalausadal og Herdís Ólína Hjörvarsdóttir líffræðingur.

Íslenskur sauðfjárbúskapur byggist fyrst og fremst á frjálsri úthagabeit sauðfjár yfir sumarmánuðina. Gott ástand úthaga skiptir því miklu máli ef sauðfjárrækt á að vera hagkvæm og umhverfisvæn. Vöxt og viðhald búfjárs í úthaga má rekja til þess í hvernig ástandi beitarlandið er. Sömuleiðis er verndun landsvæða gegn ofnýtingu og landgræðsla mikilvægur þáttur í því að vinna gegn hnattrænni hlýnun. Til að geta fylgst með breytingum á ástandi gróðurlands þarf að fara fram mat á því með reglulegu millibili. Út frá reglubundnu mati má sjá þróun svæðis og gögn sem verða til við matið nýtast meðal annars við ákvarðanatöku vegna beitarstýringar og landgræðslu.

Helstu niðurstöður ástandsmatsins í Endalausadal árið 2015 sýna að ástand dalsins er fremur slæmt. Gróðurþekja er oftar en ekki mjög takmörkuð vegna grjóts og rofs, en sérstaklega var algengt að sjá rofdíla í sverði. Þessir rofdílar og rofabörð bera þess merki að dalurinn sé, eða a.m.k. hafi verið í gegnum tíðina, ofbeittur. Ekki má því mikið út af bregða svo að dalurinn fari þjást alvarlega af jarðvegsrofi. Tækifæri til bóta er að takmarka beit í dalnum, en einnig mætti skoða uppgræðslu með Landgræðslunni.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

Merkur fundur í vettvangsferð á Breiðamerkursandi. Mikilvægt innlegg í skráningu jöklabreytinga.

Í vettvangsferð um Breiðamerkursand, fimmtudaginn 3. ágúst 2017,  vísaði Fjölnir Torfason, Þórbergssetri, samferðafólki á athyglisvert grettistak. Aðrir í ferðinni voru Helga Árnadóttir, aðstoðarþjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, Rósa Björk Halldórsdóttir, yfirlandvörður við Jökulsárlón og Snævarr Guðmundsson, jöklafræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands. Steininn hafði Þorsteinn Guðmundsson frá Reynivöllum, notað sem viðmið í jöklamælingum fyrir miðja síðustu öld. Á hann er fest koparplata, sem hann greypti í fjarlægðir að jökulsporði Breiðamerkurjökuls, á árunum 1945 til 1951.

Fjölnir fann steininn fyrir tilviljun við smalamennsku haustið 2005. Hann segir svo frá að „sól hafi  verið lágt á lofti og hann tekið eftir að það glampaði á eitthvað við steininn.“ Fjölnir vissi strax hvað um var að ræða, enda skráði hann sjálfur á þessum tíma sporðastöðu Breiðamerkurjökuls. Saga reglubundinna jöklamælinga í Austur-Skaftafellssýslu nær aftur til 1930. Helgi H. Eiríksson hófst fyrstur handa við það en síðan tók Jón Eyþórsson, veðurfræðingur við og kom á fót skráningu jökulsporða víða. Það voru heimamenn sem sinntu mælingunum lengst af á Breiðamerkurjökli. Fjölnir hafði skráningarbækur forvera sinna undir höndum og vitnesku um að einhvers staðar á þessum slóðum hefði verið steinn með áfastri plötu.

Snævarr Guðmundsson, jöklafræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands vinnur markvisst að skráningu jöklabreytinga í skriðjöklum Vatnajökuls. Snævarr og Fjölnir höfðu lengi ætlað sér að fara að steininum og náðu loks ferð saman á þessum bjarta fimmtudegi í byrjun ágústmánaðar. Platan er enn áföst steininum og vel má lesa hvað Þorsteinn á Reynivöllum skráði. Þorsteinn notaði lambastimpla, til að hnoða ártal og vegalengd (í metrum) frá steininum að jökulsporði á plötuna. Þessar aðferðir eru ólíkar þeim sem nú tíðkast meðal vísindamanna, sem nota GPS tæki, loftmyndir í  miklum gæðum eða gervihnattamyndir, til að skrá stöðu jökuls hverju sinni. Stimplarnir eru enn vel lesanlegar í dag. Tölurnar veita jöklafræðingum mikilvægar upplýsingar um stöðu jökulsins á þessum tíma, sem er síðan mikilvægt púsl í hopunarsögu Breiðamerkurjökuls.

Þó svo að endurfundur skráningarsteinsins hafi verið skemmtilegt innlegg í þessa vettvangsferð, var þó megin tilgangurinn að fara fyrstu yfirferð yfir þá vegslóða sem myndast hafa á sandinum undanfarin ár. Margir þeirra hafa tilgang en aðrir slóðar enda í vegleysum eða jafnvel hefur akstur valdið gróðurskemmdum og jarðraski. Breiðamerkursandur er nú orðinn friðlýstur innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Svæðið á sér merka sögu jökla- og náttúrufarsbreytinga. Brýnt er að hraða gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Sandinn, þar sem m.a. þarf að taka fyrir landnýtingu. Í ferðinni var nokkrum slóðum lokað, þar sem einsýnt þótti, að þeir voru ekki í gagnagrunnum og höfðu valdið spjöllum.  Á mörgum stöðum voru afar ljót för í landið og bersýnileg merki um utanvegaakstur. Vonir eru bundar við að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið veiti gott utanumhald og fræðslu, þannig að ferðir ökutækja um sandinn verði skipulagðar þannig að náttúra og nýting fari vel saman.

Þessi frétt birtist einnig á heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs.

Platan sem Þorsteinn Guðmundsson frá Reynivöllum skráði vegalengd að jökulsporði, á árunum 1945-1951. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Breiðamerkursandur. Ljósm. Náttúrustofa Suðausturlands , 3. mars 2017.