Jörðin Fell orðinn hluti Vatnajökulsþjóðgarðs.

Þann 25. júlí síðastliðinn ritaði Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindamálaráðherra, undir friðlýsingu jarðarinnar Fells og nærliggjandi þjóðlenda á Breiðamerkursandi, þ. á m. Jökulsárlóns. Í friðlýsingunni felst að þetta land (alls 189 ferkm) verður hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Ríkið keypti jörðina í byrjun janúar 2017 og við þessa viðbót er þjóðgarðurinn orðinn 14.141 ferkm.

Þessi stækkun bætir í fjölbreytileika Vatnajökulsþjóðgarðs, en þetta er eina svæðið þar sem hann nær að sjó. Enginn vafi leikur á að þetta styrkir ennfrekar við tilnefningu þjóðgarðsins, það er að koma honum á heimsminjaskrá UNESCO.

Á Breiðamerkursandi er vitnisburður um landmótun jökla hvað aðgengilegastur hér á landi. Svo orkuríkt er landið að á fremur stuttum tíma er hægt að nema atburðarás landbreytinga. Hraðastar eru breytingarnar á Breiðamerkurjökli, sérstaklega þar sem jökullinn kelfir í Jökulsárlón. Ísjakarnir eru eitt megin aðdráttarafl lónsins, sem ferðamenn sækjast eftir. Hitt er þó ekki síður mikilvægara að á Breiðamerkursandi eru varplönd ýmissa fuglategunda. Í svo svipmiklu og síbreytilegu landi eru stundaðar vísindarannsóknir, bæði á landmótun og þróun auk landnáms lífríkisins.

Þar sem aðgengi um sandinn er fremur gott er svæðið afar heppilegt til fræðslu um landmótun. Á sama tíma er það jafnframt viðkvæmt og berskjaldað gagnvart ágangi manna. Þess vegna er gott að fá Breiðamerkursand inn í þjóðgarðinn, því það er þá helst þar að tryggð verði verndun hans.

Undirritun friðlýsingar 25. júlí 2017, við Jökulsárlón. Frá vinstri: Regína Hreinsdóttir þjóðgarðsvörður, Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri Sveitarféalgsins Hornafjarðar, ónafngreindur sonur Bjartar, Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórður H. Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs. Mynd: Snævarr Guðmundson.

Undirritun friðlýsingar 25. júlí 2017, við Jökulsárlón. Frá vinstri: Regína Hreinsdóttir þjóðgarðsvörður, Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar, ónafngreindur sonur Bjartar, Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórður H. Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs. Mynd: Snævarr Guðmundson.

 

Breiðamerkursandur og Jökulsárlón. Myndin er tekin 9. mars 2017. Samsett mynd: Náttúrustofa Suðausturlands/Snævarr Guðmundsson.

Helsingjar merktir á Breiðamerkursandi sumarið 2017

Starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands, Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, Vatnajökulsþjóðgarðs ásamt fleirum tóku þátt í að merkja helsingja á Breiðamerkursandi í lok júlí. Verkefnið er hluti af stærra fuglamerkingaverkefni á vegum Arnórs Sigfússonar, dýravistfræðings hjá Verkís, fuglafræðinga hjá Wildfowl & Wetlands í Bretlandi (http://www.wwt.org.uk/) og Halldórs Walters Stefánssonar á Náttúrustofu Austurlands. Eru þessar merkingar m. a. liður í því að fylgjast með hátterni fuglanna og ferðum þeirra. Þeir fóru víða um öræfi á Norður- og Austurlandi, merktu nokkur hundruð gæsir og settu GPS senda á fjölmargar þeirra. Sagt var frá þessum merkingum í sjónvarpsfréttum RÚV, sunnudaginn 30. júlí http://ruv.is/sarpurinn/klippa/smala-gaesum-og-merkja-med-gps-sendum.  Í lokin á sömu ferð komu þeir við á Breiðamerkursandi. Þar var 41 helsingi merktur með númeruðu álmerki á öðrum fæti og lituðu bókstafsmerki á hinum.

Fuglunum var smalað saman og settir í net og háfa. Því næst voru þeir kyngreindir og merktir. Þegar allir fuglarnir höfðu fengið merki var þeim sleppt á ný. Nú verður að bíða og sjá hvar og hvenær þessir fuglar sjást eða nást næst.

 

Helsingjunum smalað saman. Mynd: Halldór Walter Stefánsson, 28. júlí 2017.

Helsingjarnir komnir í net og bíða merkinga. Mynd: Halldór Walter Stefánsson, 28. júlí 2017.

Carl Mitchell kyngreinir einn helsingjann og Rósa Björk Halldórsdóttir (t. h.) og Kristín Hermannsdóttir bíða átekta. Mynd: Halldór Walter Stefánsson, 28.júlí 2017.

Björn Gísli Arnarson og Hrafnhildur Ævarsdóttir með sinn hvorn helsingjann. Mynd: Kristín Hermannsdóttir, 28. júlí 2017.

Kristín Vala Þrastardóttir og Halldór Walter Stefánsson með nýmerktan helsingja. Mynd: Kristín Hermannsdóttir, 28. júlí 2017.

Helsingjar á Beriðamerkursandi. Mynd: Þorvarður Árnason, 28. júlí 2017.

Hópurinn sem tók þátt í merkingum á Breiðamerkursandi (vantar Kristínu Völu). Mynd: Þorvarður Árnason, 28. júlí 2017.

Búið að opna netið og merktir helsingjarnir hlaupa í burtu frá merkingarfólkinu. Mynd: Kristín Hermannsdóttir, 28. júlí 2017.