3. bekkur í tungl- og stjörnuskoðun

Fimmtudagsmorguninn 28. janúar komu vaskir krakkar úr 3. bekk Grunnskóla Hornafjarðar í heimsókn til Náttúrustofu Suðausturlands í Nýheimum. Þau komu ásamt kennara sínum, en nokkrir foreldrar og aðrir aðstandendur slógust einnig í hópinn. Tilefnið var að skoða tunglið, Júpíter og tungl hans sem kallast Galílei-tunglin og heita Jó, Evrópa, Kallistó og Ganymedes. Fór þessi skoðun fram vestan við Nýheima – úti við Náttúrustíginn og voru notaðir tveir stórir stjörnusjónaukar, en einnig var horft til himins með handsjónaukum og berum augum. Við stíginn er unnið að því koma fyrir steinum víðs vegar úr sveitarfélaginu til fræðslu og afþreyingar og einhverjir klifruðu upp á þá. Var ekki annað að sjá og heyra en að heimsóknin hefði heppnast vel, þrátt fyrir nokkrar kaldar tær.

 

20160128_081854 20160128_081724 20160128_081711

 

 

 

 

20160128_082730 (2) 20160128_083407 (2)galileotunglin

Vetrarmánuðirnir eru tími íshellaskoðunar 2016

Starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands renndu á dögunum út á Breiðamerkursand í vísindalegum erindagjörðum en gafst engu að síður tími til að skoða íshelli í Breiðamerkurjökli sem gjarnan er auðkenndur sem „Kristalshellirinn“ af leiðsögumönnum á svæðinu. Það er skemmtileg upplifun að komast í hellinn sem þennan dag skartaði dulúðlegum bláma og sérkennilegum holum eða „vösum“ í ísinn. Íshellar í Breiðamerkurjökli hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn en þangað sækja þeir flestir undir traustri leiðsögn. Myndirnar  eru teknar í íshellinum og á ströndinni við Jökulsárlón.

SG_20160120_

Kristín Hermannsdóttir í þrengsta hluta hellisins. SG, 20 janúar 2016.

SG_20160120__01

Innsti hluti íshellisins. Ljósm. SG, 20 janúar 2016.

20160112_132415

Óskar Arason ásamt ferðahópi í hellinum. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir, 20. janúar 2016.

20160112_132252

Ferðamenn í íshellinum. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir, 20. janúar 2016.

SG_20160120__04

Jakadreif í fjörunni við Jökulsárlón. SG, 20 janúar 2016.

SG_20160120__03

Strönduðu ísjakarnir taka oft á sig ótrúleg form, ísskúlptur af náttúrunnar hendi . SG, 20 janúar 2016.

 

 

Sjónvarpsútsending frá Breiðamerkurjökli 2016

Þann 6. janúar 2016 sýndi bandaríska sjónvarpsstöðin ABC innslag í þættinum „Good Morning America“ í beinni útsendingu frá Breiðamerkurjökli. Amerískur fréttamaður, Amy Robach, ræddi loftslagsbreytingar og bráðnun jökla sem er sterkur vitnisburður þeirra. Þetta var gert sem framhald umfjöllunar af loftslagsráðstefnunni í París.

Útsendingin fór fram á austanverðum Breiðamerkurjökli, inn í svonefndri Þröng við Fellsfjall. Töluvert var gert úr svokölluðum svelgjum, sem eru lóðréttir hringlaga vatnsfarvegir sem myndast í leysingjasvæðum jökla, og hvaða vísindalega þýðingu þeir hafa fyrir jöklarannsóknir. Ísklifrarar sigu niður í opinn 30 m djúpan jökulsvelg, sem er í jöklinum nærri mynni Fremri-Veðurárdals, og klifruðu upp úr honum. Á meðan var drónum flogið fram og aftur og frá þeim fengust stórkostleg myndskeið af jöklinum.

Amy ræddi m. a. við jöklafræðinginn Daniel J. Morgan um jökla, hnattræna hlýnun almennt og síðan Breiðamerkurjökul, kuðunga sem hafa fundist innan marka Jökulsárlóns og ýmislegt fleira. Það kom auðvitað ekki fram í umfjölluninni að Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands sá um að safna efni og upplýsingum um Breiðamerkurjökul og leggja fram tillögur að efnistökum í þessum viðburði, sem mörg hver voru notuð.

Fjöldi starfsmanna kom að útsendingunni. Sjónvarpsstöðin var með 12 manna flokk sem vann að útsendingunni, auk þeirra voru nokkrir íslenskir klifrarar, leiðsögumenn og stjórnendur sem komu við sögu. Hægt er að lesa umfjöllun um þennan viðburð hér:

Good Morning America náði einstökum myndum á Breiðamerkurjökli

Magnaðar myndir frá Breiðamerkurjökli

Lærði að bera fram „Breiðamerkurjökull“

Myndirnar sem hér birtast tók Snævarr (SG) á Breiðamerkurjökli þegar á útsendingunni stóð.

SG_201601061_

Vettvangssvæði á jöklinum í Þröng. Eins og sést á spegluninni var jökullinn harður og glerháll. Ófær ef fólk er ekki á ísbroddum. Ljósm. SG, 6. janúar 2016.

SG_20160106__021

Dan J. Morgan og drónar sem voru notaðir til þess að mynda í útsendingunni. Ljósm. SG, 6. janúar 2016.

SG_20160106__04

Ísklifrarar undirbúa sig að síga ofan í svelginn. Hann var um 25-30 m djúpur 10-15 m í þvermál. Sjá má dróna á flugi hægra meginn við svelginn. Ljósm. SG, 6. janúar 2016.

SG_20160106__01

Drónar koma inn til lendingar. Þrír komu að stjórnun drónanna, tveir stýrðu flygildunum en sá þriðji réði hvaða myndskot voru í notkun. Ljósm. SG, 6. janúar 2016.

Uppskerutap vegna ágangs gæsa í ræktarlönd í Austur-Skaftafellssýslu 2015

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um uppskerutap vegna ágangs gæsa í ræktarlönd 2015. Verkefnið var samstarfsverkefni Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, Búnaðarsambands Suðurlands og Landbúnaðarháskóla Íslands og styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins.

Skýrslan greinir frá verkefni sem unnið var árið 2015. Rannsókn var gerð í Austur-Skaftafellssýslu en þar var borin saman uppskera í friðuðum grasreitum við reiti sem fuglar komust að. Einnig voru skoðuð tengsl á milli fjölda fugla á ákveðnum túnum og rýrnun uppskeru. Markmiðið var að kanna áhrif gæsabeitar að vori og fram á sumar á uppskeru grass.

Niðurstöður sýna mismun á uppskeru af friðuðum reitum og viðmiðunarreitum, að meðaltali 985 kg af þurrefni á hektara. Þurrefnisuppskera var að meðaltali 33% minni þar sem fuglarnir komust um túnin. Á tilraunatúnunum töpuðust því 3,5 rúllur af þurrefnisuppskeru á hektara að meðaltali. Með kostnaðarútreikningum má sjá að mismunur í uppskeru kostaði að meðaltali 36.218 kr./ha. Einfalt fylgnipróf var framkvæmt til að sjá samhengi milli fjölda fugla og mismunar í uppskeru, en það sýndi enga fylgni. Ekki er hægt að alhæfa að talningatölurnar séu lýsandi fyrir fjöldann, en töluverðar líkur eru á að talningatölur sýni lágmarksfjölda fugla á hverjum stað.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

Uppskera úr tilraunareit 3. júlí 2015

Uppskorið úr tilraunareitum 3. júlí 2015. Kristín Hermannsdóttir, Grétar Már Þorkelsson og Jóhann Helgi Stefánsson

Uppskorið úr tilraunareit 3. júlí 2016. Jóhann Helgi Stefánsson og Grétar Már Þorkelsson.

Uppskorið úr tilraunareit 3. júlí 2016