Mynd 1. Breiðamerkurjökull og Jökulsárlón, 10. október 2014. Esjufjallarönd á upptök frá Skálabjörgum, Esjubjörgum og Austurbjörgum í Esjufjöllum. Árið 2015 var lengd hans frá Skálabjörgum 15 km fram á sporð en 21 km frá Austurbjörgum. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.

Hlykkur á Esjufjallarönd ofan við Jökulsárlón

Í könnunarflugi yfir Breiðamerkurjökli, haustið 2014, sást að hraðar breytingar á jöklinum hafa valdið því að Esjufjallarönd hefur á nokkrum árum sveigst verulega til austurs upp af Jökulsárlóni (mynd 1). Esjufjallarönd er urðarrani sem liggur eftir jöklinum frá Esjufjöllum. Röndina myndar bergmulningur sem jöklarnir hafa sorfið af hlíðum Esjufjalla. Urðarraninn, þ. e. röndin, liggur á milli Esjufjallajökuls (miðarmur Breiðamerkurjökuls) og Norðlingalægðarjökuls (austurarmur). Norðlingalægðarjökull skríður niður rennu sem nær 200-300 m niður fyrir sjávarmál og er Jökulsárlón fremsti hluti hennar, en vestan við hana hvílir Esjufjallajökull á fremur flötu landi.

Esjufjallarönd hefur lengst af legið fram í Jökulsárlón, eftir að það tók að myndast upp úr 1930. Það gerðist í kjölfar þess að jökullinn tók að hopa. Ísjármælingar sem gerðar voru árið 1991 á Breiðamerkurjökli sýndu að lónið er í rauninni í mikilli rennu sem nær langleiðina  norður í Esjufjöll. Varð þá sýnt að við áframhaldandi hop Breiðamerkurjökuls myndi lónið halda áfram að stækka.  Jökullinn kelfir (brotnar) í lónið og myndar ísjaka sem eru ferðamönnum sem á leið um Breiðamerkursand mikið augnayndi.

Eftir 2007 fór að sjást í fast berg fremst við röndina, lónsmegin, og nú virðist fremsti hluti hennar hvíla á þurru landi (mynd 2).  Á sama tíma heldur kelfingin áfram og lækkun Norðlingalægðarjökuls upp af lóninu sem hefur smám saman valdið því að aukinn hluti Breiðamerkurjökuls er tekinn að hníga í áttina að Jökulsárlóni. Austurhluti Esjufjallajökuls sækir því inn að dæld upp af lóninu og sveigir um leið röndina  austur. Samanburður gervihnattamynda og LiDAR gagna, bendir til að Esjufjallarönd hafi verið farin að sveigjast örlítið á 8 km kafla ofan við sporðinn, kringum 2006. Hliðrunin á Esjufjallarönd hefur verið að meðaltali 5 m á ári efst og 30—40 m/ári þar sem hún hefur gengið hvað hraðast fyrir sig.

Sveigjan varð þó fyrst áberandi eftir 2012. Samtímis breikkar röndin, þar sem hraðinn er mestur, hún verður  gisnari, sprungur myndast þar sem teygist á jöklinum. Vegna þess að fremsti hluti urðarranans liggur hreyfingarlaus á föstu landi myndast hlykkur á röndina. Ef fram vindur sem horfir er líklegt að Esjufjallarönd verði farin að  brotna í lónið að nýju, að nokkrum árum liðnum. Enn er mikill ís í fremsta hluti urðarinnar, sem nú er á föstu landi (2015) og mun hann bráðna á nokkrum áratugum og skilja eftir sig hrúgald af urð.

Sagt var frá þessu á mbl.is þann 25. ágúst 2015, sjá hér.

Mynd 1.  Breiðamerkurjökull og Jökulsárlón, 10. október 2014. Hlykkurinn á Esjufjallarönd.  Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.

Mynd 1.
Breiðamerkurjökull og Jökulsárlón, 10. október 2014. Hlykkurinn á Esjufjallarönd. Ljsmynd Snævarr Guðmundsson.

 

Mynd 2. Esjufjallarönd og jökulsporður árið 2015 og landið undir Breiðamerkurjökli, samkvæmt íssjármælingum Jöklahóps Jarðvísindastofnunar HÍ árið 1991. Breiðamerkurjökull er gerður gegnsær til þess að landið undir honum sjáist. Rennan er sýnd með 20 m dýptarbili (gular línur eru 0 m y. s.) en landið ofan sjávarmáls 100 m hæðarbili. Fremsti hluti Esjufjallarandar situr á hæð sem rís 20—40 m y. s. Vestan við og samhliða röndinni hallar ofan í rennuna. Urðarraninn hefur ekki hliðrast til ofan við ~ 8 km norðan jökulsporðsins (2004 röndin hættir) enda ekki ofan í rennunni þar.

Mynd 2.
Esjufjallarönd og jökulsporður árið 2015 og landið undir Breiðamerkurjökli, samkvæmt íssjármælingum Jöklahóps Jarðvísindastofnunar HÍ árið 1991. Breiðamerkurjökull er gerður gegnsær til þess að landið undir honum sjáist. Rennan er sýnd með 20 m dýptarbili (gular línur eru 0 m y. s.) en landið ofan sjávarmáls 100 m hæðarbili. Fremsti hluti Esjufjallarandar situr á hæð sem rís 20—40 m y. s. Vestan við og samhliða röndinni hallar ofan í rennuna. Urðarraninn hefur ekki hliðrast til ofan við ~ 8 km norðan jökulsporðsins (2004 röndin hættir) enda ekki ofan í rennunni þar.

2015: Ár jarðvegsins

Sameinuðu þjóðirnar

©Sameinuðu þjóðirnar

Jarðvegur er skilgreindur sem efsta lagið á jarðskorpunni. Hann er undirstaða í velgengni plantna og þar með dýra. Jarðvegur er því afar mikilvægur, þó fær hann ekki alltaf þá athygli sem hann á skilið. Sameinuðu þjóðirnar útnefndu árið 2015 sem ár jarðvegs, einmitt til  að vekja athygli á mikilvægi hans og þeim ógnum sem steðja að jarðvegi í heiminum.

Jarðvegur er okkur mannfólkinu lífsnauðsynlegur. Í gegnum árþúsundin hafa sprottið upp blómleg menningarsamfélög þar sem frjósaman jarðveg er að finna og  virðist oft vera tenging milli hnignunar samfélaga og skorts á góðum jarðvegi. Enda þarf að hugsa vel um jarðveginn, því að með mikilli og langvarandi ræktun minnkar frjósemi hans.

Jarðvegur er þó ekki bara jarðvegur. Jarðvegur heimsins er flokkaður á grundvelli þess hvað einkennir hann. Fyrsta flokkunin var gerð af rússanum V.V. Dokuchaev í lok 19. aldar, það var ekki fyrr en á fyrri hluta 20. aldar sem önnur lönd fór að skilgreina mismunandi jarðveg út frá eðliseinkennum hans. Nú er til alþjóðlegt flokkunarkerfi fyrir jarðveg (WRB) á vegum  Sameinuðu þjóðanna, þar er jarðvegur heimsins skilgreindur í 32 mismunandi hópa. Flest lönd hafa svo sína eigin flokkun sem byggir á hinni alþjóðlegu. Það er gert til að útskýra betur þann mun sem er á eðliseiginleikum hans. Þó svo að hið alþjóðlega flokkunarkerfi sé til staðar, er flokkunarkerfi Bandaríkjanna(USDA)  einnig notað á heimsvísu. Þar jarðvegnum skipt upp í 12 flokka. Íslenskur jarðvegur er flokkaður sem eldfjallajörð (e. Andosol) í báðum flokkunarkerfunum.

Nú hafa augu heimsins einkum beinst að jarðvegsvernd og landgræðslu til að stemma stigu við þeirri hnattrænu hlýnun sem við mannfólkið eigum sök á. Jarðvegur bindur mun meira af kolefni heldur en nokkur annar hluti lífkerfisins, að hafinu undanskyldu. Með aukinni landgræðslu er hægt að vinna upp þann jarðveg sem hefur tapast, auk þess sem vistkerfin auka framleiðni sína og virkni. Andosol – eldfjallajarðvegur hefur  tilhneigingu til að binda mun meira af kolefni en annar þurrlendisjarðvegur. Það er því mikið af kolefni bundið í hinnum íslenska Andosol, oft yfir >40 kg/m2 á þurrlendi en >90 kg/m2 í votlendi. Þar sem mikið er um auðnir á Íslandi hefur töluvert tapast af jarðvegi hér á landi eftir að land byggðist, bæði af mannavöldum og af náttúrulegum orsökum. Með því að græða upp þær auðnir er mögulegt að binda umtalsvert magn kolefnis. Það er því góð mótvægisaðgerð við allt það koltvíoxíð  (CO2  )sem við dælum útí andrúmsloftið á degi hverjum. Einnig er nauðsynlegt að draga úr beit á mörgum stöðum landsins, þar sem ofbeit leiðir til þess að rof myndast í gróðurþekjuna og þá tapast jarðvegurinn.

Með þessum stutta pistli vona ég að að vitneskja þín, lesandi góður, hafi aukist örlítið um hversu gríðarlega mikilvægur jarðvegur er fyrir líf okkar hér á jörðinni. Enn fremur nauðsyn þess að við stöndum okkur í að vernda þann jarðveg sem enn er til staðar hér á landi sem og í heiminum öllum.

Heimildir:

Fyrirlestrar Guðrúnar Gísladóttir, PhD í Náttúrulandfræði við HÍ, 2013.
Ólafur Arnalds, Grétar Guðbergsson og Jón Guðmundsson (2000). Carbon sequestration and reclamation of severely degraded soils in Iceland. Búvísindi 13; 87-97