Niðurtalning hafin: fyrsta heimsókn geimkanna til hins fjarlæga dvergreikistirnis Plútó.
Mynd listamanns af geimkannanum New Horizons. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute.
[powr-countdown-timer label=“New Horizons“]
Þann 14. júlí næstkomandi þýtur geimkanninn „New Horizons“ framhjá dvergreikistjörnunni Plútó, eftir rúmlega níu ára ferðalag frá jörðu. Honum var skotið á loft þann 19. janúar 2006, frá Canaveralhöfða á Flórida. Geimkanninn verður næst Plútó kl 11:49:57 þann dag, minna en 10 000 km ofan við yfirborðið. Markmið leiðangursins er að afla upplýsinga um Plútó og fylgitunglin Karon, Nix, Hýdra, Kerberos og Styx. Í verkefnaáætluninni er einnig að senda upplýsingar um eitt eða tvö enn fjarlægari útstirni seinna meir.
Ameríski stjörnufræðingurinn Clyde Tombaugh fann Plútó þann 18. febrúar 1930. Um langt skeið var hún flokkuð sem reikistjarna en eftir því sem fleiri útstirni (reikistirni utan við braut Neptúnusar) fóru að finnast, eftir 1990, varð ljóst að nákvæmari flokkunar á fyrirbærum sólkerfisins var þörf. Árið 2006 samþykkti alþjóðasamband stjörnufræðinga að skilgreina hana sem dvergreikistirni. Er Plútó jafnframt stærsti hnötturinn sem þekkist í hinu svonefnda Kuiper-belti, sem er svæðið í sólkerfinu utan við braut Neptúnusar.
Þó að Plútó sé ekki lengur skilgreind sem reikistjarna breytir það engu um hve áhugavert fyrirbæri er um að ræða. Plútó er 248 jarðár að fara sporbraut sína umhverfis sólu og er meðalfjarlægðin á milli þeirra tæplega 6 milljarðar km. Svo fjarri sólu er gríðarlegt frost og talið um -230 °C á yfirborðinu. Sökum fjarlægðar sést yfirborðið afar illa, jafnvel í stærstu sjónaukum jarðar. Talið er að Plútó sé að miklu leyti íshnöttur en einnig mynduð úr bergi. Verkefni New Horizons eru m. a. að mæla hitastig og efnasamsetningu, kortleggja landform á yfirborði, kanna lofthjúp Plútós og Karons, leita fleiri fylgitungla og hringja sem gætu leynst þar.
Það styttist óðum í þennan merkilega viðburð í könnun sólkerfisins, sem er að afla góðra upplýsinga um fyrirbæri í hinum fjarlægustu svæðum þess.
Júpíter and tunglið Jó, séð frá geimkannanum New Horizons, 1. mars 2007, á leið sinni til Plútó. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute/Goddard Space Flight Center.
Myndröð geimkannans af Plútó og stærsta tunglinu, Karon, var tekin á 13 augnablikum yfir sex og hálfan dag, frá 12.–18. apríl 2015. Á þeim tíma styttist fjarlægðin úr 111 milljón km í 104 milljón km. Fleiri upplýsingar um leiðangurinn er að finna á vefsvæði NASA (http://www.nasa.gov/mission_pages/newhorizons/main/index.html). Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute.