Merki ráðstefnu

Alþjóðleg jöklaráðstefna á Hornafirði 21.-26. júní 2015

Þessa vikuna sitja tæplega 120 jöklafræðingar ráðstefnu Alþjóðlega jöklafræðifélagsins (International glaciological society) hér á Hornafirði. Áhersluefnið eru vatna- og eðlisfræði jökla í víðu samhengi. Í jöklum er bundið mikið magn vatns og er ör leysing þeirra vegna loftslagsbreytinga talsvert áhyggjuefni, m. a. vegna þeirra afleiðinga sem munu fylgja. Margar þjóðir nýta það ferskvatn sem jöklarnir geyma. Má búast við að leysing jökla hafi mikil áhrif á hagsæld fólks á þeim svæðum þegar vatnsuppspretturnar minnka eða jafnvel hverfa. Aðrar fyrirsjáanlegar breytingar er aukin flóðahætta, landris og rof. Hér á landi munu minnkandi jöklar meðal annars hafa áhrif á vatnabúskap vatnsaflsvirkjana. Breytingar á hinum stóru ísbreiðum Grænlands og Antarktíku hafa áhrif á höfin, líffræði og loftslag.
Á ráðstefnunni munu fræðimenn miðla þekkingu á helstu þáttum og eiginleikum jökla og þeirri þróun sem hefur orðið á síðustu árum.
Við setningu ráðstefnunnar á Hótel Vatnajökli sunnudaginn 21. júní hélt Björn Ingi Jónsson bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar tölu þar sem hann bauð fólk velkomið til Hornafjarðar.

 

Fláajökull vorið 2015

Á Fláajökli í mai 2015 – ljósmynd: Snævarr Guðmundsson

Merki ráðstefnu

Mynd listamanns af geimkannanum New Horizons. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute.

Geimkanninn „New Horizons“ nálgast Plútó

Niðurtalning hafin: fyrsta heimsókn geimkanna til hins fjarlæga dvergreikistirnis Plútó.

Mynd listamanns af geimkannanum New Horizons. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute.

Mynd listamanns af geimkannanum New Horizons. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute.

[powr-countdown-timer label=“New Horizons“]

Þann 14. júlí næstkomandi þýtur geimkanninn „New Horizons“ framhjá dvergreikistjörnunni Plútó, eftir rúmlega níu ára ferðalag frá jörðu. Honum var skotið á loft þann 19. janúar 2006, frá Canaveralhöfða á Flórida. Geimkanninn verður næst Plútó kl 11:49:57 þann dag, minna en 10 000 km ofan við yfirborðið. Markmið leiðangursins er að afla upplýsinga um Plútó og fylgitunglin Karon, Nix, Hýdra, Kerberos og Styx. Í verkefnaáætluninni er einnig að senda upplýsingar um eitt eða tvö enn fjarlægari útstirni seinna meir.

Ameríski stjörnufræðingurinn Clyde Tombaugh fann Plútó þann 18. febrúar 1930. Um langt skeið var hún flokkuð sem reikistjarna en eftir því sem fleiri útstirni (reikistirni utan við braut Neptúnusar) fóru að finnast, eftir 1990, varð ljóst að nákvæmari flokkunar á fyrirbærum sólkerfisins var þörf. Árið 2006 samþykkti alþjóðasamband stjörnufræðinga að skilgreina hana sem dvergreikistirni. Er Plútó jafnframt stærsti hnötturinn sem þekkist í hinu svonefnda Kuiper-belti, sem er svæðið í sólkerfinu utan við braut Neptúnusar.

Þó að Plútó sé ekki lengur skilgreind sem reikistjarna breytir það engu um hve áhugavert fyrirbæri er um að ræða. Plútó er 248 jarðár að fara sporbraut sína umhverfis sólu og er meðalfjarlægðin á milli þeirra tæplega 6 milljarðar km. Svo fjarri sólu er gríðarlegt frost og talið um -230 °C á yfirborðinu. Sökum fjarlægðar sést  yfirborðið afar illa, jafnvel í stærstu sjónaukum jarðar. Talið er að Plútó sé að miklu leyti íshnöttur en einnig mynduð úr bergi. Verkefni New Horizons eru m. a. að mæla hitastig og efnasamsetningu, kortleggja landform á yfirborði, kanna lofthjúp Plútós og Karons, leita fleiri fylgitungla og hringja sem gætu leynst þar.

Það styttist óðum í þennan merkilega viðburð í könnun sólkerfisins, sem er að afla góðra upplýsinga um fyrirbæri í hinum fjarlægustu svæðum þess.

Júpíter and tunglið Jó, séð frá geimkannanum New Horizons, 1. mars 2007, á leið sinni til Plútó. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute/Goddard Space Flight Center.

Júpíter and tunglið Jó, séð frá geimkannanum New Horizons, 1. mars 2007, á leið sinni til Plútó. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute/Goddard Space Flight Center.

Myndröð geimkannans af Plútó og stærsta tunglinu, Karon, var tekin á 13 augnablikum yfir sex og hálfan dag, frá 12.--18. apríl 2015. Á þeim tíma  styttist fjarlægðin úr 111 milljón km í 104 milljón km. Fleiri upplýsingar um leiðangurinn er að finna á vefsvæði NASA (http://www.nasa.gov/mission_pages/newhorizons/main/index.html). Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute.

Myndröð geimkannans af Plútó og stærsta tunglinu, Karon, var tekin á 13 augnablikum yfir sex og hálfan dag, frá 12.–18. apríl 2015. Á þeim tíma styttist fjarlægðin úr 111 milljón km í 104 milljón km. Fleiri upplýsingar um leiðangurinn er að finna á vefsvæði NASA (http://www.nasa.gov/mission_pages/newhorizons/main/index.html). Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute.

Hreindýrskálfur í Lóni

Þó komið sé fram á sumar eru hreindýr enn á ferli á láglendinu á Suðausturlandi. Yfirleitt fara geldar hreindýrskýr, tarfar og ung dýr í sumarhaga á hálendinu frá lokum maí, en kelfdar kýr leita yfirleitt inn til dala eða fjalla til að bera. Tarfarnir geta þó haldið sig á láglendi sumarlangt allt fram að fengitíma.

Undanfarið hafa nokkur dýr haldið sig á túninu við Þorgeirsstaði í Lóni. Bóndinn þar, Ragnar Pétursson sagði hafa séð hreindýrskýr með nýfæddan kálf, nú fyrir helgi. Sjaldgæft er að kýr beri svona nálægt mannabyggð og það hafi ekki gerst á Þorgeirsstöðum síðastliðin 45 ár.

Skarphéðinn Þórisson á Náttúrustofu Austurlands segir að flestar kelfdar kýr fari á burðarsvæði inn til dala og fjalla til að bera. Gerist það þó annað slagið að hann rekist á nýborna kýr á túnum, síðast gerðist það í Lóni við bæinn Fjörð árið 2012.

Brynjúlfur Brynjólfsson náði þessum glæsilegu myndum af kálfinum í síðustu viku, en þá var hann um 300 metra frá móður sinni. Eftir myndunum að dæma má áætla að kálfurinn sé um viku gamall og braggaralegur. Skarphéðinn furðar sig á fjarlægð hans frá móður sinni en telur að hann hafi sennilegast sofnað á túninu.

Hreindýrskálfar þroskast mjög hratt fyrstu viku lífs síns og geta leikið eftir nær öllu atferli fullorðins dýrs stuttu eftir fæðingu. Nota þeir mikinn tíma í að hvílast og fá mjólk úr spena 40 til 50 sinnum á dag fyrstu vikuna sína en sjúga skemur þegar líður á haustið.

Helsta hættan sem þessum kálfi og móður hans stafar að er umferð um þjóðveginn.

Hreindýrskálfur við Þorgeirsstaði í Lóni í lok maí 2015. Mynd; Brynjúlfur Brynólfsson

Hreindýrskálfur við Þorgeirsstaði í Lóni í lok maí 2015. Mynd: Brynjúlfur Brynjólfsson.

Hreinsýrskálfur tekur á sprett eftir að ró hans var raskað af ljósmyndara.  Mynd; Brynjúlfur Brynjólfsson

Hreindýrskálfur tekur á sprett eftir að ró hans var raskað af ljósmyndara í maílok 2015. Mynd: Brynjúlfur Brynjólfsson.

Heimild
Skarphéðinn G. Þórisson (September 2010)Hreindýr. Útgefandi: Náttúrustofa Austurlands í samstarfi við Þekkingarnet Austurlands og NEED. Sótt 01.06.15 af: http://www.austurbru.is/static/files/PDF/eldra_efni/100901_hreindyr.pdf