Náttúrustofuþing á Höfn – 8. april 2015 kl. 10:00 – 16:30

Náttúrustofuþing Samtaka Náttúrustofa (SNS) verður haldið á Höfn í Hornafirði miðvikudaginn 8. apríl 2015.  Gestgjafar þingsins að þessu sinni eru Náttúrustofa Suðausturlands í samvinnu við Samtök Náttúrustofa, Rannsóknasetur H.Í. á Hornafirði og Nýheima Þekkingarsetur.

Þema þingsins er fuglar, með sérstaka áherslu á samstarf áhuga- og fræðimanna sem sinna athugunum og rannsóknum á fuglum á Íslandi.

Þingið verður opið almenningi og gefst gestum tækifæri á að hlýða á fjölbreytt erindi starfsmanna náttúrustofa landsins og auk gestafyrirlesara.
Gert er ráð fyrir að þingið hefist kl.10 og að því ljúki kl. 16:30.

Eftir þinglok er gert ráð fyrir stuttri ferð að Hoffellsjökli og sameiginlegum kvöldverði á Hótel Höfn.

Ókeypis er inn á þingið en æskilegt er að þátttaka tilkynnist í netfangið kristin@nattsa.is fyrir 2. april svo gera megi ráðstafanir með hádegismat, kaffi og rútuferð.

Aðstandendur þingsins vonast til að sjá sem flesta á Höfn.

Hér fyrir neðan má sjá dagskrá þingsins.

Dagskrá náttúrustofuþings 2015

Dagskrá náttúrustofuþings 2015

 

Almyrkvi 29. mars 2006

Sólmyrkvinn 20. mars 2015

Deildarmyrkvi

Deildarmyrkvi. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson

Sólmyrkvi verður sjáanlegur frá Íslandi, að morgni þann 20. mars 2015. Á þeim tíma á sér stað almyrkvi í hafinu austan Íslands, og sem verður sjáanlegur m.a. frá Færeyjum og Svalbarða. Eins og heitið gefur til kynna hylur tunglið sólina alla í almyrkva. Skugginn er hins vegar afmarkaður og utan hans sjá athugendur svonefndan deildarmyrkva. Þá hylst sólin ekki öll að baki tunglinu. Litlu munar þó og frá Hornafirði séð mun 99,4% sólar verða hulinn þegar myrkvinn nær hámarki. Greinargóðar skýringar á þessum atburði og sólmyrkvum almennt finnast í Almanaki Háskóla Íslands og vefsíðu þess, http://almanak.hi.is/myrk2015.html, og Stjörnufræðivefnum, http://www.stjornufraedi.is. Atburðarásin er sú, séð frá Höfn í Hornafirði, að kl. 8:39 fer tunglið að ganga inn á skífu sólar hægra megin. Myrkvinn er mestur um klukkustund síðar, kl. 09:40 og síðan lýkur myrkvanum um kl. 10:43.

Við hvetjum fólk til að fylgjast með. Búast má við nokkru rökkri um tíma, jafnvel þó myrkvinn sjáist ekki vegna skýja. Fólk er þó varað við að horfa beint á sólina án sérstakra gleraugna, vegna mikillar hættu á alvarlegum augnskaða. Í tilefni þessa atburðar ákvað Náttúrustofa Suðausturlands í samstarfi við Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnaness að gefa nemendum og öllu starfsfólki í Grunnskóla Hornafjarðar og Kirkjubæjarskóla svokölluð sólmyrkvagleraugu. Rafsuðugler er einnig nýtilegt eða filma en vissa þarf að vera fyrir að það hleypi ekki hættulegum geislum í gegn. Fyrir utan gleraugun sem allir í grunnskólunum fá er Náttúrustofa Suðausturlands með 50 gleraugu til sölu á 500 kr. stykkið. Áhugasamir geta komið og keypt gleraugu á Náttúrustofu Suðausturlands í Nýheimum 18. og 19. mars. Fyrstur kemur fyrstu fær. Svo vonum við öll að það verði léttskýjað þegar sólmyrkvinn á sér stað.

Sólmyrkvi. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson

Almyrkvi 29. mars 2006. Sólkórónan og sólstrókar frá yfirborði sólar sjáanlegir. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.

Atburðarrás sólmyrkva 2006. Myndin er samsett til að sýna atburðarás sólmyrkva sem sást m.a. frá Tyrklandi 29. mars 2006. Tunglið fór að hylja sólina hægra megin frá svo horfa ætti á myndina frá frá hægri til vinstri. Meðan tunglið hylur einungis hluta af sólinni er myrkvinn svonefndur deildarmyrkvi. Í almyrkvanum sjálfum birtist sólkórónan og ýmis önnur fyrirbrigði. Í sólmyrkvanum 20. mars 2015, séð frá Höfn í Hornafirði hylst 99,4% sólar svo það munar einungis hársbreidd að um almyrkva sé að ræða. Ljósmyndir Snævarr Guðmundsson.

Líffræðingur – sumarstarf

Náttúrustofa Suðausturlands auglýsir sumarstarf á komandi sumri fyrir líffræðing, í M.Sc námi eða þriðja árs nema. Starfið felst í rannsóknum og úttekt á lífríki Skarðsfjarðar, sem er austan við Höfn í Hornafirði. Gagnasöfnun, úrvinnsla gagna og skýrslugerð, auk þátttöku í öðrum verkefnum Náttúrustofunnar. Starfshlutfallið er 100%, eða eftir samkomulagi. Starfsaðstaða er á Höfn í Hornafirði.

Starfsmaðurinn þarf að hafa góða íslensku- og tölvukunnáttu, vera skipulagður, sjálfstæður í vinnubrögðum og eiga gott með samstarf. Reynsla af rannsóknarstörfum er æskileg.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.

Umsóknir með upplýsingum um starfsferil og menntun skulu berast Náttúrustofu Suðausturlands, Litlubrú 2, 780 Höfn eða á netfangið kristin@nattsa.is fyrir 25. mars.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Hermannsdóttir forstöðumaður í síma 4708060