Náttúrustígur – líkan af sólkerfinu

Við göngustíg sem liggur vestanmegin við byggðina á Höfn í Hornafirði er verið að koma upp líkani af sólkerfinu, en ætlunin í framtíðinni er að koma þar fyrir upplýsingum um náttúruna í víðu samhengi. Frá stígnum er frábært útsýni til jökla og suðausturhluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Fyrsta skrefið í gerð Náttúrustígs er að koma fyrir líkani að sólkerfinu í réttum hlutföllum, hvað varðar stærð og fjarlægðir.  Út frá líkani af sólkerfinu gerir fólk sér frekar grein fyrir smæð jarðarinnar, smæð Íslands og okkar sjálfra. Jörðin er eini staðurinn í okkar sólkerfi þar sem líf þrífst svo líkanið minnir á mikilvægi þess að umgangast náttúruna vel, allt umhverfið og jörðina í heild sinni.

Við það að sjá og upplifa smæð jarðarinnar, Íslands og okkar í samanburði við sólina og aðrar reikistjörnur er ætlunin að fá fólk til þess að hugsa um mikilvægi þess að ganga vel um náttúruna og það sem við höfum. Sólkerfið mun einnig nýtast skólunum til kennslu, en allir geta notið þess að skoða líkanið og lesa á skilti sem sett verða við það. Skilti með helstu upplýsingum verða við hverja reikistjörnu auk Ceres og Plútó.  Hér að neðan eru krækjur á frekari upplýsingar en koma fram á skiltunum. Einng verður rafræn útgáfa bæklings um stíginn sett hér að neðan þegar hann verður tilbúinn.

Málþing um loftslagsbreytingar – upptökur af fyrirlestrum

Þann 3. júní síðastliðinn var haldið málþing í Nýheimum á Hornafirði um loftslagsbreytingar og aðgerðir heima fyrir.  Var það haldið á vegum Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Landverndar, Evrópustofu og Alþjóðamálastofnunar HÍ.

Málþingið var vel sótt og fyrirlestrarnir áhugaverðir.

Flestir fyrirlestrana voru teknir upp og viljum við benda áhugasömum á að hægt er að nálgast þá á veraldarvefnum. Athugið þó að hljóðið er ekki gott.

Hér eru slóðir á hvern og einn fyrirlesara:

Ásgerður Kristín Gylfadóttir, bæjarstjóri Hornafjarðar setti málþingið

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, fundarstjóri

Wendel Trio, framkvæmdarstjóri Climate Action Network Europe, flutti erindið; The global climate crisis in a local context

Hrönn Egilsdóttir, doktorsnemi við HÍ flutti erindið; Súrnun sjávar. Hverjar gætu afleiðingar verið fyrir Ísland?

Guðmundur H. Gunnarsson, framleiðslustjóri Skinney-Þinganess hf. flutti erindið; Sjávarútvegsfyrirtæki á tímum loftlagsbreytinga

Snævarr Guðmundsson, landfræðingur Náttúrustofu Suðausturlands flutti erindið; Viðbrögð jökla við hlýnandi loftslagi

Guðmundur Ögmundsson, þjóðgarðsvörður Vatnajökulsþjóðgarði flutti erindið; Jöklaþjóðgarður á tímum loftslagsbreytinga (ekki náðist að taka allt erindið upp)

Vegna tækniörðugleika náðist ekki að taka upp erindi Eyjólfs Guðmundssonar skólameistara Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu um mælingar FAS nemenda á Heinabergsjökli og erindi Rannveigar Magnúsdóttur verkefnastjóra hjá Landvernd um samstarfsverkefni Landverndar og Sveitarfélagsins Hornafjarðar um loftslagsmál.

Hér má sjá dagskrá málþingsins í heild.