Stjörnustöð – heimsóknir á opið hús – póstlisti

Miðvikudaginn 19. febrúar 2014 hélt Náttúrustofa Suðausturlands „opið hús“ í nýju stjörnustöðinni sem sett var upp nærri Fjárhúsavík nú í vetur. Þar gafst bæjarbúum tækifæri til þess að skoða aðstöðuna og sjálft húsið sem er mikil völundarsmíð, með snúanlegu og opnanlegu þaki. Ekki var hægt að skoða stjörnur þetta kvöld því himinn var þungskýjaður. Gestir sem litu við nutu þess í stað leiðsagnar um bygginguna, markmið hennar auk annars spjalls og fengu með heitt kakó og piparkökur. Á staðnum var einnig listi sem fólk gat skráð á nafn, netfang og símanúmer. Ætlunin er að  þegar viðrar til stjörnuskoðunar á næstu vikum verði tilkynning send til þeirra og þeim boðið að kíkja.  Þeir sem ekki sáu sér fært að kíkja við síðastliðinn miðvikudag en vilja vera á slíkum póstlista geta sent póst á starfsmenn Náttúrustofu á info@nattsa.is, eða fyllt út í fyrirspurnar formið sem er neðst á heimasíðunni.
Umfjöllun erlendis
Það er víðar en á Höfn sem stjörnustöðin hefur fengið athygli.  Í  ástralska dagblaðinu Maitland Mercury, sem er gefið út í Maitland í Hunter – dal, Nýju South Wales birtist dálkagrein um stöðina skömmu fyrir áramót. Hér má sjá umfjöllunina:
Dagblaðið heldur úti blaðadálki um vísindi í víðum skilningi. Dálkahöfundurinn Col Maybury hefur nokkrum sinnum ritað um Ísland.
Frétt sem birtist í erlendu tímariti
Snævarr Guðmundsson og Kristín Hermannsdóttir framan við stjörnuathugunarstöð í Fjárhúsavík á Höfn

Opið hús í stjörnustöð

Byggður hefur verið stjörnuathugunarturn nærri Fjárhúsavík (leiðin út á Ægisíðu) og settur upp stjörnusjónauki. Hann á að nota til ljósmælinga en einnig í stjörnuskoðun. Áhugasömum er boðið í heimsókn til að skoða aðstöðuna miðvikudaginn 19. febrúar á milli kl 18:00 og 20:00 (þó enn sé óvisst hvort himinn verði stjörnubjartur). Einnig er stefnt á að mynda pósthóp og geta þeir sem vilja skráð sig þar. Þessir aðilar fá síðan tölvupóst frá Náttúrustofu þegar boðið verður til stjörnuskoðunar, vonandi við fyrsta tækifæri. Einnig geta áhugasamir sent póst í gegnum „fyrirspurn“  neðst á heimasíðu Náttúrustofu Suðausturlands til að komast í pósthópinn.

Kort sem sýnir staðsetningu stjörnustöðvarinnar

Kort sem sýnir staðsetningu stjörnustöðvarinnar

 

Snævarr Guðmundsson tók myndina

Veðrið á Höfn í nýliðnum janúar

Nýliðin janúar var óvenju hlýr og úrkomusamur.  Sökum þess hafa ræktuð tún í Hornafirði grænkað líkt og komið sé vor, ólíkt fréttum af kalskemmdum víða annars staðar á landinu. Sú spurning vaknar hvort hita- og úrkomumet voru slegin í janúarmánuði 2014 á Höfn?

Veðurathuganir hafa verið gerðar á Höfn frá 2007, en áður voru mælingar gerðar þar á árunum 1965-´85. Veðurskeytastöðin er í dag staðsett við Höfðaveg og eru veðurathugunarmenn Herdís Tryggvadóttir og Stephen Róbert Johnson . Í janúar 2014 mældu þau 369,7 mm af úrkomu, sem er mesta úrkoma sem mæld hefur verið á Höfn. Í samanburði mældust þar árið 2013 einungis 207,6 mm.  

Ef skoðaðar eru úrkomumælingar í janúar á Höfn, Hjarðarnesi (1985-1992) og Akurnesi (1992-2006) undanfarna áratugi sést að aðeins einu sinni hefur mælst meiri úrkoma á þessum þremur stöðvum, það var í Akurnesi árið 2002 þegar það komu 379,8 mm í úrkomumælinn. Því miður er engin mæling til fyrir Höfn frá 2002.

Þegar skoðaðir eru þeir janúarmánuðir þar sem mánaðarúrkoma hefur verið meiri en 200 mm á þessum þremur athugunarstöðvum má sjá að nýliðinn janúar er í öðru sæti hvað varðar úrkomumet, en í 11 sæti er janúar 2013.

Tafla sem sýnir 12 úrkomumestu janúarmánuði á Höfn, í Akurnesi og Hjarðarnesi. Nýliðinn janúar er í öðru sæti, en vinninginn hefur Akurnes árið 2002. Sé einungis horft á Höfn þá er nýliðinn janúarmánuður úrkomumetsmánuður.

solarhringsurkoma-jan-2014

Mynd sem sýnir sólarhringsúrkomu á Höfn í janúar 2013 og 2014. Árið 2013 voru tveir þurrir sólarhringar á Höfn í janúar en í heild mældist 207,6 mm úrkoma þann mánuð, mest 25 mm frá kl. 09 þann 1. janúar til kl. 09 þann 2. janúar. Árið 2014 voru þurrir sólarhringar fimm í janúar en úrkoman í heild mældist 369,7 mm. Úrkomumesta sólarhringinn, frá kl. 09 þann 15. janúar til kl. 09 þann 16. janúar, mældist 40,2 mm úrkoma.

Úrkoma-jan-2014

Línurit sem sýnir uppsafnaða úrkomu á Höfn í janúar 2014, heildarmagnið var 369,7 mm. Á sama tíma mældust einungis 64,2 mm í Reykjavík.

Meðalhitinn á Höfn í janúar var 4,1 stig og hefur meðalhiti aldrei orðið svo hár á Höfn – en mælingar þar hafa ekki verið samfelldar. Þetta er samt trúlega hlýjasti janúar í Hornafirði frá 1947 að telja.  Á Hvalnesi fór hiti lægst niður í +0,1 stig. Þar fraus því aldrei í janúar 2014, hvorki nótt né dag. Hvort þetta segir eitthvað um hvernig sumarið eða næstu mánuðir verða, skal ósagt látið.