Myndun jökulrennunnar undir Breiðamerkurjökli

2013-1: MYNDUN JÖKULRENNUNNAR UNDIR BREIÐAMERKURJÖKLI

Hvenær og hvernig myndaðist jökulrennan sem Breiðamerkurjökull hvílir í? Er myndun hennar lokið? Jökulsárlón tók að myndast um 1930 við hop Breiðamerkurjökuls en íssjármælingar á síðasta áratug 20. aldar leiddu í ljós 300 m djúpa og 25 km langa rennu sem nær langleiðina upp í Esjufjöll. Botn Breiðamerkurjökuls hvílir í þessari rennu og við áframhaldandi hop jökulsins mun Jökulsárlón stækka . Tvær hugmyndir eru um myndun rennunnar; a) jökullinn hafi rofið hana á litlu ísöld þegar hann skreið fram eða b) rennan myndaðist að mestu eftir að hlýna tók í lok 19. aldar og leysingarvatn tók að grafa hana út. Unnt er að skera úr um hvor tilgátan stenst með úrvinnslu á mæligögnum um yfirborðshæð Breiðamerkurjökuls, frá fyrsta áratug 20. aldar og samanburði við seinni tíma mælingar. Að þessu verkefni vinna: Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur, Helgi Björnsson jöklafræðingur, Náttúrustofa Suðausturlands og Jöklahópur Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Aldursgreining gróðurleifa

2013-2: ALDURSGREINING GRÓÐURLEIFA VIÐ BREIÐAMERKURJÖKUL

Sumarið 2012 fannst setlag með gróðurleifum í jökulaur framan við Breiðamerkurjökul. Setlagaopnan er kominn undan jökli fyrir nokkrum árum og er óhögguð, það er hún situr á sínum upprunalega myndunarstað. Jökullinn skreið yfir þetta svæði fyrir árið 1700 en ofanáliggjandi jökulaur varði setlagið fyrir hnjaski. Í setlaginu fundust rótarbútar og aðrar lífrænar leifar sem gera kleift að aldursgreina myndunartíma setsins. Gróðurleifar og jarðvegshnausar hafa áður borist undan jöklum en sjaldnast fundist á myndunarstað. Þessi einstaki fundur gefur því tækifæri til þess að rannsaka enn frekar og fá skýrari mynd af gróðurfarssögu og loftslagi á Breiðamerkursandi löngu fyrir Litlu ísöld. Það er mikilvægt innlegg í sögu umhverfisbreytinga á Breiðamerkursandi og Vatnajökulsþjóðsgarðs. Að þessu verkefni vinna: Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur, Helgi Björnsson jöklafræðingur, Náttúrustofa Suðausturlands og Jöklahópur Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands

Stjörnuverið á Höfn

Á degi íslenskrar náttúru  16.september bauð Náttúrustofa Suðausturlands upp á stjörnuskoðun í stjörnuveri sem komið var fyrir á bókasafninu í Nýheimum. Stjörnuver er sýndarheimur þar sem áhorfendur sitja eða liggja inni í kúlulaga hvelfingu og sérstakt sýningartæki varpar mynd af stjörnuhimninum á veggi hennar.

Tvær sýningar voru síðdegis á náttúrudeginum fyrir almenning og mættu samtals tæplega 40 manns á þær. Fyrr sama dag og daginn eftir bauð Grunnskóli Hornafjarðar nemendum sínum upp á 14 sýningar og komu þá tæplega 300 nemendur auk kennara í tjaldið. Á miðvikudagsmorgun komu svo um 30 krakkar á leikskólanum Lönguhólum á sýningu sem var sniðin að þeirra aldri.

stjornuverid

 

Stjörnuverið uppblásið á bókasafninu – tilbúið til sýningar.

stornuverid2

Nemendur úr Grunnskóla Hornafjarðar á leið inn í stjörnuverið.

Stjornuverid3

Nokkrir kakkar og starfsmenn á Lönguhólum bíða spennt eftir að þeirra sýning hefjist.

 

Dagur íslenskrar náttúru

Í tilefni af degi íslenskrar náttúru býður Náttúrustofa Suðausturlands, sem nýlega tók til starfa, til stjörnuskoðunar í stjörnuverinu. Stjörnuver er sýndarheimur þar sem áhorfendur sitja eða liggja inni í kúlulaga hvelfingu og sérstakt sýningartæki varpar mynd af stjörnuhimninum á veggi hennar.

Tvær sýningar verða í boði: kl. 16 og kl. 17 þann 16. september í Nýheimum.

Áhugasamir geta sótt miða í bókasafnið samdægurs, en einungis komast 25 manns á hverja sýningu.

Sjá nánar á www.hornafjordur.is  og http://natturumyndir.com/

Allar upplýsingar um ýmsa viðburði um allt land á degi íslenskrar náttúru má sjá á sérstökum vef Umhverfisráðuneytisins http://www.umhverfisraduneyti.is/dagur-islenskrar-natturu-2013/

Minnt er á að Grunnskóli Hornafjarðar mun bjóða öllum sínum nemendum í stjörnuverið en sýningarnar síðdegis eru hugsaðar fyrir alla.

Verið hjartanlega velkomin.

Rostungur við Jökulsárlón.

Á morgunblaðsvefnum frá 16.8.2013 er frétt um rostung við Jökulsárlón. MBL

Hann sást fyrst að morgni 16.ágúst og dvaldi á sandinum neðan við brúna yfir Jökulsá þann dag og fram á nótt. Morguninn eftir var hann á bak og burt.

Á vef Selaseturs Íslands á Hvammstanga er hægt að lesa sér til um rostunga.  Þeir eru mjög sjaldgæfir við Ísland, en síðast sást rostungur á Reyðarfirði um miðjan júlí.

Samkvæmt samanburði á þessum tveimur rostungum sést að þar er líklega um sama einstaklinginn að ræða, alla vega eru tennur jafn langar og sú vinstri aðeins styttri. Þetta sést þegar bornar eru saman myndir af moggavefnum og myndir sem Kristján Svavarsson tók af Reyðarfjarðarrostungnum.  (sjá á vef Náttúrustofu Austurlands).

Á mynd sem Þórhildur Magnúsdóttir  Landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði tók fljótlega eftir hádegi má sjá að hann liggur afslappaður á sandinum og er svolítið rauðlitaður undir húðinni. Rauði liturinn stafar sennilega af því að honum hefur verið heitt og þar sem rostungar eru lítið hærðir sést blóðflæði undir húðinni vel.  Myndin sem hér birtist var tekin um kl. 16:30 af Sibylle von Löwis.