Málþing um loftslagsbreytingar – upptökur af fyrirlestrum

Þann 3. júní síðastliðinn var haldið málþing í Nýheimum á Hornafirði um loftslagsbreytingar og aðgerðir heima fyrir.  Var það haldið á vegum Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Landverndar, Evrópustofu og Alþjóðamálastofnunar HÍ.

Málþingið var vel sótt og fyrirlestrarnir áhugaverðir.

Flestir fyrirlestrana voru teknir upp og viljum við benda áhugasömum á að hægt er að nálgast þá á veraldarvefnum. Athugið þó að hljóðið er ekki gott.

Hér eru slóðir á hvern og einn fyrirlesara:

Ásgerður Kristín Gylfadóttir, bæjarstjóri Hornafjarðar setti málþingið

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, fundarstjóri

Wendel Trio, framkvæmdarstjóri Climate Action Network Europe, flutti erindið; The global climate crisis in a local context

Hrönn Egilsdóttir, doktorsnemi við HÍ flutti erindið; Súrnun sjávar. Hverjar gætu afleiðingar verið fyrir Ísland?

Guðmundur H. Gunnarsson, framleiðslustjóri Skinney-Þinganess hf. flutti erindið; Sjávarútvegsfyrirtæki á tímum loftlagsbreytinga

Snævarr Guðmundsson, landfræðingur Náttúrustofu Suðausturlands flutti erindið; Viðbrögð jökla við hlýnandi loftslagi

Guðmundur Ögmundsson, þjóðgarðsvörður Vatnajökulsþjóðgarði flutti erindið; Jöklaþjóðgarður á tímum loftslagsbreytinga (ekki náðist að taka allt erindið upp)

Vegna tækniörðugleika náðist ekki að taka upp erindi Eyjólfs Guðmundssonar skólameistara Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu um mælingar FAS nemenda á Heinabergsjökli og erindi Rannveigar Magnúsdóttur verkefnastjóra hjá Landvernd um samstarfsverkefni Landverndar og Sveitarfélagsins Hornafjarðar um loftslagsmál.

Hér má sjá dagskrá málþingsins í heild.

Snævarr Guðmundsson tók myndina

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands 2013

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands er komin á netið. Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Fyrirlestur og umræður um hreindýr

nattsa.is_SG_008

Náttúrustofa Suðausturlands og Náttúrustofa Austurlands standa fyrir fyrirlestri um hreindýrastofninn og stöðu hans á Suðausturlandi.  Fyrirlesturinn heldur Skarphéðinn G. Þórisson sérfræðingur á Náttúrustofu Austurlands og verður hann haldinn í Nýheimum sunnudaginn 18.mai kl. 20:00.  Allir sem áhuga hafa á þessum málefnum eru hvattir til að koma.

Klettafrú við Breiðamerkurjökul

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands

Stjórn Náttúrustofu Suðausturlands ses. hefur ákveðið að halda ársfund stofunnar fimmtudaginn 10. apríl n.k. kl. 18:00.
Fundurinn er í haldinn í Nýheimum, Litlubrú 2, Hornafirði.

Dagskrá:
1.      Formaður setur fundinn
2.      Kosning fundarstjóra og fundarritara
3.      Skýrsla stjórnar
4.      Afgreiðsla reikninga
5.      Rekstrar- og starfsáætlun / skýrsla forstöðumanns
6.      Önnur mál


Á fundinum verður boðið uppá kaffi, te og konfekt.

Vinsamlega tilkynnið þátttöku til forstöðumanns á netfangið kristin@nattsa.is.

Stjörnuskoðun í kvöld – aflýst vegna skýja

Fyrirhugaðri stjörnuskoðun á vegum Náttúrustofu Suðasturlands, sem fara átti fram frá nýbyggðri stjörnuathugunarstöð í kvöld 1.april kl. 20:30-22:00, er aflýst vegna skýja.   Þetta er viðburður í tengslum við Leyndardóma Suðurlands og verður reynt á ný á fimmtudaginn 3.april. Áhugasamir geta fylgst með hér á vefnum eða á facebook síðu Náttúrustofu Suðausturlands.

Hlaup í Gígjukvísl

Hlaup í Gígjukvísl

Starfsmaður Jöklahóps Jarðvísindastofnunar varð þess sunnudaginn 23.mars 2014 að vatn var farið að leita úr Grímsvötnum og jökulhlaup væri að hefjast eða hafið. Taldi hann m.a. að íshellan gæti hafa sigið um 5-10 m í kjölfar þess að Grímsvötn væru að tæmast.

Þriðjudaginn 25.mars síðastliðinn (2014) fór starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands að Gígjukvísl á Skeiðarársandi til þess að kanna grunsemdir um rennslisvöxt vegna jökulhlaupsins. Talsvert vatn var í ánni við brúna yfir Gígjukvísl. Voru tekin sýni úr ánni til frekari staðfestingar á hlaupvatni.

Talið er að hlaupið verði svipað að magni og í nóvember 2012, nálægt 0,2 km3 og hámarksrennsli um 1000 rúmm/sek. Reiknað er með að það réni nærri helgi. Sjá nánar upplýsingar á Vatnafar á síðu Veðurstofu Íslands:

Stjörnustöð – heimsóknir á opið hús – póstlisti

Miðvikudaginn 19. febrúar 2014 hélt Náttúrustofa Suðausturlands “opið hús” í nýju stjörnustöðinni sem sett var upp nærri Fjárhúsavík nú í vetur. Þar gafst bæjarbúum tækifæri til þess að skoða aðstöðuna og sjálft húsið sem er mikil völundarsmíð, með snúanlegu og opnanlegu þaki. Ekki var hægt að skoða stjörnur þetta kvöld því himinn var þungskýjaður. Gestir sem litu við nutu þess í stað leiðsagnar um bygginguna, markmið hennar auk annars spjalls og fengu með heitt kakó og piparkökur. Á staðnum var einnig listi sem fólk gat skráð á nafn, netfang og símanúmer. Ætlunin er að  þegar viðrar til stjörnuskoðunar á næstu vikum verði tilkynning send til þeirra og þeim boðið að kíkja.  Þeir sem ekki sáu sér fært að kíkja við síðastliðinn miðvikudag en vilja vera á slíkum póstlista geta sent póst á starfsmenn Náttúrustofu á info@nattsa.is, eða fyllt út í fyrirspurnar formið sem er neðst á heimasíðunni.
Umfjöllun erlendis
Það er víðar en á Höfn sem stjörnustöðin hefur fengið athygli.  Í  ástralska dagblaðinu Maitland Mercury, sem er gefið út í Maitland í Hunter – dal, Nýju South Wales birtist dálkagrein um stöðina skömmu fyrir áramót. Hér má sjá umfjöllunina:
Dagblaðið heldur úti blaðadálki um vísindi í víðum skilningi. Dálkahöfundurinn Col Maybury hefur nokkrum sinnum ritað um Ísland.
Frétt sem birtist í erlendu tímariti
Snævarr Guðmundsson og Kristín Hermannsdóttir framan við stjörnuathugunarstöð í Fjárhúsavík á Höfn

Opið hús í stjörnustöð

Byggður hefur verið stjörnuathugunarturn nærri Fjárhúsavík (leiðin út á Ægisíðu) og settur upp stjörnusjónauki. Hann á að nota til ljósmælinga en einnig í stjörnuskoðun. Áhugasömum er boðið í heimsókn til að skoða aðstöðuna miðvikudaginn 19. febrúar á milli kl 18:00 og 20:00 (þó enn sé óvisst hvort himinn verði stjörnubjartur). Einnig er stefnt á að mynda pósthóp og geta þeir sem vilja skráð sig þar. Þessir aðilar fá síðan tölvupóst frá Náttúrustofu þegar boðið verður til stjörnuskoðunar, vonandi við fyrsta tækifæri. Einnig geta áhugasamir sent póst í gegnum „fyrirspurn“  neðst á heimasíðu Náttúrustofu Suðausturlands til að komast í pósthópinn.

Kort sem sýnir staðsetningu stjörnustöðvarinnar

Kort sem sýnir staðsetningu stjörnustöðvarinnar

 

Snævarr Guðmundsson tók myndina

Veðrið á Höfn í nýliðnum janúar

Nýliðin janúar var óvenju hlýr og úrkomusamur.  Sökum þess hafa ræktuð tún í Hornafirði grænkað líkt og komið sé vor, ólíkt fréttum af kalskemmdum víða annars staðar á landinu. Sú spurning vaknar hvort hita- og úrkomumet voru slegin í janúarmánuði 2014 á Höfn?

Veðurathuganir hafa verið gerðar á Höfn frá 2007, en áður voru mælingar gerðar þar á árunum 1965-´85. Veðurskeytastöðin er í dag staðsett við Höfðaveg og eru veðurathugunarmenn Herdís Tryggvadóttir og Stephen Róbert Johnson . Í janúar 2014 mældu þau 369,7 mm af úrkomu, sem er mesta úrkoma sem mæld hefur verið á Höfn. Í samanburði mældust þar árið 2013 einungis 207,6 mm.  

Ef skoðaðar eru úrkomumælingar í janúar á Höfn, Hjarðarnesi (1985-1992) og Akurnesi (1992-2006) undanfarna áratugi sést að aðeins einu sinni hefur mælst meiri úrkoma á þessum þremur stöðvum, það var í Akurnesi árið 2002 þegar það komu 379,8 mm í úrkomumælinn. Því miður er engin mæling til fyrir Höfn frá 2002.

Þegar skoðaðir eru þeir janúarmánuðir þar sem mánaðarúrkoma hefur verið meiri en 200 mm á þessum þremur athugunarstöðvum má sjá að nýliðinn janúar er í öðru sæti hvað varðar úrkomumet, en í 11 sæti er janúar 2013.

Tafla sem sýnir 12 úrkomumestu janúarmánuði á Höfn, í Akurnesi og Hjarðarnesi. Nýliðinn janúar er í öðru sæti, en vinninginn hefur Akurnes árið 2002. Sé einungis horft á Höfn þá er nýliðinn janúarmánuður úrkomumetsmánuður.

solarhringsurkoma-jan-2014

Mynd sem sýnir sólarhringsúrkomu á Höfn í janúar 2013 og 2014. Árið 2013 voru tveir þurrir sólarhringar á Höfn í janúar en í heild mældist 207,6 mm úrkoma þann mánuð, mest 25 mm frá kl. 09 þann 1. janúar til kl. 09 þann 2. janúar. Árið 2014 voru þurrir sólarhringar fimm í janúar en úrkoman í heild mældist 369,7 mm. Úrkomumesta sólarhringinn, frá kl. 09 þann 15. janúar til kl. 09 þann 16. janúar, mældist 40,2 mm úrkoma.

Úrkoma-jan-2014

Línurit sem sýnir uppsafnaða úrkomu á Höfn í janúar 2014, heildarmagnið var 369,7 mm. Á sama tíma mældust einungis 64,2 mm í Reykjavík.

Meðalhitinn á Höfn í janúar var 4,1 stig og hefur meðalhiti aldrei orðið svo hár á Höfn – en mælingar þar hafa ekki verið samfelldar. Þetta er samt trúlega hlýjasti janúar í Hornafirði frá 1947 að telja.  Á Hvalnesi fór hiti lægst niður í +0,1 stig. Þar fraus því aldrei í janúar 2014, hvorki nótt né dag. Hvort þetta segir eitthvað um hvernig sumarið eða næstu mánuðir verða, skal ósagt látið.

 

Jólakveðja Náttúrustofu Suðausturlands

jol-2013

Snævarr Guðmundsson tók myndina

 

Náttúrustofa Suðausturlands sendir öllum vinum og velunnurum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár