Merkúríus fyrir sól 9. maí 2016

Þann 9. maí næstkomandi mun heldur óalgengur atburður eiga sig stað, þegar reikistjarnan Merkúríus, gengur fyrir sól séð frá jörðu. Slíkur atburður er nefndur þverganga. Samkvæmt almanaki Háskóla Íslands gerðist slíkt fjórtán sinnum á síðustu öld og svo mun einnig verða á 21. öldinni.

Vegna þess hve Merkúríus er lítill í samanburði við sólina er þó ekki auðvelt að greina hana. Sjónauka þarf til en einnig er sólin svo björt að afar hættulegt er að horfa í hana. Sérstakar ljóssíur þarf til þess og sem hleypa einungis broti af sólarljósinu í gegnum sig. Engum er ráðlagt að skoða þetta nema með slíkum búnaði.

Náttúrustofa Suðausturlands ætlar að bjóða áhugasömum að kíkja í gegnum sjónauka með þar til gerðri ljóssíu, ef veður leyfir og sólin verður sjáanleg. Þvergangan hefst um kl 11:13 og lýkur 18:41. Á milli er hægt að sjá Merkúríus bera fyrir sólskífuna en stærð hans er einungis á við sólbletti sem stundum má sjá í yfirborði sólar.

Ef viðrar verður hægt að heimsækja okkur í Nýheima á milli 11:30-12:00, 14:00-14:30 og 16:00-16:30.

20160128_081724

Sjónauki Náttúrustofunnar.

Ætluð þverganga Merkúríusar, 9. maí 2016.

Ætluð þverganga Merkúríusar, 9. maí 2016. Mynd fengin á Wikipedia.

 

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands 2016

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands ses. verður haldinn fimmtudaginn 28. apríl 2016  kl. 15 í Nýheimum á Höfn í Hornafirði.

Á undan venjubundnum fundarstörfum verða haldin tvö erindi á vegum Náttúrustofu Suðausturlands.

  • Áningarstaðir og örugg vegútskot á Suðausturlandi: Snævarr Guðmundsson
  • Grunnrannsóknir á lífríki Míganda í Skarðsfirði: Herdís Ólína Hjörvarsdóttir

Kaffi á könnunni og allir velkomnir

Stjórnin

logo-mjög-litid-i-lit

Áningarstaðir og örugg vegútskot á Suðausturlandi með áherslu á náttúrufar og myndrænt svipmót.

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um áningarstaði og örugg vegútskot á Suðausturlandi með áherslu á náttúrufar og myndrænt svipmót. Verkefnið var styrkt af Vegagerðinni, en samstarfsaðilar voru verkfræðistofan Mannvit, lögreglan á Hornafirði, Vatnajökulsþjóðgarður, Háskólasetrið á Hornafirði og Einar Björn Einarsson.

Vegagerðin hefur um árabil útbúið áningarstaði við hringveginn sem eru ætlaðir vegfarendum til hvíldar, vegupplýsinga og fræðslu. Þeim er oft valin staðsetning þar sem útsýni, umhverfi eða menning teljast athyglisverð. Ástæða er þó til að fjölga áningarstöðum, því ferðamenn stöðva gjarnan bíla á vegi eða vegöxl til þess að taka myndir eða njóta umhverfisins. Með fjölgun vegútskota á vel völdum stöðum má reyna að draga úr hættu sem skapast vegna hátternisins. Á Suðausturlandi liggur ein fegursta vegleið á Íslandi vegna fjölbreytileika lands og stórbrotins útsýnis til fjalla og jökla. Með áherslutengdum áningarstöðum getur þessi hluti hringvegarins tekið að sér hlutverk útsýnis- eða ferðamannavegar án þess að koma niður á umferðaröryggi eða kosta þurfi miklum fjármunum til. Þar vinni saman akstursöryggi á hringveginum en jafnframt að auka við ánægju ferðalanga af vegleiðinni sjálfri.  Niðurstöðurnar úr verkefninu  eru ábendingar á tíu áhugaverða áningarstaði við hringveginn á Suðausturlandi. Jafnframt er sú hugmynd reifuð og útskýrð að gera þennan vegkafla að ferðamannavegi að erlendri fyrirmynd, með því að þematengja alla áningarstaði á honum. Áherslurnar skyldu taka mið af því sem höfðar til ferðamanna, t. d. áhugavert myndefni við hringveginn, athyglisverðar jarðmenjar, lífríki og menning.

 

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

Athygli vakin á stjörnumælingunum frá Hornafirði

Vefsíða Almanaks Háskóla Íslands vakti nýlega athygli á stjörnuathugunum sem nú er sinnt frá Hornafirði. Í almanakinu, hefur verið birt tímatafla fyrir myrkva stjörnunnar Algol, í stjörnumerkinu Perseusi, fyrir hvert ár. Algol-myrkvar eru sjáanlegir með berum augum. Nýverið var myrkvi stjörnunnar tímasettur frá Hornafirði og munu myrkvar fyrir árið 2017, sem verða skráðir í almanakið verða miðaðir við hann. Á almanaksvefnum er grein um Algol (sjá  hér) og greinargerð um þann myrkva (hér), sem einnig er aðgengileg frá megingreininni.

Á svipuðum tíma birtust einnig fréttir um aðrar stjörnuathuganir sem hafa verið gerðar í Hornafirði, t. d. hreyfingu nálægrar fastastjörnu (hér) og fyrstu mælingar  á fjarreikistjörnum sem hafa verið gerðar frá Íslandi (hér).

Kort af stjörnumerkinu Perseusi og hvar stjörnuna Algol er að finna.

Kort af stjörnumerkinu Perseusi og hvar stjörnuna Algol er að finna.

Snæfell sést frá Lóni

Fyrir nokkru síðan var okkur á Náttúrustofu Suðausturlands bent á að það væri hægt að sjá Snæfell (1833 m) á Fljótdalshéraði, frá Suðausturlandi, á afmörkuðum kafla við hringveginn í Lóni. Þetta var ótrúlegt að heyra því landið austan við Vatnajökul er svo hálent og tindótt að við fyrstu umhugsun teldi maður það ósennilegt. Var undirritaður frekar vantrúaður á að svo væri. Í hvert sinn sem leiðin lá um Lón á heiðríkjudögum var skimast um eftir tindinum en jafnvel það nægði ekki þess að sannfærast um hvort það væri efsti hluti Snæfells sem sæist í raun og veru en ekki einhver annar tindur.

Náttúrustofunni barst síðan óvænt en velþegin hjálp til að skera úr um þetta. Einar Björn Einarsson á öflugan dróna með innbyggðri myndavél. Honum þótti sjálfsagt að bregðast við bón okkar um að kanna þetta til hlýtar. Heiðríkjudaginn 17. mars 2016 fórum við austur fyrir Laxá í Lóni, ekki langt frá veginum sem liggur inn í Lónsöræfi. Þar sendi Einar drónann upp í um 500 m hæð y.s. og beindi myndavélinni í átt að Snæfelli. Viti menn, þar fékkst ótvírætt úr því skorið, Snæfell sést svo sannarlega frá hringveginum í Lóni. Fjarlægðin á milli Snæfells og Lóns, þaðan sem tindurinn sést, er 54 km í sjónlínu. Hér er skemmtilegt myndband sem sýnir flugið: Snæfell séð frá Lóni.

Útsýni til Lónsöræfa og Snæfells, í um 54 km fjarlægð, úr 500 m hæð yfir Lóni á Suðausturlandi. Mynd Einar Björn Einarsson, 17. mars 2016.

Útsýni til Lónsöræfa og Snæfells, í um 54 km fjarlægð, úr 500 m hæð yfir Lóni á Suðausturlandi. Mynd Einar Björn Einarsson, 17. mars 2016.

3. bekkur í tungl- og stjörnuskoðun

Fimmtudagsmorguninn 28. janúar komu vaskir krakkar úr 3. bekk Grunnskóla Hornafjarðar í heimsókn til Náttúrustofu Suðausturlands í Nýheimum. Þau komu ásamt kennara sínum, en nokkrir foreldrar og aðrir aðstandendur slógust einnig í hópinn. Tilefnið var að skoða tunglið, Júpíter og tungl hans sem kallast Galílei-tunglin og heita Jó, Evrópa, Kallistó og Ganymedes. Fór þessi skoðun fram vestan við Nýheima – úti við Náttúrustíginn og voru notaðir tveir stórir stjörnusjónaukar, en einnig var horft til himins með handsjónaukum og berum augum. Við stíginn er unnið að því koma fyrir steinum víðs vegar úr sveitarfélaginu til fræðslu og afþreyingar og einhverjir klifruðu upp á þá. Var ekki annað að sjá og heyra en að heimsóknin hefði heppnast vel, þrátt fyrir nokkrar kaldar tær.

 

20160128_081854 20160128_081724 20160128_081711

 

 

 

 

20160128_082730 (2) 20160128_083407 (2)galileotunglin

Vetrarmánuðirnir eru tími íshellaskoðunar 2016

Starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands renndu á dögunum út á Breiðamerkursand í vísindalegum erindagjörðum en gafst engu að síður tími til að skoða íshelli í Breiðamerkurjökli sem gjarnan er auðkenndur sem “Kristalshellirinn” af leiðsögumönnum á svæðinu. Það er skemmtileg upplifun að komast í hellinn sem þennan dag skartaði dulúðlegum bláma og sérkennilegum holum eða “vösum” í ísinn. Íshellar í Breiðamerkurjökli hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn en þangað sækja þeir flestir undir traustri leiðsögn. Myndirnar  eru teknar í íshellinum og á ströndinni við Jökulsárlón.

SG_20160120_

Kristín Hermannsdóttir í þrengsta hluta hellisins. SG, 20 janúar 2016.

SG_20160120__01

Innsti hluti íshellisins. Ljósm. SG, 20 janúar 2016.

20160112_132415

Óskar Arason ásamt ferðahópi í hellinum. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir, 20. janúar 2016.

20160112_132252

Ferðamenn í íshellinum. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir, 20. janúar 2016.

SG_20160120__04

Jakadreif í fjörunni við Jökulsárlón. SG, 20 janúar 2016.

SG_20160120__03

Strönduðu ísjakarnir taka oft á sig ótrúleg form, ísskúlptur af náttúrunnar hendi . SG, 20 janúar 2016.

 

 

Sjónvarpsútsending frá Breiðamerkurjökli 2016

Þann 6. janúar 2016 sýndi bandaríska sjónvarpsstöðin ABC innslag í þættinum “Good Morning America” í beinni útsendingu frá Breiðamerkurjökli. Amerískur fréttamaður, Amy Robach, ræddi loftslagsbreytingar og bráðnun jökla sem er sterkur vitnisburður þeirra. Þetta var gert sem framhald umfjöllunar af loftslagsráðstefnunni í París.

Útsendingin fór fram á austanverðum Breiðamerkurjökli, inn í svonefndri Þröng við Fellsfjall. Töluvert var gert úr svokölluðum svelgjum, sem eru lóðréttir hringlaga vatnsfarvegir sem myndast í leysingjasvæðum jökla, og hvaða vísindalega þýðingu þeir hafa fyrir jöklarannsóknir. Ísklifrarar sigu niður í opinn 30 m djúpan jökulsvelg, sem er í jöklinum nærri mynni Fremri-Veðurárdals, og klifruðu upp úr honum. Á meðan var drónum flogið fram og aftur og frá þeim fengust stórkostleg myndskeið af jöklinum.

Amy ræddi m. a. við jöklafræðinginn Daniel J. Morgan um jökla, hnattræna hlýnun almennt og síðan Breiðamerkurjökul, kuðunga sem hafa fundist innan marka Jökulsárlóns og ýmislegt fleira. Það kom auðvitað ekki fram í umfjölluninni að Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands sá um að safna efni og upplýsingum um Breiðamerkurjökul og leggja fram tillögur að efnistökum í þessum viðburði, sem mörg hver voru notuð.

Fjöldi starfsmanna kom að útsendingunni. Sjónvarpsstöðin var með 12 manna flokk sem vann að útsendingunni, auk þeirra voru nokkrir íslenskir klifrarar, leiðsögumenn og stjórnendur sem komu við sögu. Hægt er að lesa umfjöllun um þennan viðburð hér:

Good Morning America náði einstökum myndum á Breiðamerkurjökli

Magnaðar myndir frá Breiðamerkurjökli

Lærði að bera fram „Breiðamerkurjökull“

Myndirnar sem hér birtast tók Snævarr (SG) á Breiðamerkurjökli þegar á útsendingunni stóð.

SG_201601061_

Vettvangssvæði á jöklinum í Þröng. Eins og sést á spegluninni var jökullinn harður og glerháll. Ófær ef fólk er ekki á ísbroddum. Ljósm. SG, 6. janúar 2016.

SG_20160106__021

Dan J. Morgan og drónar sem voru notaðir til þess að mynda í útsendingunni. Ljósm. SG, 6. janúar 2016.

SG_20160106__04

Ísklifrarar undirbúa sig að síga ofan í svelginn. Hann var um 25-30 m djúpur 10-15 m í þvermál. Sjá má dróna á flugi hægra meginn við svelginn. Ljósm. SG, 6. janúar 2016.

SG_20160106__01

Drónar koma inn til lendingar. Þrír komu að stjórnun drónanna, tveir stýrðu flygildunum en sá þriðji réði hvaða myndskot voru í notkun. Ljósm. SG, 6. janúar 2016.

Uppskerutap vegna ágangs gæsa í ræktarlönd í Austur-Skaftafellssýslu 2015

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um uppskerutap vegna ágangs gæsa í ræktarlönd 2015. Verkefnið var samstarfsverkefni Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, Búnaðarsambands Suðurlands og Landbúnaðarháskóla Íslands og styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins.

Skýrslan greinir frá verkefni sem unnið var árið 2015. Rannsókn var gerð í Austur-Skaftafellssýslu en þar var borin saman uppskera í friðuðum grasreitum við reiti sem fuglar komust að. Einnig voru skoðuð tengsl á milli fjölda fugla á ákveðnum túnum og rýrnun uppskeru. Markmiðið var að kanna áhrif gæsabeitar að vori og fram á sumar á uppskeru grass.

Niðurstöður sýna mismun á uppskeru af friðuðum reitum og viðmiðunarreitum, að meðaltali 985 kg af þurrefni á hektara. Þurrefnisuppskera var að meðaltali 33% minni þar sem fuglarnir komust um túnin. Á tilraunatúnunum töpuðust því 3,5 rúllur af þurrefnisuppskeru á hektara að meðaltali. Með kostnaðarútreikningum má sjá að mismunur í uppskeru kostaði að meðaltali 36.218 kr./ha. Einfalt fylgnipróf var framkvæmt til að sjá samhengi milli fjölda fugla og mismunar í uppskeru, en það sýndi enga fylgni. Ekki er hægt að alhæfa að talningatölurnar séu lýsandi fyrir fjöldann, en töluverðar líkur eru á að talningatölur sýni lágmarksfjölda fugla á hverjum stað.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

Uppskera úr tilraunareit 3. júlí 2015

Uppskorið úr tilraunareitum 3. júlí 2015. Kristín Hermannsdóttir, Grétar Már Þorkelsson og Jóhann Helgi Stefánsson

Uppskorið úr tilraunareit 3. júlí 2016. Jóhann Helgi Stefánsson og Grétar Már Þorkelsson.

Uppskorið úr tilraunareit 3. júlí 2016

 

 

Jólakveðja 2015

Jólakveðja frá Náttúrustofu Suðausturlands 2015

Náttúrustofa Suðausturlands sendir öllum vinum og velunnurum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár

 

_SG_20140913_01-xmas2015