Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands 2016

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands ses. verður haldinn fimmtudaginn 28. apríl 2016  kl. 15 í Nýheimum á Höfn í Hornafirði.

Á undan venjubundnum fundarstörfum verða haldin tvö erindi á vegum Náttúrustofu Suðausturlands.

  • Áningarstaðir og örugg vegútskot á Suðausturlandi: Snævarr Guðmundsson
  • Grunnrannsóknir á lífríki Míganda í Skarðsfirði: Herdís Ólína Hjörvarsdóttir

Kaffi á könnunni og allir velkomnir

Stjórnin

logo-mjög-litid-i-lit

Áningarstaðir og örugg vegútskot á Suðausturlandi með áherslu á náttúrufar og myndrænt svipmót.

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um áningarstaði og örugg vegútskot á Suðausturlandi með áherslu á náttúrufar og myndrænt svipmót. Verkefnið var styrkt af Vegagerðinni, en samstarfsaðilar voru verkfræðistofan Mannvit, lögreglan á Hornafirði, Vatnajökulsþjóðgarður, Háskólasetrið á Hornafirði og Einar Björn Einarsson.

Vegagerðin hefur um árabil útbúið áningarstaði við hringveginn sem eru ætlaðir vegfarendum til hvíldar, vegupplýsinga og fræðslu. Þeim er oft valin staðsetning þar sem útsýni, umhverfi eða menning teljast athyglisverð. Ástæða er þó til að fjölga áningarstöðum, því ferðamenn stöðva gjarnan bíla á vegi eða vegöxl til þess að taka myndir eða njóta umhverfisins. Með fjölgun vegútskota á vel völdum stöðum má reyna að draga úr hættu sem skapast vegna hátternisins. Á Suðausturlandi liggur ein fegursta vegleið á Íslandi vegna fjölbreytileika lands og stórbrotins útsýnis til fjalla og jökla. Með áherslutengdum áningarstöðum getur þessi hluti hringvegarins tekið að sér hlutverk útsýnis- eða ferðamannavegar án þess að koma niður á umferðaröryggi eða kosta þurfi miklum fjármunum til. Þar vinni saman akstursöryggi á hringveginum en jafnframt að auka við ánægju ferðalanga af vegleiðinni sjálfri.  Niðurstöðurnar úr verkefninu  eru ábendingar á tíu áhugaverða áningarstaði við hringveginn á Suðausturlandi. Jafnframt er sú hugmynd reifuð og útskýrð að gera þennan vegkafla að ferðamannavegi að erlendri fyrirmynd, með því að þematengja alla áningarstaði á honum. Áherslurnar skyldu taka mið af því sem höfðar til ferðamanna, t. d. áhugavert myndefni við hringveginn, athyglisverðar jarðmenjar, lífríki og menning.

 

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

Athygli vakin á stjörnumælingunum frá Hornafirði

Vefsíða Almanaks Háskóla Íslands vakti nýlega athygli á stjörnuathugunum sem nú er sinnt frá Hornafirði. Í almanakinu, hefur verið birt tímatafla fyrir myrkva stjörnunnar Algol, í stjörnumerkinu Perseusi, fyrir hvert ár. Algol-myrkvar eru sjáanlegir með berum augum. Nýverið var myrkvi stjörnunnar tímasettur frá Hornafirði og munu myrkvar fyrir árið 2017, sem verða skráðir í almanakið verða miðaðir við hann. Á almanaksvefnum er grein um Algol (sjá  hér) og greinargerð um þann myrkva (hér), sem einnig er aðgengileg frá megingreininni.

Á svipuðum tíma birtust einnig fréttir um aðrar stjörnuathuganir sem hafa verið gerðar í Hornafirði, t. d. hreyfingu nálægrar fastastjörnu (hér) og fyrstu mælingar  á fjarreikistjörnum sem hafa verið gerðar frá Íslandi (hér).

Kort af stjörnumerkinu Perseusi og hvar stjörnuna Algol er að finna.

Kort af stjörnumerkinu Perseusi og hvar stjörnuna Algol er að finna.