Jólakveðja Náttúrustofu Suðausturlands

jol-2013

Snævarr Guðmundsson tók myndina

 

Náttúrustofa Suðausturlands sendir öllum vinum og velunnurum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár

Myndina tók Róbert Róbertsson

Styrkir frá Vinum Vatnajökuls

Í gær tók Náttúrustofa Suðausturlands við tveimur styrkjum í verkefni sem stofan mun m.a. vinna að á nýju ári.

Annar styrkurinn er í verkefni sem kallast „Náttúrustígur“. Í lýsingu á verkefninu segir: Á göngustíg sem liggur vestanmegin við byggðina á Höfn í Hornafirði er ætlunin að koma fyrir upplýsingum um náttúruna í víðu samhengi. Frá stígnum er frábært útsýni til jökla og suðausturhluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Fyrsta skrefið er að koma fyrir líkani að sólkerfinu í réttum hlutföllum, hvað varðar stærð og fjarlægðir.  

Hin styrkurinn er í verkefni sem kallast „Aldursgreining gróðurleifa við Breiðamerkurjökul“. Í lýsingu á því verkefni segir:  Nýverið fannst gróðurlag milli setlaga í jökulaur framan við Breiðamerkurjökul. Setlagaopnan er nýlega komin undan jökli (um 2009) og situr óhögguð á upprunalegum myndunarstað. Jökullinn skreið yfir þetta svæði fyrir árið 1700 en áður lagðist  jökulaur yfir gróðurlagið og varði það fyrir hnjaski. Venjulega eyða jöklar gróðri þegar þeir ganga yfir land og afmá þar með gróðurfarssögu í jarðlögum. Því er hér um einstakan fund að ræða. Í laginu er mór, mosi, birki, víðir og fleiri jurtategundir. Þessar lífrænu leifar þarf að aldursgreina til þess að finna aldur gróðursins og skýra hvenær gróðurlendi breyttist í Breiðamerkursand við kólnandi loftslag.

Alls hlutu 22 verkefni styrki og má lesa nánar um það á vef Vina Vatnajökuls  og fréttir af styrkveitingunni á mbl.is og ruv.is

Óskar Náttúrustofa Suðausturlands öðrum styrkþegum til hamingju með sína styrki.

 

 

Jöklar hopa

 

Náttúrustofa Suðausturlands hefur tekið að sér vöktun nokkurra skriðjökla í Öræfajökli. Verkefnið er unnið í samstarfi við Jöklarannsóknafélag Íslands og jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Starfsmaður Náttúrustofu fór 20. október og mældi sporðastöðu Breiðamerkurjökuls, Kvíárjökuls, Hrútárjökuls og Fjallsjökuls. Þann 3. nóvember var gengið með GPS  tæki meðfram sporði Fláajökuls á kafla (sjá mynd).

Frá árinu 2010 hafa jöklarnir rýrnað talsvert en hop þeirra er breytilegt. Á þessu tímabili hefur Breiðamerkurjökull hopað 200 – 300 m  upp af Nýgræðukvíslum, eða um 65 – 100 m/ári. Sporður Fláajökuls, austan Jökulfells hefur hopað um 40 – 100 m frá árinu 2010. Svipað hop átti stað á Hrútárjökli. Sá hluti Kvíárjökuls sem var mældur í þetta sinn hefur ýmist stað í stað eða gengið lítillega fram (~20 m) samanborið við sporðastöðu árið 2010.

14. nóvember fóru starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands að Heinabergsjökli ásamt nemendum og kennurum í Framhaldsskólanum í Austur Skaftafellssýslu (FAS) og fylgdust með  mælingum þeirra á jöklinum. Þær eru hluti af náttúrufarsrannsóknum sem kenndar eru og FAS sinnir. Sjá athuganir þeirra á slóðinni: http://nattura.fas.is/index.php/joklamaelingar.

 

Myndina tók Kristín Hermannsdóttir

Óvissuferð

Föstudaginn 1. nóvember var haldin ráðstefna á Hótel Höfn á vegum Ríkis Vatnajökuls sem nefnd var „Tilvist og tækifæri“. Þegar ráðstefnunni lauk tók við óvissuferð sem var í samvinnu við Náttúrustofu Suðausturlands.

Ferðin hófst í Óslandi þar sem kynnt var hugmynd að sólkerfislíkani sem Náttúrustofa  Suðausturlands hyggst koma upp. Í því er gert ráð fyrir að sólin sé staðsett á hæsta punkti í Óslandi en reikistjörnurnar verða í réttum stærðar og fjarlægðarhlutföllum meðfram göngustíg sem liggur vestanmegin við Höfn, alla leið að Silfurnesgolfvelli. Frá Sólinni var gengið að Merkúríus, Venus, Jörðinni, Mars, smástirninu Ceres, Júpiter og Satúrnus en bent var á hvar Úranus og Neptúnus yrðu staðsettar. Staldrað var við hverja reikistjörnu og viðstaddir fræddir um þær. Þar sem vindurinn var hvass og kalt í veðri, voru stoppin ekki löng á hverjum stað.  Að síðustu var stoppað á Leiðarhöfða þar sem ánægjulegri en vindasamri óvissuferð lauk.

 

Myrkurgæði – greinargerð

Út er komin greinargerð hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu um myrkurgæði og tillögur um hvernig sporna megi við ljósmengun á Íslandi, bæði í þéttbýli og dreifbýli.  Starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands, Snævarr Guðmundsson vann ásamt fleirum í starfshópi að þessari greinargerð, en starfshópurinn hefur starfað síðan í mars 2012 og var Mörður Árnason formaður hans.

Í tilefni af útgáfu greinargerðarinnar um Myrkurgæði á Íslandi verður haldið málþing um myrkurgæði og ljósmengun miðvikudaginn 23. október, kl. 10–12, í fundarsal Þjóðminjasafnsins. Sjá nánar í frétt um málþingið á vef umhverfisráðuneytisins.  http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2490

Greinargerði er gefin út rafrænt og má skoða hana eða sækja hér.

Hér má sjá auglysinguna .

 

 

Vefur Náttúrustofu Suðausturlands

Vefur Náttúrustofu Suðausturlands hefur formlega verið settur í loftið. Hann var hannaður af Daníel Imsland  (dimms.is) sem einnig hannaði fyrirtækismerkið – logóið.

Á vefinn er fyrirhugað að setja inn fréttir, upplýsingar um verkefni, myndir og viðburði, en einnig er hægt að hafa samband við starfsmenn Náttúrustofu í gegnum fyrirspurnir.

Myndun jökulrennunnar undir Breiðamerkurjökli

2013-1: MYNDUN JÖKULRENNUNNAR UNDIR BREIÐAMERKURJÖKLI

Hvenær og hvernig myndaðist jökulrennan sem Breiðamerkurjökull hvílir í? Er myndun hennar lokið? Jökulsárlón tók að myndast um 1930 við hop Breiðamerkurjökuls en íssjármælingar á síðasta áratug 20. aldar leiddu í ljós 300 m djúpa og 25 km langa rennu sem nær langleiðina upp í Esjufjöll. Botn Breiðamerkurjökuls hvílir í þessari rennu og við áframhaldandi hop jökulsins mun Jökulsárlón stækka . Tvær hugmyndir eru um myndun rennunnar; a) jökullinn hafi rofið hana á litlu ísöld þegar hann skreið fram eða b) rennan myndaðist að mestu eftir að hlýna tók í lok 19. aldar og leysingarvatn tók að grafa hana út. Unnt er að skera úr um hvor tilgátan stenst með úrvinnslu á mæligögnum um yfirborðshæð Breiðamerkurjökuls, frá fyrsta áratug 20. aldar og samanburði við seinni tíma mælingar. Að þessu verkefni vinna: Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur, Helgi Björnsson jöklafræðingur, Náttúrustofa Suðausturlands og Jöklahópur Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Aldursgreining gróðurleifa

2013-2: ALDURSGREINING GRÓÐURLEIFA VIÐ BREIÐAMERKURJÖKUL

Sumarið 2012 fannst setlag með gróðurleifum í jökulaur framan við Breiðamerkurjökul. Setlagaopnan er kominn undan jökli fyrir nokkrum árum og er óhögguð, það er hún situr á sínum upprunalega myndunarstað. Jökullinn skreið yfir þetta svæði fyrir árið 1700 en ofanáliggjandi jökulaur varði setlagið fyrir hnjaski. Í setlaginu fundust rótarbútar og aðrar lífrænar leifar sem gera kleift að aldursgreina myndunartíma setsins. Gróðurleifar og jarðvegshnausar hafa áður borist undan jöklum en sjaldnast fundist á myndunarstað. Þessi einstaki fundur gefur því tækifæri til þess að rannsaka enn frekar og fá skýrari mynd af gróðurfarssögu og loftslagi á Breiðamerkursandi löngu fyrir Litlu ísöld. Það er mikilvægt innlegg í sögu umhverfisbreytinga á Breiðamerkursandi og Vatnajökulsþjóðsgarðs. Að þessu verkefni vinna: Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur, Helgi Björnsson jöklafræðingur, Náttúrustofa Suðausturlands og Jöklahópur Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands

Stjörnuverið á Höfn

Á degi íslenskrar náttúru  16.september bauð Náttúrustofa Suðausturlands upp á stjörnuskoðun í stjörnuveri sem komið var fyrir á bókasafninu í Nýheimum. Stjörnuver er sýndarheimur þar sem áhorfendur sitja eða liggja inni í kúlulaga hvelfingu og sérstakt sýningartæki varpar mynd af stjörnuhimninum á veggi hennar.

Tvær sýningar voru síðdegis á náttúrudeginum fyrir almenning og mættu samtals tæplega 40 manns á þær. Fyrr sama dag og daginn eftir bauð Grunnskóli Hornafjarðar nemendum sínum upp á 14 sýningar og komu þá tæplega 300 nemendur auk kennara í tjaldið. Á miðvikudagsmorgun komu svo um 30 krakkar á leikskólanum Lönguhólum á sýningu sem var sniðin að þeirra aldri.

stjornuverid

 

Stjörnuverið uppblásið á bókasafninu – tilbúið til sýningar.

stornuverid2

Nemendur úr Grunnskóla Hornafjarðar á leið inn í stjörnuverið.

Stjornuverid3

Nokkrir kakkar og starfsmenn á Lönguhólum bíða spennt eftir að þeirra sýning hefjist.

 

Dagur íslenskrar náttúru

Í tilefni af degi íslenskrar náttúru býður Náttúrustofa Suðausturlands, sem nýlega tók til starfa, til stjörnuskoðunar í stjörnuverinu. Stjörnuver er sýndarheimur þar sem áhorfendur sitja eða liggja inni í kúlulaga hvelfingu og sérstakt sýningartæki varpar mynd af stjörnuhimninum á veggi hennar.

Tvær sýningar verða í boði: kl. 16 og kl. 17 þann 16. september í Nýheimum.

Áhugasamir geta sótt miða í bókasafnið samdægurs, en einungis komast 25 manns á hverja sýningu.

Sjá nánar á www.hornafjordur.is  og http://natturumyndir.com/

Allar upplýsingar um ýmsa viðburði um allt land á degi íslenskrar náttúru má sjá á sérstökum vef Umhverfisráðuneytisins http://www.umhverfisraduneyti.is/dagur-islenskrar-natturu-2013/

Minnt er á að Grunnskóli Hornafjarðar mun bjóða öllum sínum nemendum í stjörnuverið en sýningarnar síðdegis eru hugsaðar fyrir alla.

Verið hjartanlega velkomin.